Þann 13. mars 2023 voru liðin 40 ár frá stofnun þeirrar stjórnmálahreyfingar kvenna sem fékk heitið: Samtök um kvennalista en kallaðist jafnan Kvennalistinn í tali og skrifum. Stofnun Kvennalistans 13. mars 1983 var framhald af sögu sem hófst aðeins fyrr, þ.e. þegar stofnuð voru Kvennaframboð, í Reykjavík og á Akureyri og buðu fram í bæjar- og sveitarstjórnarkosningum 1982. Þessi kraftmikla innkoma kvenna í landslag íslenskra stjórnmála ruddi ótal málum braut sem hefðbundin flokkapólitík fram að því hafði ekki sinnt. Áherslan á umhverfis- og náttúruvernd er einn þáttur í þeirri sögu, því að þó svo eitthvað hafi verið rætt um slíka málaflokka hér á landi þá hafði málflutningur Kvennalistans, og áður Kvennaframboðanna í Reykjavík og á Akureyri, þá sérstöðu að kvennabarátta og umhverfisvernd fléttuðust saman.
Vistfemínísk sýn á umhverfismálin
Þegar grafist er fyrir um rætur femínískrar umhverfisverndarstefnu (vistfemínisma) hér á landi er þær að finna í kvennahreyfingum á níunda áratug síðustu aldar. Kvennaframboðskonur og síðan Kvennalistakonur riðu á vaðið í þessu eins og svo mörgu öðru í femínískri orðræðu og aðgerðum. Í bók sinni um Kvennaframboðið í Reykjavík og Kvennalistann á árunum 1982–1987 segir Kristín Jónsdóttir sagnfræðingur að þessi pólitísku samtök hafi sett umhverfismál á oddinn strax í upphafi, bæði í málum Reykjavíkurborgar og í landsmálunum á Alþingi. Þessa gætir víða í gögnum þessara kvennapólitísku hreyfinga.
Í „Laugardagskaffi“ Kvennalistans í Kvennahúsinu þann 27. apríl 1985 var yfirskrift umræðu dagsins „Umhverfismál“ og í dagskrárkynningu sagði: „Hvers vegna skipta umhverfismálin konur svo miklu? Hverju viljum við breyta?“ Stutta svarið við þessu var að í öllum málum skyldi hafa að leiðarljósi að skoða hvort og hvernig ákvarðanir á sviði umhverfismála sneru að hagsmunum og lífi kvenna, ekki síður en karla, enda löng og sterk hefð fyrir að huga aðeins að hlið karla þegar málum var ráðið. Þessu væri kominn tími til að breyta.
Í stuttu máli sagt ber umhverfismál og jafnréttismál oft á góma þegar saga þessara framboða er skoðuð, og sneri bæði að náttúru- og umhverfisvernd í nærsamfélagi, á landsvísu en einnig á alþjóðavísu. Áherslan lá á margt sem lætur kunnuglega í eyrun nú á dögum; meðal annars á aðgerðir til að sporna gegn mengun, stuðla að endurvinnslu og flokkun sorps, á náttúruvernd, stofnun þjóðgarða, friðlýstra svæða og fólkvanga og eflingu útivistarsvæða innan þéttbýlis og við þéttbýlismörk. Einnig bar hátt kall eftir aðgerðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem eins helsta umhverfisvanda samtímans. Kvennalistinn talaði fyrir mikilvægi þess að skipulagsmál og umhverfismál færu saman í þróun byggðar og samfélags. Umhverfismál undir merkjum sjálfbærrar þróunar settu mark á níunda áratuginn í kjölfar Brundtlandskýrslunnar frá árinu 1987 og Kvennalistinn tók sjálfbærnihugtakið í þeim anda inn í sína umhverfismálastefnu.
Í stefnuskrá sem Kvennalistinn lagði fram í stjórnarmyndunarviðræðum vorið 1987, og birt var í Veru, sagði um umhverfismál að áherslan væri lögð á að sett yrði heildarlöggjöf um umhverfismál, og stofnað yrði sérstakt ráðuneyti umhverfismála og undir það safnað tvístruðum málaflokkum umhverfismálanna sem hafði verið dreift á mörg ráðuneyti, til að tryggja skilvirkari vinnubrögð og heildstæðara samráð á öllum sviðum umhverfismála. Gera skyldi landnýtingaráætlun sem tæki fyrst og fremst mið af varðveislu og endurheimt landgæða, og taka skyldi upp markvissa umhverfisfræðslu.
Umhverfisvænir atvinnuvegir og stóriðjustefnu hafnað
Alls flutti Kvennalistinn 18 mál á Alþingi á árunum 1984 til 1994 í baráttu listans fyrir umhverfisvernd í lands- og hnattrænu samhengi eftir málaflokkum. Kvennalistinn hafnaði þeirri stórvirkjana- og stóriðjustefnu sem þá réði ferðinni í afstöðu stjórnvalda til vatnsaflsnýtingar og atvinnuuppbyggingar á Íslandi. Stefna Kvennalistans í virkjunarmálum var sú að nýta ætti vatnsorkuna í þágu íslensks atvinnulífs með öðrum og umhverfisvænni hætti en til stóriðju. Byggja ætti upp smáiðnað, fullnýta íslenskar afurðir og efla atvinnugreinar sem gengju ekki í berhögg við náttúru og líf landsins. Taka bæri tillit til náttúru- og umhverfisverndar við ákvarðanir um atvinnusköpun og framleiðslu. Stóriðja kæmi því ekki til greina sem heppilegur kostur. Rök Kvennalistans gegn stóriðju voru þau að hún væri fjárfrekur, gamaldags og úreltur atvinnukostur sem mengaði og spillti náttúru og raskaði samfélagsgerð. Kvennalistakonur gagnrýndu þáverandi stjórnvöld fyrir þá áherslu sem þau höfðu lagt á uppbyggingu stóriðju í landinu. Álver leystu ekki atvinnuvanda þjóðarinnar, allra síst kvenna, sagði í stefnuskrá flokksins árið 1991, auk þess sem þau kæmu í veg fyrir að Ísland gæti skapað sér ímynd sem land ómengaðrar náttúru, vandaðrar ferðaþjónustu og matvælaframleiðslu. Stóriðja væri karllæg lausn í atvinnumálum þar sem sköpuð væru ófjölskylduvæn störf fyrir karla í mengandi iðnaði og náttúrugæðum fórnað undir virkjanir fyrir orkufrekan ósjálfbæran iðnað í eigu erlendra aðila.
Fyrstar til að vilja friða jökulár frá upptökum til ósa
Kvennalistakonur voru einnig reiðubúnar í róttækar aðgerðir á sviði náttúruverndar. Árið 1991 lögðu allar sex þingkonur listans á Alþingi fram tillögu til þingsályktunar um friðun Hvítár/Ölfusár og Jökulsár á Fjöllum frá upptökum til ósa með rökum um mikið náttúruverndargildi ánna og til að forða þeim undan þeirri virkjunargleði sem hefði ráðið ferðinni fram til þessa, þar sem hvorki væri tekið tillit til þarfa kvenna í atvinnumálum né náttúru- og umhverfisverndar. Þessi róttæka tillaga í anda heildrænnar náttúruverndar naut ekki stuðnings á þessum tíma, enda ríkjandi áhersla á stóriðju og ýmis virkjunaráform á teikniborðinu. Ekki var meirihlutavilji á Alþingi fyrir friðun jökuláa vegna ríkjandi stuðnings við virkjunarhagsmuni.
Kvennalistinn hafði frá upphafi starfsemi sinnar í frammi málflutning á nótum vistfemínískrar hugmyndafræði, það er horft var á umhverfismál og málefni kvenna jöfnum höndum. Það sem einkenndi málflutninginn var að umhverfismálum var kippt upp úr þeim hefðbundnu hjólförum sem karlar við völd höfðu komið þeim í. Í stað meginstraumsviðhorfa dæmigerðrar feðraveldisorðræðu komu kvenfrelsisraddir inn í myndina með áherslu á betri heim fyrir konur og börn, jafnt og karla, en forsenda fyrir slíkum heimi væri meðal annars náttúru- og umhverfisvernd. Í allri stefnumótun í umhverfis- og skipulagsmálum, við mannvirkjagerð og náttúruvernd skyldi taka mið af viðhorfum og þörfum kvenna ekki síður en karla.