Þann 13. mars 2023 voru liðin 40 ár frá stofnun þeirrar stjórn­mála­hreyfingar kvenna sem fékk heitið: Sam­tök um kvenna­lista en kallaðist jafnan Kvenna­listinn í tali og skrifum. Stofnun Kvenna­listans 13. mars 1983 var fram­hald af sögu sem hófst að­eins fyrr, þ.e. þegar stofnuð voru Kvenna­fram­boð, í Reykja­vík og á Akur­eyri og buðu fram í bæjar- og sveitar­stjórnar­kosningum 1982. Þessi kraft­mikla inn­koma kvenna í lands­lag ís­lenskra stjórn­mála ruddi ótal málum braut sem hefð­bundin flokka­pólitík fram að því hafði ekki sinnt. Á­herslan á um­hverfis- og náttúru­vernd er einn þáttur í þeirri sögu, því að þó svo eitt­hvað hafi verið rætt um slíka mála­flokka hér á landi þá hafði mál­flutningur Kvenna­listans, og áður Kvenna­fram­boðanna í Reykja­vík og á Akur­eyri, þá sér­stöðu að kvenna­bar­átta og um­hverfis­vernd fléttuðust saman.

Vist­femínísk sýn á um­hverfis­málin

Þegar grafist er fyrir um rætur femínískrar um­hverfis­verndar­stefnu (vist­femín­isma) hér á landi er þær að finna í kvenna­hreyfingum á níunda ára­tug síðustu aldar. Kvenna­fram­boðs­konur og síðan Kvenna­lista­konur riðu á vaðið í þessu eins og svo mörgu öðru í femínískri orð­ræðu og að­gerðum. Í bók sinni um Kvenna­fram­boðið í Reykja­vík og Kvenna­listann á árunum 1982–1987 segir Kristín Jóns­dóttir sagn­fræðingur að þessi pólitísku sam­tök hafi sett um­hverfis­mál á oddinn strax í upp­hafi, bæði í málum Reykja­víkur­borgar og í lands­málunum á Al­þingi. Þessa gætir víða í gögnum þessara kvenna­pólitísku hreyfinga.

Í „Laugar­dags­kaffi“ Kvenna­listans í Kvenna­húsinu þann 27. apríl 1985 var yfir­skrift um­ræðu dagsins „Um­hverfis­mál“ og í dag­skrár­kynningu sagði: „Hvers vegna skipta um­hverfis­málin konur svo miklu? Hverju viljum við breyta?“ Stutta svarið við þessu var að í öllum málum skyldi hafa að leiðar­ljósi að skoða hvort og hvernig á­kvarðanir á sviði um­hverfis­mála sneru að hags­munum og lífi kvenna, ekki síður en karla, enda löng og sterk hefð fyrir að huga að­eins að hlið karla þegar málum var ráðið. Þessu væri kominn tími til að breyta.

Í stuttu máli sagt ber um­hverfis­mál og jafn­réttis­mál oft á góma þegar saga þessara fram­boða er skoðuð, og sneri bæði að náttúru- og um­hverfis­vernd í nær­sam­fé­lagi, á lands­vísu en einnig á al­þjóða­vísu. Á­herslan lá á margt sem lætur kunnug­lega í eyrun nú á dögum; meðal annars á að­gerðir til að sporna gegn mengun, stuðla að endur­vinnslu og flokkun sorps, á náttúru­vernd, stofnun þjóð­garða, frið­lýstra svæða og fólk­vanga og eflingu úti­vistar­svæða innan þétt­býlis og við þétt­býlis­mörk. Einnig bar hátt kall eftir að­gerðum til að draga úr losun gróður­húsa­loft­tegunda sem eins helsta um­hverfis­vanda sam­tímans. Kvenna­listinn talaði fyrir mikil­vægi þess að skipu­lags­mál og um­hverfis­mál færu saman í þróun byggðar og sam­fé­lags. Um­hverfis­mál undir merkjum sjálf­bærrar þróunar settu mark á níunda ára­tuginn í kjöl­far Brund­t­land­skýrslunnar frá árinu 1987 og Kvenna­listinn tók sjálf­bærni­hug­takið í þeim anda inn í sína um­hverfis­mála­stefnu.

Í stefnu­skrá sem Kvenna­listinn lagði fram í stjórnar­myndunar­við­ræðum vorið 1987, og birt var í Veru, sagði um um­hverfis­mál að á­herslan væri lögð á að sett yrði heildar­lög­gjöf um um­hverfis­mál, og stofnað yrði sér­stakt ráðu­neyti um­hverfis­mála og undir það safnað tvístruðum mála­flokkum um­hverfis­málanna sem hafði verið dreift á mörg ráðu­neyti, til að tryggja skil­virkari vinnu­brögð og heild­stæðara sam­ráð á öllum sviðum um­hverfis­mála. Gera skyldi land­nýtingar­á­ætlun sem tæki fyrst og fremst mið af varð­veislu og endur­heimt land­gæða, og taka skyldi upp mark­vissa um­hverfis­fræðslu.

Um­hverfis­vænir at­vinnu­vegir og stór­iðju­stefnu hafnað

Alls flutti Kvenna­listinn 18 mál á Al­þingi á árunum 1984 til 1994 í bar­áttu listans fyrir um­hverfis­vernd í lands- og hnatt­rænu sam­hengi eftir mála­flokkum. Kvenna­listinn hafnaði þeirri stór­virkjana- og stór­iðju­stefnu sem þá réði ferðinni í af­stöðu stjórn­valda til vatns­afls­nýtingar og at­vinnu­upp­byggingar á Ís­landi. Stefna Kvenna­listans í virkjunar­málum var sú að nýta ætti vatns­orkuna í þágu ís­lensks at­vinnu­lífs með öðrum og um­hverfis­vænni hætti en til stór­iðju. Byggja ætti upp smá­iðnað, full­nýta ís­lenskar af­urðir og efla at­vinnu­greinar sem gengju ekki í ber­högg við náttúru og líf landsins. Taka bæri til­lit til náttúru- og um­hverfis­verndar við á­kvarðanir um at­vinnu­sköpun og fram­leiðslu. Stór­iðja kæmi því ekki til greina sem heppi­legur kostur. Rök Kvenna­listans gegn stór­iðju voru þau að hún væri fjár­frekur, gamal­dags og úr­eltur at­vinnu­kostur sem mengaði og spillti náttúru og raskaði sam­fé­lags­gerð. Kvenna­lista­konur gagn­rýndu þá­verandi stjórn­völd fyrir þá á­herslu sem þau höfðu lagt á upp­byggingu stór­iðju í landinu. Ál­ver leystu ekki at­vinnu­vanda þjóðarinnar, allra síst kvenna, sagði í stefnu­skrá flokksins árið 1991, auk þess sem þau kæmu í veg fyrir að Ís­land gæti skapað sér í­mynd sem land ó­mengaðrar náttúru, vandaðrar ferða­þjónustu og mat­væla­fram­leiðslu. Stór­iðja væri karl­læg lausn í at­vinnu­málum þar sem sköpuð væru ó­fjöl­skyldu­væn störf fyrir karla í mengandi iðnaði og náttúru­gæðum fórnað undir virkjanir fyrir orku­frekan ó­sjálf­bæran iðnað í eigu er­lendra aðila.

Fyrstar til að vilja friða jökul­ár frá upp­tökum til ósa

Kvenna­lista­konur voru einnig reiðu­búnar í rót­tækar að­gerðir á sviði náttúru­verndar. Árið 1991 lögðu allar sex þing­konur listans á Al­þingi fram til­lögu til þings­á­lyktunar um friðun Hvít­ár/Ölfus­ár og Jökuls­ár á Fjöllum frá upp­tökum til ósa með rökum um mikið náttúru­verndar­gildi ánna og til að forða þeim undan þeirri virkjunar­gleði sem hefði ráðið ferðinni fram til þessa, þar sem hvorki væri tekið til­lit til þarfa kvenna í at­vinnu­málum né náttúru- og um­hverfis­verndar. Þessi rót­tæka til­laga í anda heild­rænnar náttúru­verndar naut ekki stuðnings á þessum tíma, enda ríkjandi á­hersla á stór­iðju og ýmis virkjunar­á­form á teikni­borðinu. Ekki var meiri­hluta­vilji á Al­þingi fyrir friðun jökul­áa vegna ríkjandi stuðnings við virkjunar­hags­muni.

Kvenna­listinn hafði frá upp­hafi starf­semi sinnar í frammi mál­flutning á nótum vist­femínískrar hug­mynda­fræði, það er horft var á um­hverfis­mál og mál­efni kvenna jöfnum höndum. Það sem ein­kenndi mál­flutninginn var að um­hverfis­málum var kippt upp úr þeim hefð­bundnu hjól­förum sem karlar við völd höfðu komið þeim í. Í stað megin­straumsvið­horfa dæmi­gerðrar feðra­veldis­orð­ræðu komu kven­frelsis­raddir inn í myndina með á­herslu á betri heim fyrir konur og börn, jafnt og karla, en for­senda fyrir slíkum heimi væri meðal annars náttúru- og um­hverfis­vernd. Í allri stefnu­mótun í um­hverfis- og skipu­lags­málum, við mann­virkja­gerð og náttúru­vernd skyldi taka mið af við­horfum og þörfum kvenna ekki síður en karla.