„Atkvæði greitt VG er atkvæði greitt árangri í loftslagsmálum. Það skiptir máli hver stjórnar.“
Þetta er tilvitnun í grein eftir Guðmund Inga Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra í aðdraganda kosninga fyrir ári. Þá var hann umhverfis- og auðlindaráðherra.
Greinin er skrifuð í tilefni af því að Ungir umhverfissinnar höfðu nokkrum dögum áður gefið stjórnmálaflokkununum einkunnir fyrir stefnu í loftslagsmálum. VG fékk 80,3 stig, 0,9 stigum fyrir neðan Pírata í fyrsta sæti og 4 stigum fyrir ofan Viðreisn í þriðja sæti.
Það var sannarlega ástæða fyrir VG að fagna þessu mati og meira en sjálfgefið að nýta það til hins ýtrasta í kosningum um sæti á Alþingi.
Að ári liðnu er að sama skapi fróðlegt að fylgjast með umsögnum um stöðu loftslagsmála í ljósi þess að fimm ár eru liðin frá því að núverandi ríkisstjórn var mynduð undir forsæti VG.
Innri og ytri skoðun
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra minnir okkur reglulega á að Ísland sé frumkvæðisþjóð í umræðum um loftslagsmál á leiðtogafundum NATO.
Ungir umhverfissinnar virðast aftur á móti ekki sjá framlag Íslands í alþjóðasamfélaginu sömu augum. Í maí greindi Vísir frá því mati samtakanna að ríkisstjórnin muni aðeins ná að minnka heildarlosun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 um brot af því sem að er stefnt.
Vísir hefur eftir talsmanni samtakanna að þau gefi ríkisstjórninni falleinkunn. Það er nokkuð harður dómur. Nú staðhæfir ASÍ svo að ríkisstjórnin láti launafólk bera þyngri bagga en fyrirtækin í loftslagsmálum.
Á loftslagsdeginum í byrjun maí sagði umhverfisráðherra að Ísland stæði nú að baki þeim þjóðum, sem við vildum helst jafna okkur til í loftslagsmálum. Þetta er sjálfsmat eftir fimm ára ríkisstjórnarsamstarf.
Græna skýrslan
Í mars kom út græn skýrsla um áskoranir í orkumálum með hliðsjón af stefnunni í loftslagsmálum. Skýrslan var unnin á tveimur mánuðum og sýnir að umhverfisráðherra skortir ekki metnað til að ná árangri.
Höfundar skýrslunnar, sem eru trúnaðarmenn ríkisstjórnarinnar, lyftu rauða spjaldinu með því að segja að aðgerðir í orkuöflun hefðu ekki fylgt eftir markmiðum um orkuskipti.
Í byrjun hafði ríkisstjórnin 22 ár til að ákveða orkuöflun fram til loka orkuskipta 2040, en hefur nú aðeins 17 ár. Fimm ár án stefnumarkandi ákvarðana um orkuöflun eru dýrkeypt.
Græna skýrslan segir einnig að ríkisstjórnin þurfi að velja leiðir að markmiðinu um full orkuskipti. Það átti hún vitaskuld að gera fyrir fimm árum.
Afgreiðsla rammaáætlunar í vor var svo fyrsta tækifærið eftir rauða spjaldið í grænu skýrslunni. Samt var ákveðið að velja ekki leið og setja orkuöflunarákvarðanir áfram í biðflokk.
„Fimm ár án stefnumarkandi ákvarðana um orkuöflun eru dýrkeypt“
Loftslagsráð
Í byrjun júní samþykkti loftslagsráð áskorun til ríkisstjórnarinnar um að framfylgja af mun meiri festu þeim ákvörðunum, sem þegar hafa verið teknar og hraða frekari stefnubreytingum og aðgerðum í loftslagsmálum.
Stöðumat loftslagsráðs um losun er svohljóðandi: „Markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 2030 eru óljós og ófullnægjandi. Nauðsynlegt er að stjórnvöld skýri og útfæri þessi markmið nánar.“
Í lok júní birti loftslagsráð svo greinargerð um samhæfingu opinberra fjármála og loftslagsmála. Þar segir: „Af lestri fjármálaáætlunar er erfitt að átta sig á því hvaða forsendur, gögn og greiningar liggja að baki forgangsröðun fjármuna og hvaða ávinnings er að vænta af framlögum til einstakra aðgerða.“
Þessar tilvitnanir benda ekki beinlínis til þess að verið sé að fjalla um fimm ára feril ríkisstjórnar, sem fari fyrir öðrum þjóðum í loftslagsmálum.
Hitt stendur óhaggað
Ríkisstjórnin getur léttilega blásið á mat Ungra umhverfissinna, þó að það hafi verið gagnlegt fyrir ári. En hún á erfiðara með að virða að vettugi álit umhverfisráðherra sjálfs, nefndar á hans vegum og loftslagsráðs, sem er sjálfstæð óháð opinber stofnun.
Þó að einvörðungu sé horft á innri skoðun opinberra aðila verður ekki séð að raunveruleikinn rími við sjálfsmynd Íslands í loftslagsmálum á leiðtogafundum NATO.
Hitt stendur óhaggað, sem varaformaður VG sagði fyrir kosningar: „Það skiptir máli hver stjórnar.“