Síðast­liðin tvö ár hafa bæði ýkt og hraðað ýmsum breytingum á vinnu­lagi og við­horfi fólks til vinnu, sem þó hafa verið í far­vatninu í nokkurn tíma. Um leið horfum við upp á mikinn skort á vinnu­afli.

Sam­tök iðnaðarins segja að 9.000 manns vanti í hug­verka­geirann á næstu fimm árum ef hann á að geta nýtt vaxtar­tæki­færi sín til fulls og um 8.000 vantar í ferða­þjónustuna, gangi spár um fjölda ferða­manna eftir. Á næstu árum getum við að ó­breyttu einungis mannað um 20% nýrra starfa með náttúru­legri fjölgun á vinnu­markaði.

Þetta er mikill við­snúningur á skömmum tíma, jafn­vel svo að tala megi um vatna­skil á vinnu­markaði. Þessu fylgja ýmsar á­skoranir en líka tæki­færi eins og oft er og um það fjöllum við á Við­skipta­þingi í dag. Vatna­skilin felast líka í breyttum á­herslum og væntingum til vinnunnar, en þegar litið er til þess að ef okkur endist líf og heilsa verjum við flest meira en 10 þúsund dögum í vinnunni yfir ævina er ekkert skrýtið að hún skipti okkur miklu máli.

Til þess að bregðast við starfs­manna­skorti, til lengri og skemmri tíma, þarf að efla mennta­kerfið í því að undir­búa nem­endur fyrir þátt­töku á vinnu­markaði, tengja betur skóla og at­vinnu­líf, og gera eftir­sóknar­vert fyrir er­lent starfs­fólk og sér­fræðinga að setjast að á Ís­landi. Sjálf­virkni­væðing gerir fá­mennri þjóð kleift að nýta krafta sína betur, en við þurfum að vera vakandi fyrir því, hvert og eitt og sem sam­fé­lag, að byggja stöðugt upp nýja hæfni til að sitja ekki eftir þegar störfin breytast eða hverfa og ný verða til.

Það ættu ekki að vera nein tíðindi að starfs­á­nægja haldist í hendur við mögu­leika fólks á að nýta og þróa styrk­leika sína í starfi. Starfs­á­nægja dregur úr starfs­manna­veltu og eykur fram­leiðni. Því má slá því föstu að það sé þjóð­hags­lega mikil­vægt að hafa gaman í vinnunni!