„At­kvæði greitt VG er at­kvæði greitt árangri í lofts­lags­málum. Það skiptir máli hver stjórnar.“

Þetta er til­vitnun í grein eftir Guð­mund Inga Guð­brands­son fé­lags- og vinnu­markaðs­ráð­herra í að­draganda kosninga fyrir ári. Þá var hann um­hverfis- og auð­linda­ráð­herra.

Greinin er skrifuð í til­efni af því að Ungir um­hverfis­sinnar höfðu nokkrum dögum áður gefið stjórn­mála­flokkununum ein­kunnir fyrir stefnu í lofts­lags­málum. VG fékk 80,3 stig, 0,9 stigum fyrir neðan Pírata í fyrsta sæti og 4 stigum fyrir ofan Við­reisn í þriðja sæti.

Það var sannar­lega á­stæða fyrir VG að fagna þessu mati og meira en sjálf­gefið að nýta það til hins ýtrasta í kosningum um sæti á Al­þingi.

Að ári liðnu er að sama skapi fróð­legt að fylgjast með um­sögnum um stöðu lofts­lags­mála í ljósi þess að fimm ár eru liðin frá því að nú­verandi ríkis­stjórn var mynduð undir for­sæti VG.

Innri og ytri skoðun

Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra minnir okkur reglu­lega á að Ís­land sé frum­kvæðis­þjóð í um­ræðum um lofts­lags­mál á leið­toga­fundum NATO.

Ungir um­hverfis­sinnar virðast aftur á móti ekki sjá fram­lag Ís­lands í al­þjóða­sam­fé­laginu sömu augum. Í maí greindi Vísir frá því mati sam­takanna að ríkis­stjórnin muni að­eins ná að minnka heildar­losun gróður­húsa­loft­tegunda fyrir 2030 um brot af því sem að er stefnt.

Vísir hefur eftir tals­manni sam­takanna að þau gefi ríkis­stjórninni fall­ein­kunn. Það er nokkuð harður dómur. Nú stað­hæfir ASÍ svo að ríkis­stjórnin láti launa­fólk bera þyngri bagga en fyrir­tækin í lofts­lags­málum.

Á lofts­lags­deginum í byrjun maí sagði um­hverfis­ráð­herra að Ís­land stæði nú að baki þeim þjóðum, sem við vildum helst jafna okkur til í lofts­lags­málum. Þetta er sjálfs­mat eftir fimm ára ríkis­stjórnar­sam­starf.

Græna skýrslan

Í mars kom út græn skýrsla um á­skoranir í orku­málum með hlið­sjón af stefnunni í lofts­lags­málum. Skýrslan var unnin á tveimur mánuðum og sýnir að um­hverfis­ráð­herra skortir ekki metnað til að ná árangri.

Höfundar skýrslunnar, sem eru trúnaðar­menn ríkis­stjórnarinnar, lyftu rauða spjaldinu með því að segja að að­gerðir í orku­öflun hefðu ekki fylgt eftir mark­miðum um orku­skipti.

Í byrjun hafði ríkis­stjórnin 22 ár til að á­kveða orku­öflun fram til loka orku­skipta 2040, en hefur nú að­eins 17 ár. Fimm ár án stefnu­markandi á­kvarðana um orku­öflun eru dýr­keypt.

Græna skýrslan segir einnig að ríkis­stjórnin þurfi að velja leiðir að mark­miðinu um full orku­skipti. Það átti hún vita­skuld að gera fyrir fimm árum.

Af­greiðsla ramma­á­ætlunar í vor var svo fyrsta tæki­færið eftir rauða spjaldið í grænu skýrslunni. Samt var á­kveðið að velja ekki leið og setja orku­öflunar­á­kvarðanir á­fram í bið­flokk.

„Fimm ár án stefnu­markandi á­kvarðana um orku­öflun eru dýr­keypt“

Lofts­lags­ráð

Í byrjun júní sam­þykkti lofts­lags­ráð á­skorun til ríkis­stjórnarinnar um að fram­fylgja af mun meiri festu þeim á­kvörðunum, sem þegar hafa verið teknar og hraða frekari stefnu­breytingum og að­gerðum í lofts­lags­málum.

Stöðu­mat lofts­lags­ráðs um losun er svo­hljóðandi: „Mark­mið um sam­drátt í losun gróður­húsa­loft­tegunda fyrir 2030 eru ó­ljós og ó­full­nægjandi. Nauð­syn­legt er að stjórn­völd skýri og út­færi þessi mark­mið nánar.“

Í lok júní birti lofts­lags­ráð svo greinar­gerð um sam­hæfingu opin­berra fjár­mála og lofts­lags­mála. Þar segir: „Af lestri fjár­mála­á­ætlunar er erfitt að átta sig á því hvaða for­sendur, gögn og greiningar liggja að baki for­gangs­röðun fjár­muna og hvaða á­vinnings er að vænta af fram­lögum til ein­stakra að­gerða.“

Þessar til­vitnanir benda ekki bein­línis til þess að verið sé að fjalla um fimm ára feril ríkis­stjórnar, sem fari fyrir öðrum þjóðum í lofts­lags­málum.

Hitt stendur ó­haggað

Ríkis­stjórnin getur létti­lega blásið á mat Ungra um­hverfis­sinna, þó að það hafi verið gagn­legt fyrir ári. En hún á erfiðara með að virða að vettugi álit um­hverfis­ráð­herra sjálfs, nefndar á hans vegum og lofts­lags­ráðs, sem er sjálf­stæð óháð opin­ber stofnun.

Þó að ein­vörðungu sé horft á innri skoðun opin­berra aðila verður ekki séð að raun­veru­leikinn rími við sjálfs­mynd Ís­lands í lofts­lags­málum á leið­toga­fundum NATO.

Hitt stendur ó­haggað, sem vara­for­maður VG sagði fyrir kosningar: „Það skiptir máli hver stjórnar.“