Samkvæmt rannsóknum velur um helmingur kjósenda stjórnmálaflokk síðustu vikurnar fyrir kjördag, þar af fjórði hver síðasta sólarhringinn.

Fólk skiptir frjálslega um flokka en mikilvægt er að mynda sér stjórnmálaskoðun út frá almennum lífsgildum, fremur en óábyrgum yfirboðum stjórnmálaflokka á örvæntingarfullum atkvæðaveiðum. Hér eru nokkur viðmið.

Efnahagsmál: Hægri – vinstri

Við erum flest nálægt miðjunni „sósíaldemókratar“ og í meginatriðum nokkuð sammála um samfélagsgerð. Við styðjum flest frjálst atvinnulíf, félagslegan jöfnuð, jöfn tækifæri, blandað hagkerfi, virka samkeppni í atvinnulífinu en greinir á um ýmislegt, svo sem hvernig veita á þjónustu sem kostuð er af skattgreiðendum svo sem heilbrigðisþjónustu.

Heilbrigðismál: Opinber rekstur – einkarekstur

Flest erum við sammála um mikilvægi góðrar heilsu, forvarna og góðrar, nánast frírrar heilbrigðisþjónustu, á kostnað skattgreiðenda, en ekki hvernig bæta á þjónustuna.

Við sem erum hægra megin og nálægt miðjunni teljum gagnlegt að bjóða út þjónustuþætti og nýta þannig samkeppnishvata til að bæta þjónustuna og lækka tilkostnað. Þau vinstrisinnuðu telja einkarekstur óheppilegan á þessu sviði, því arðsemiskrafa dragi úr þjónustunni.

Frjálslyndi – íhaldssemi og tengdar skoðanir

Frjálslynt fólk er almennt opið fyrir breytingum, styður alþjóðasamvinnu, er jákvætt gagnvart fleiri nýbúum og styður almannahag umfram sérhagsmuni.

Íhaldssamt fólk vill gjarnan fara hægar í breytingar, er skeptískt á alþjóðasamvinnu, vill takmarka mjög fjölda innflytjenda, er upp til hópa þjóðernissinnað og styður sérhagsmuni svo sem útgerðar og bænda, jafnvel þó það komi niður á almannahag.

Umhverfismál – loftslagsmál

Flest viljum við að mikið verði gert til að koma í veg fyrir loftslagshörmungar vegna hömlulausrar hlýnunar, en okkur greinir á um mikilvægi og leiðir.

Við þau frjálslyndu erum tilbúin til að gera það sem gera þarf, taka fulla ábyrgð, helst án þess að það komi niður á fátæku fólki. Við viljum endurheimta votlendi, stöðva lausagöngu búfjár, stórefla bindingu kolefnis með skógrækt, stórfelldri uppgræðslu lands jafnvel með lúpínu; og græna orkuframleiðslu og jafnvel vindmyllugarða á afviknum stöðum, enda fjárhagslega áhugavert fyrir land og þjóð.

Þau þjóðernissinnuðu og íhaldssömu sem mest verja sérhagsmuni bænda, eru síður til í að stöðva lausagöngu búfjár og endurheimta votlendi, þó það séu ódýrustu og áhrifaríkustu aðgerðirnar til að draga úr losun og auka bindingu kolefna. En þau eru mörg til í vindmyllugarða og að nýta græna orku frá þeim, enda getur það komið hinum dreifðu byggðum vel.

Stjórnarskráin

Flest viljum við nýju stjórnarskrána enda fyrsta stjórnarskráin sem unnin hefur verið hér frá grunni með lýðræðislegum hætti. Hún stuðlar líka að jöfnu atkvæðavægi og gerir almenningi kleift að vísa umdeildum málum í þjóðaratkvæði og fleira gott mætti telja.

En þau íhaldssömu og þjóðlegu sem gæta mest sérhagsmuna útgerðar, bænda og landsbyggðar, vilja hins vegar fara hægt í sakirnar og samþykkja aðeins það sem kemur þeim vel þó það komi niður á almenningi „á mölinni“.

Þróun atvinnulífsins – nýsköpun

Flest viljum við öfluga nýsköpun til að takast á við ný verkefni framtíðar og byggja undir næga velferð og velsæld landsmanna í opnum heimi.

Við þau frjálslyndu erum til í að bæta vaxtarskilyrði hér með stöðugum alþjóðlegum gjaldmiðli, hóflegum sköttum, traustum innviðum og traustu, spillingarlausu lýðræðissamfélagi. Þau þjóðlegu og íhaldssömu vilja hins vegar fara hægar í sakirnar svo það komi örugglega ekki niður á gömlu ríkisvernduðu atvinnuvegunum, jafnvel þó það þýði færri góð atvinnutækifæri hér á landi.

Þú átt leikinn, þitt er valið

Stefnur einstakra stjórnmálaflokka eru í sumu mótsagnakenndar en auðveldlega má þó greina hvar þeir flestir standa á ofangreindum kvörðum.

Almennt er betra að velja flokk með grunnstefnu sem er vænleg fyrir samfélagið, en hlaupa síður eftir uppsprengdum óraunsæjum kosningaloforðum örvæntingarfullra flokka í fallhættu. Vonandi hjálpar þessi samantekt einhverjum til þess að átta sig og velja vel.