Diljá Mist Einarsdóttir, ungur þingmaður Sjálfstæðisflokks, skrifar grein í blaðið 9. marz með fyrirsögninni „ESB og evran til bjargar“. Fjallar hún þar um verðbólguástandið hér og í ýmsum Evrópulöndum svo og nokkra þætti efnahagsmála. Greinir hún sumt vel og rétt, annað ekki. Enn annað í hennar málflutningi vekur furðu.

Hún segir, að verðbólga hér sé af öðrum toga, en verðbólgan í öðrum Evrópulöndum. Það er rétt.

Svo segir hún, að vaxtaprósenta í ESB, væntanlega í evru-löndunum 26, sé jafn misjöfn og löndin eru mörg. Þarna reynir Diljá að villa um fyrir lesendum, eða þá veit hún veit ekki betur, því ECB, Evrópski seðlabankinn, ræður stýrivöxtum í þessum 26 löndum, og þeir gefa auðvitað tóninn um það, hverjir vextir viðskiptabanka eru, þó að þeir sveiflist nokkuð á frjálsum bankamarkaði, þar sem full samkeppni ríkir, andstætt fákeppninni hér.

Stýrivextir í evru-löndum eru nú 3,0%, hér 6,5%, en verðbólga í Evrópu og hér 10%, eins og þingkonan segir réttilega, en hún fer ekkert í saumana á því, af hverju vextir séu helmingi hærri hér, við sömu verðbólguskilyrði. Skyldi það ekki vera krónu/evru-spurning?

Það, sem vekur undrun við lestur greinar þingmannsins, er sú fullyrðing, að ESB-leiðtogar beri ábyrgð á orkukrísunni í Evrópu. Þingmaðurinn virðist ekki átta sig á, að Pútín, innrás Rússa í Úkraínu, er orsök tímabundinnar orkukreppu í Evrópu.

Diljá yfirsézt líka, hver kjarni málsins í umræðunni um ESB-/evru-málin er.

Hún virðist telja, að úttektin og matið á því, hvort Íslendingar eigi að ganga að fullu í ESB og taka upp evru, skuli byggjast á því, hvernig gengur með fulla ESB-aðild og evru í öðrum löndum.

Þetta er grundvallarmisskilningur! Slík úttekt og mat verður fyrst og fremst að byggjast á því, hvernig Íslandi vegnar, annars vegar, utan ESB með krónu, og, hins vegar, hvers vænta mætti, ef við værum með fulla ESB-aðild og evru; Ísland utan ESB og með krónu versus Ísland í ESB með evru hlýtur að vera samanburðurinn.

Þróun og staða í öðrum löndum, í ESB eða utan, með eða án evru, skipta hér engu höfuðmáli, því öll eru þessi lönd ólík, bæði fólk/fólksfjöldi, bakgrunnur og saga, landafræði og landgæði, loftslag, atvinnuvegir og aðrar aðstæður.

Rétt er líka að árétta, að megin­orsök verðbólgu á meginlandi Evrópu er stórhækkað orkuverð, margföldun þess, í kjölfari Úkraínu­stríðsins, og, að þessi vandi er að miklu leyti ekki til staðar hér, og er þar með ekki verðbólguvaldur hér, því vatns­afls­raf­orkan okkar og heitt vatn hefur ekki hækkað. Verðbólguvaldurinn hér er því allt annar. Fer nánar í það í annarri grein.

Af tilefni greinar Diljár Mistar vil ég enn einu sinni rifja upp helztu punktana, sem gilda, þarf að skoða og greina, varðandi mögulega ESB-aðild okkar og upptöku Evru:

  1. Í gegnum EES- og Schengen-samningana erum við nú þegar 80–90% í ESB, en án áhrifa og valda; við erum hvorki með þingmenn á Evrópuþinginu, kommissar, ráðherra, í Brussel né aðgang að umræðu og ákvörðunum.
  2. Með fullri aðild fengjum við sex þingmenn á Evrópuþingið, kommissar í Brussel, eins og öll hin aðildarríkin, og setu við borðið.
  3. Eins og öll aðildarríkin fengjum við neitunarvald gagnvart öllum helztu stefnumálum og ákvörðunum sambandsins. Við gætum látið rödd okkar heyrast og tryggt okkar eigin hagsmuni.
  4. Ætla má, að við myndum halda fullum yfirráðarétti yfir okkar auðlindum, fiskimiðum, eins og Malta, þegar hún varð aðildarríki.
  5. Ég tel líka, að við gætum tryggt hagsmuni og stöðu íslenzks landbúnaðar við inngöngu, eins og Finnum og Svíum tókst, vegna „norrænnar legu“.
  6. Með evru myndum við vita, hvað við eigum og skuldum. Hvorutveggja myndi haldast stöðugt og óbreytt.
  7. Vaxtakostnaður einstaklinga, fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkisins myndi haldast lágur; að meðaltali þriðjungur af krónu-vöxtum.
  8. Heildarvaxtasparnaður lántakenda landsins gæti numið um 300 milljörðum á ári (heildarskuldsetning landsmanna 6.000 milljarðar, vextir hér 4–6% yfir vöxtum í evrulöndum).
  9. Vextir á lánum myndu ekki breytast, hækka, við stýrivaxtahækkanir, svo lengi sem lánasamningar væru í gildi.
  10. Íbúðakaupendur myndu ekki þurfa að greiða íbúðir sínar 3–4 sinnum, með vöxtum, eins og hér, en íbúðakaupendur evru-landa greiða þær 1,5 sinnum.
  11. Erlendar smásölukeðjur og -bankar kæmu hér inn, sem myndi stórauka samkeppni og lækka vöruverð og þjónustugjöld.
  12. Erlendir fjárfestar myndu koma hér inn og örva uppbyggingu og tryggja auknar framfarir og velsæld.
  13. Ef við getum ekki tryggt okkar hagsmuni við samningaumleitanir, förum við ekki inn.

Það væri fróðlegt að vita, hvað þingkonan telur um þessi 12–13 atriði!? Skjót svör vel þegin.

Lars Jonung, hagfræðiprófessor og einn helzti fræðimaður Evrópu í gengisstefnumálum, sem var fenginn til að vinna álitsgerð um gjaldmiðlamál Íslands, ályktaði: „Þið væruð mun ríkara land með annað peningakerfi, en það kerfi sem þið hafið haft síðustu hundrað árin.“

Þarna bar hagfræðingurinn saman krónu og evru.

Telur alþingiskonan unga sig kannske vita betur? Það væri þá gott, að heyra um það!