Trigger Warning/Hætta á váhrifum: Greinin fjallar um kynbundið ofbeldi gagnvart feitu fólki.

Í nútíma samfélagi er feitt fólk jaðarsettur hópur sem verður fyrir kerfisbundinni mismunun. Rannsóknir sl. sex áratuga hafa leitt það í ljós. Þegar við sjáum feita manneskju hefur samfélagið skilyrt okkur til að dæma hana út frá staðalmyndum s.s. að hún sé löt, gráðug, óaðlaðandi, heimsk og siðferðislega óæðri. Umhverfið ýtir undir þessar staðalmyndir með því að sýna feitt fólk í þessu neikvæða ljósi í fjölmiðlum, oft á þann hátt að það vekji upp viðbjóðstilfinningu og reiði meðal neytenda efnisins. Eftir að Alþjóða Heilbrigðisstofnun (WHO) skilgreindi offitu sem faraldur árið 2000, varð hinn feiti líkami einnig byrði á heilbrigðiskerfinu og samfélaginu öllu. Feitt fólk er í dag hið fullkomna dæmi um hinn óhlýðna borgara sem mætir útskúfun samfélagsins fyrir meinta óhlýðni. Samfélagsleg orðræða þess eðlis dynur á okkur úr öllum áttum, alla daga og hefur gert í áratugi. Afleiðing þess er að feitt fólk hefur verið afmennskað á kerfisbundinn hátt af samfélaginu. Feitt fólk er þannig talið vera síður mennskt en grannt fólk og eigi þar af leiðandi ekki virðingu skilið. Við teljum okkur einnig geta gert meira tilkall til feitra líkama sem birtist í forsjárhyggju yfir feitu fólki þegar kemur að fæðuvali og lífsstíl. Hinn feiti líkami verður þannig sameign samfélagsins. Þessi hugsunarháttur er bæði meðvitaður og ómeðvitaður og má finna hann hjá okkur öllum, þó í mismiklum mæli, óháð því hvort við séum sjálf feit eða ekki. Fitufordómar og fituhatur er svo kyrfilega innviklað í menningu okkar og huga að við eigum flest erfitt með að bera kennsl á þessi fyrirbæri, hvað þá andmæla þeim.

Þetta er megin ástæðan fyrir því að lítið sem ekkert hefur þó verið rætt um feitt fólk og þær einstöku birtingarmyndir kynbundis ofbeldis sem það verður fyrir þrátt fyrir að það sé viðurkennd staðreynd að jaðarsetning greiði leiðina fyrir ofbeldi í nánum samböndum og kynferðisofbeldi. Jaðarsetning vegna holdafars magnar þannig upp það kynbundna ofbeldi sem feitar konur og kvár verða fyrir rétt eins og jaðarsetning á grundvelli kynhneigðar, kynvitundar, fötlunar, uppruna, stéttar, kynþáttar og húðlitar.

Þessi jaðarsetning birtist ekki einungis í formi grófs ofbeldis heldur á ákveðnu rófi eða píramíða, rétt eins og sjá má í kenningum um nauðgunarmenninguna og stigskiptingu hennar. Í neðri lögum píramíðans mætti þannig finna útlitsdýrkun og þann samfélagslega sannleik að til að teljast fallegur og kynþokkafullur þurfi líkami að vera grannur; brandara um hversu óaðlaðandi feitir líkamar séu; hugmyndir um að feitt fólk eigi að taka kynferðislegri áreitni sem hrósi; og svo vanvirðingin og lítillækkunin sem felst í því þegar bólfélagar feits fólks vilja halda sambandinu leyndu og forðast að sjást með því á almannafæri. Efri lög pýramíðans samanstanda síðan af stigvaxandi og grófara andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi þar sem ýktustu birtingarmyndina má sjá í fyrirbæri sem nefnist hogging.

Andlega ofbeldið lýsir sér oft þannig að þolendur þess eru kallaðir feitir og ógeðslegir og eru þeir ítrekað minntir á að enginn annar en gerandinn gæti mögulega viljað eiga við þá náin kynni vegna þess. Þegar samfélagsleg orðræða einkennist síðan af því að feitt fólk sé ógeðslegt, óaðlaðandi og afbrigðilegt og styður þannig við orð gerandans verða til nær óyfirstíganlegir múrar sem varna þolendum útgöngu úr ofbeldissambandinu. Oft reyna gerendur einnig að stjórna fæðuinntöku og hreyfingu maka sinna í því skyni að móta líkama þeirra eftir þeirra höfði og tala opinskátt um kynferðislega aðlöðun sína að konum og kvárum sem falla nær „fyrirmyndar”-líkama samfélagsins. Ástæðan fyrir því að þessi tegund ofbeldis er jafn falin og raun ber vitni er sú að að það er samfélagslega samþykkt að telja ofbeldið sem hjálplegt. Það er auðvelt fyrir gerandann að smána líkama feits þolanda síns þegar samfélagið viðurkennir ekki bara smánunina heldur fagnar henni því hún gæti haft þau áhrif að hinn feiti einstaklingur „taki sig loksins á”. Í skýrslu Kvennaathvarfsins frá árinu 2018 um líðan og upplifun þolenda heimilisofbeldis og persónuleikaeinkenni ofbeldismanna kom meðal annars fram að gerendur hefðu notað holdafar þolendana sem afsökun fyrir ofbeldinu.

Þegar kemur að kynferðisofbeldi má finna tvö mótsagnarkennd þemu. Annars vegar hefur feitt fólk verið afkynjað og talið svo óaðlaðandi að nær óhugsandi sé að nokkur vilji stunda kynlíf með því. Hinsvegar hefur það einnig verið blætisgert og má sjá merki þess í ákveðnum tegundum klámefnis sem einblínir á feitt fólk. Afkynjunin er þó meira ráðandi í almennri orðræðu og hefur hún meðal annars þær afleiðingar að feitum þolendum kynferðisofbeldis er síður trúað því þeir eru álitnir of óaðlaðandi til að nokkur myndi vilja nauðga þeim. Í þeim fáu tilfellum sem þeim er trúað mæta þolendur oft því viðmóti að þeir eigi að telja sig heppna að einhver skuli hafa aumkað sér yfir þeim og gert þeim kynferðislegan greiða. Það er því ekki erfitt ímynda sér af hverju feitir þolendur eiga sérstaklega erfitt með að stíga fram með reynslu sína. Hér verður að árétta að kynferðisofbeldi snýst ekki um kynlíf né kynferðislega aðlöðun heldur vald gerandans yfir þolandanum.

Ýktasta og alvarlegasta birtingarmynd kynferðisofbeldis sem við vitum að feitar konur verða fyrir kallast hogging á ensku. Um er að ræða skipulagt kynferðisofbeldi þar sem hópar karlmanna í skemmtanaleit sækja bari eða skemmtanir í þeim eina tilgangi að finna feita konu til að stunda kynlíf með sér. Oft gera þeir með sér veðmál um hver þeirra sé líklegastur til að ná tilætluðu markmiði það kvöldið og einnig hafa verðlaun verið í boði fyrir að sofa hjá feitustu konunni. „Kynlífið” sjálft einkennist svo oft af því að þeir smána og niðra þolandann á meðan því stendur. Gerendurnir deila síðan sögum sínum innan hópsins í þeim tilgangi að styrkja tengsl sín innbyrðis og öðlast virðingu.

Kröfuskilti úr Druslugöngunni 2017.
Mynd/Aðsend

Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á þessari tegund kynferðisofbeldis skera sig úr að því leytinu til að í þeim er rætt við gerendur en ekki þolendur. Þetta gefur okkur einstaka innsýn í hugarheim þeirra en sýnir okkur jafnframt svart á hvítu hversu gjörsamlega samfélaginu hefur tekist að afmennska feitar konur. Þetta sjáum við ekki síst í nafninu, hogging, sem vísar til þess berum orðum að gerendurnir líti á feitar konur sem svín. Komið hefur í ljós að karlmenn sem taka þátt í þessum athöfnum réttlæta gjörðir sínar með þeirri röksemdarfærslu að feitar konur kjósi að vera útlitslega afbrigðilegar og þær eigi meðferðina því skilið eða þá að athæfi þeirra séu skaðlaus þar sem feitar konur eru taldar vera til í hvað sem er og þær séu örvæntingarfullar eftir kynlífi sökum útlits þeirra. Þeir séu því að gera þolendum sínum greiða. Alvarlegasta birtingarmynd hogging, sem ekki verður farið nánar út í hér, inniheldur athafnir sem ekki er hægt að túlka öðruvísi en sem hópnauðgun.

Lítið hefur heyrst frá þolendum þessa fitufordómafulla kynferðisofbeldis, jafnvel í valdeflingu MeToo-bylgna undanfarinna ára. Það er ekki vegna þess að þeir eru ekki til heldur er nærri óyfirstíganlegt að stíga fram með reynslu sína í því fituhatandi samfélagi sem við búum í. Fitufordómar, afmennskun feits fólks og ljót framkoma er samfélagslega samþykkt og réttlætt. Þannig hefur gerendum tekist að þagga niður í feitum þolendum sínum; með því að beita samfélaginu öllu og viðhorfi þess fyrir sig.

Okkur hefur ekki tekist að skapa umhverfi sem veitir feitum konum og kvárum pláss og leyfi til að tjá sig um reynslu sína. Í raun erum við varla byrjuð. Þolendurnir eru þarna úti. Við vitum það því gerendurnir hafa verið óhræddir við að stíga fram og taka þátt í viðtölum við rannsakendur og blaðafólk þar sem þeir segja frá ofbeldinu og jafnvel hreykja sér af því.

Við verðum sem samfélag að samþykkja og viðurkenna feitt fólk, og sérstaklega feitar konur og kvár, sem jaðarsettan hóp sem þarf að hlúa sérstaklega að. Ofbeldi gagnvart þessum hóp tekur á sig birtingarmyndir sem ekki sjást annars staðar og við munum aldrei ná að uppræta nauðgunarmenninguna án þess að þekkja allar þessar birtingarmyndirnar, hjálpa þolendum að setja upplifanir þeirra í samfélagslegt samhengi og setja orð á þær og gera gerendurna ábyrga fyrir gjörðum sínum.

Höfundur er félagsráðgjafi og forman Samtaka um líkamsvirðingu.

Þessi grein er uppfærð útgáfa af grein sem birtist upphaflega í stafrænni druslugöngu tímaritsins Vía árið 2020.

Heimildir sem stuðst var við:

Big Game Hunters

Men, Sex, and Homosociality

''Knocking off a fat girl:'' an exploration of hogging, male sexuality, and neutralizations

Achieving masculinity through sexual predation: the case of hogging

Gailey, J.A. and Prohaska, A., 2007. Bad boys in bars: hogging and humiliation. In: M.D. McShane and F.P. Williams, III, eds. Youth violence and delinquency interventions: monsters and myths.

The Shape of Abuse

Fat Women as “Easy Targets”

The hyper (in) visible fat woman: Weight and gender discourse in contemporary society

Abundantly Invisible: Fat Oppression as a Framework for Sexual Violence Against Women

Violence Against Fat Women: An Intersectional Analysis

Líðan og upplifun þolenda heimilisofbeldis & persónuleikaeinkenni gerenda

Og síðast en ekki síst frásagnir feitra kvenna sem hafa treyst mér fyrir þeim.