Þegar ég flutti til Íslands fyrir rúmlega 40 árum var þjóðin mjög eins­leit að sjá. Það sást varla neinn einstaklingur með dökka húð, svart hár og framandi klæðaburð. Ég var svo heppin að passa inn í munstrið með mína fölu húð og frekar ljóst hár. Ég kunni ekki bofs í tungumálinu en fékk samt dvalar- og atvinnuleyfi, komst inn í háskóla til að læra íslensku og aflaði mér seinna réttinda til að sinna leiðsögumannsstarfi. Kennaramenntun mín var viðurkennd og gat ég stundað þetta starf um leið og ég var rólfær í íslenskunni. Að vísu varð ég stundum fyrir aðkasti þegar mér sem Þjóðverja var heilsað með „heil Hitler“. En sumir hafa bara gaman af því að finna að einhverju.

Hvar væri ég stödd í dag ef ég kæmi til landsins og vildi búa hér og starfa, væri af öðrum kynstofni með dökka húð eða vildi kannski hylja hár mitt vegna trúarinnar? Myndi dómsmálaráðherrann senda mig úr landi?

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur hafið stríð gegn innflytjendum, ætlar að henda stórum hópi héðan út í óvissu. Margir þeirra hafa unnið hér og fest rætur, lært íslensku og engum verið til ama. Þessi maður er gamaldags, skelfilega íhaldssamur og best er að losna við hann sem fyrst. Eins gott að hans ráðherratíð er að ljúka, enda hefur hann gert lítið gagn heldur verið til vandræða, líka í sínum eigin flokki. Hann mun bráðum fara á feit eftirlaun vegna flokkshollustu sinnar og verði honum bara að góðu.

Nýleg könnun á viðhorfum til innflytjenda sýnir að meirihluti þeirra sem tók þátt er jákvæður í þeirra garð. Það er helst eldri kynslóðin, 65 ára og eldri, sem er frekar neikvæð. En það er víst erfitt að kenna gömlum hundum að sitja. Gleðilegt er að unga kynslóðin er upp til hópa hlynnt því að fólk frá öðrum og líka framandi löndum setjist hér að. Þessir einstaklingar munu opna sjóndeildarhring okkar, auka umburðarlyndi og víðsýni.

Furðulegast af öllu er svo að Samtök atvinnulífsins eru núna að kvarta hástöfum yfir því að það vanti starfsfólk á mjög mörgum stöðum og illa gangi að manna fyrirtækin. Það er haft eftir framkvæmdastjóranum Halldóri Benjamín í Fréttablaðinu þann 16.6. „að vaxandi mannekla hvíli mjög þungt á fólki í nær öllum atvinnugreinum“. Hvernig í ósköpum dettur þá dómsmálaráðherra í hug að vísa fjölda fólks úr landi, fólki sem er fúst til þess að vinna hér og gera gagn?