Í annað sinn á stuttum tíma hefur kvika brotið sér leið upp á yfirborðið á Reykjanesi. Fyrir augum okkar allra ýmist í gegnum vefmyndavélar eða út um stofugluggann. Í þægilegri fjarlægð en samt svo óhuggulega nálægt. Og þjóðin fylgist með í andakt .

Það verður ekki af flekaskilunum skafið. Þau kunna svo sannarlega að skipuleggja viðburði. Til áhrifaauka fyrir gesti og gangandi.

Nú veit ég ekki hvernig ykkur líður með þetta allt saman en ég hef alltaf átt mjög erfitt með að mynda mér skoðun á eldgosum.

Auðvitað hrífst maður með og fylgist með stórbrotnu sjónarspilinu en ég á bara svo erfitt með að ná utan um allar blendnu tilfinningarnar sem fylgja svona hamförum.

Er verið að segja okkur að flykkjast að eða forða okkur? Er verið að hóta okkur eða skemmta okkur? Er landið að rifna í sundur eða erum við loksins búin að finna heppilegan bakgrunn fyrir prófílmyndina? Ég veit ekkert hvað mér á að finnast.

Það getur vel verið að einhverjum finnist þetta óttalega tíkarlegt allt saman. Einhvers konar ræfill jafnvel. En það er bara ekki það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég sé glóandi hraun í túnfætinum eða banvænar eiturgufur yfir Reykjanesbrautinni. Slíkar forynjur fylla mig vanmætti.

En svo birtist Víðir á skjánum og segir mér að anda með nefinu. Hann veit ekkert meira en við en mér er bara alveg sama. Ég treysti honum.

Víðir hefur þann aðdáunarverða eiginleika að hann fær mann jafnan til að hugsa. Um samhengi eldsumbrota.

Sennilega er þetta einn af þeim þáttum sem gera það að verkum að manni þykir óendanlega vænt um þetta land.

Land sem getur stundum verið dulítið erfitt og þungt en alltaf skal það samt vera jafn tilkomumikið. Aldrei nokkurn tímann leiðinlegt eða óáhugavert.

Ef Ísland væri lýsingarorð þá væri það sennilega alltaf í efsta stigi. Eitt allsherjar hlaðborð öfgakenndra tilfinninga. Sem hírast djúpt ofan í jarðskorpunni. Uns allt springur í loft upp.

Dálítið eins og umræðuhefð íslensku þjóðarinnar. Sem brýtur sér leið upp á yfirborðið með reglulegu millibili þar til allt ætlar um koll að keyra.

Það læra þjóðir sem fyrir þeim er haft.