Það er skrýtið, að það þurfi mann eins og mig, mann utan úr bæ til að benda á hlut sem hefur verið fullsannaður og óumdeildur í meira en hundrað ár, nefnilega, að jörðin hefur verið að kólna og þorna í um átta þúsund ár. Raunar var lægsta punktinum í þessari kólnun náð um aldamótin 1900, þegar jöklar voru þeir mestu frá „ísöld“ (jökulskeiði) en síðan hefur dálítil uppsveifla verið, um 0,8 gráður frá 1880.

Þetta ættu allir, sem titla sig „vísindamenn“ og gefa yfirlýsingar um loftslagsmál að vita. Viti þeir þetta ekki eru þeir einfaldlega ekki marktækir.

Og hvar í ósköpunum er þetta litla orð „aftur“? Af hverju tala allir, ekki síst þeir sem titla sig „vísindamenn“ um „hlýnun“ þegar rétt er að segja „endurhlýnun“?

Málið er alls ekki umdeilt. En af hverju talar enginn lengur um það?

Það er ekki eins og það séu nein ný tíðindi að loftslag á jörðinni hefur verið að kólna og þorna í um 7-8 þúsund ár. Það var nefnilega fyrir langalöngu, um aldamótin 1900, sem Norðmaðurinn Axel Blyth og Svíinn Rutger Sernander gerðu grein fyrir rannsóknum sínum á gróðri í mýrum Skandinavíu með tilliti til loftslags fyrri alda og árþúsunda. Nýrri rannsóknir, m.a. á borkjörnum í Grænlandsjökli og Suðurskautslandinu, hafa síðan fyllt út í myndina en í raun litlu bætt við niðurstöður Blyth-Sernanders. Má t.d. benda á ágæta bók Helga Björnssonar jöklafræðings, en þar kemur m.a. fram, að Vatnajökull fór fyrst að myndast um sama leyti og Forn-Egyptar reistu pýramída sína, þ.e. fyrir um 4.500 árum.

Það var fyrir rúmlega tíu þúsund árum, að jökulskildirnir miklu bráðnuðu og yfirborð sjávar hækkaði um marga tugi metra. Þetta flokkast undir mannkynssögu, ekki jarðsögu, eins og flestir halda, árþúsundir, ekki ármilljónir.

Loftslag á jörðinni hefur nefnilega verið að kólna og þorna síðan fyrrnefnd „hamfarahlýnun“ náði hámarki fyrr 7-8 þúsund árum, en það tímabil nefndu Blyth og Sern­ander „atlantíska skeið bórealska tímans“ sem einnig er nefnt „holocen-hámarkið“.

Þessi kólnun og þornun verður í sveiflum og rykkjum, en þrátt fyrir allar sveiflur og sveiflur innan í öðrum sveiflum kólnar og þornar jörðin hægt og sígandi og stefnir óhjákvæmilega í nýtt jökulskeið („ísöld“), en þær eru þegar orðnar um 20 á ísöldinni miklu eða kvartertímanum, sem staðið hefur í 2,5-3 milljónir ára. Ekkert bendir til annars en að okkar hlýskeiði muni ljúka eins og öllum hinum og það er nú þegar orðið sæmilega langt. Því væri vitlegra að búa sig undir hnattkólnun, ekki hnatthlýnun. Með hækkandi hitastigi eykst rakadrægni loftsins mikið við tiltölulega litla hækkun. Ef loftslag skyldi hlýna mundi það því þýða stóraukna úrkomu, svipað og var fyrir 7-8 þúsund árum þegar Ísland var jöklalaust og Sahara gróin eins og aðrar eyðimerkur. Hlýnun þýðir því stóraukið vatn, ekki síst á þurrlendum svæðum, öfugt við það
sem fáfróðir kjánar ímynda sér.

Nýlegar rannsóknir á Norður- Grænlandi og Svalbarða sýna, að á atlantíska skeiðinu uxu þar jurtir sem þurfa um sjö stiga hærri meðalhita en nú er þar. Þetta þýðir, að íshafið hefur verið að mestu íslaust a.m.k. á sumrin. Þó lifðu ísbirnir af og lifa enn þótt sum hinna ýmsu hlýskeiða hafi verið mun hlýrri en það núverandi. Jörðin var sem aldingarður því hlýnun er öllum fyrir bestu, mönnum dýrum fuglum, fiskum, jurtum og öllu sem þrífst á jörðinni.

Grænland var líka á sínum stað eins og Suðurskautslandið, þótt eitthvað kvarnaðist úr báðum, einkum Grænlandi og meðal sjávarstaða var aðeins einhverjum fáum tugum sentimetra hærri en nú. Fyrir því eru nokkrar ástæður: Miklu meira vatn var bundið í gufuhvolfinu, sem stuðlar að lækkun sjávarmáls og ekki síður hitt, að þrátt fyrir hærri meðalhita var enn frost mestallt eða allt árið á hábungu meginjökla, en það er ákoma, þ.e. snjókoma umfram sumarbráðnun sem mestu ræður um vöxt og viðgang jökla. Miklu meiri snjór olli því hækkun jöklanna, þótt kvarnaðist úr nær sjávarmáli.

Um koldíoxíð vil ég þó segja þetta: Jurtirnar þurfa gífurlegt magn koldíoxíðs á hverjum degi til að vaxa og dafna, mynda nýjar frumur og vefi og nýtt súrefni. Þessi hringrás tekur aðeins fáein ár.

Raunar byggir C14 aldursgreining fornleifafræðinga einmitt á þeirri staðreynd, að þetta er hringrás sem sífellt endurnýjast, koldíoxíð eyðist og nýtt tekur við á innan við tíu ára fresti. Þannig hefur þetta verið í milljarða ára, síðan jörðin var ung. Þáttur mannanna hefur verið talinn um 3,2% af koldíoxíði gufuhvolfsins. Koldíoxíð, náttúrulegt og manngert, er nú um 400 grömm í hverju tonni gufuhvolfsins og þar af er hlutur Íslendinga eitthvert brotabrotabrotabrot úr nanógrammi.