Markmiðið með Alþjóðlega jafnlaunadeginum, sem haldinn var í annað sinn nýverið, er að vekja athygli á aðgerðum sem stuðla að launajafnrétti og hvetja til frekari aðgerða til að jafna laun kvenna og karla. Um er að ræða gamla slagara eins og launamismun kynja og launabilið sem nú á að brúa á 257 árum.

Minna er gert úr mannauði kvenna þegar litið er til menntunar, reynslu og þjálfunar og það eru alls ekki fleiri gráður sem konur þurfa heldur endurmat á virði starfa. Það er það sem við þurfum öll. Auðvitað er eina vitið að fólk læri nýja hæfni á lífsleiðinni og uppgötvi sig aftur og aftur á tímum breytinga en hér er það tekið út fyrir sviga.

Útgangs­punkturinn er að þrátt fyrir aukna menntun kvenna og mannkosti hafa þær síður náð í æðstu stjórnunarstöður, þeim er enn ætlað að axla heimilisábyrgð samhliða því að ná langt í karllægu vinnuumhverfi samtímans – og enn hallar á konur er kemur að launum og áhrif kynjaðs vinnumarkaðar ná á efri árin þar sem tekjumunur kynjanna fer upp í gegnum kerfið og alla leið í lífeyrissjóðinn.

Á Jafnlaunadegi í ár kom fram að konur vinna tvisvar og hálfum sinnum meiri ógreidda vinnu á heimilinu en karlar. Upplifun af heimilinu er því afar kynbundin, körlum í hag, og konur sitja því ekki við sama borð og karlar þegar kemur að því að nýta sér jafnréttið. Heimilisstörfin erfast milli kynslóða kvenna og breytingar á samfélagsgerðinni eru nauðsynlegar svo árangur náist.

Jafnrétti kynjanna átti að koma með kosningarétti og svo með menntun kvenna en í ljósi vanmetinna hlutverka og lítillækkaðra gilda kvenna er endurskilgreining á hvað er gott, flott og æskilegt það sem þarf. Það er þekkt stærð að fjölmargar kvennastéttir eiga að borða starfsánægju í öll mál og mér sýnist sem svo að konur þurfi margt, en alls ekki fleiri háskólagráður.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA).