Á sama tíma og fólk flykkist á bíómyndir með börnum sínum og tárast yfir sögum af dýrum að berjast við ofurefli mannsins tekur það ákvarðanir í lokuðum fundarherbergjum um að valta yfir einn elsta og stærsta birkisskóg á Vestfjörðum. Skógur með einstöku dýra- og fuglalífi, jafnvel fuglum sem eru í útrýmingarhættu eins og haförn og fálki. Það er allt í einu, þvert á stefnu stjórnvalda um kolefnislaust Ísland og um endurheimt votlendis, í lagi að fella einn elsta skóg landins til að stytta ferðatíma bílaumferðar.

Tvisvar hefur vegurinn sem á að leggja yfir Teigsskóg farið fyrir umhverfismat og í bæði skiptin hefur eindregið verið mælt gegn því að fara þá leið til að stytta aksturleið fólks á leið á syðri hluta Vestfjarða. Það er nefnilega alveg hægt að fara aðra leið, svokallaða “D-2” leið en afhverju er það ekki gert?

Það er ein ástæða fyrir því, leiðin yfir Teigsskóg sem kölluð er “Þ-H” er ódýrust og einföldust í framkvæmd og Vegagerðin tímir ekki að eyða meira fé en nauðsynlegt er og mun því á kostnað náttúrunnar frekja þessa leið í gegn með óafturkræfum afleiðingum fyrir vistkerfi svæðisins. Líklega er eina ástæða þess að þessi leið var samþykkt af ⅗ af bæjarstjórn Reykhólahrepps sú að fólk á sunnanverðum Vestfjörðum er búið að bíða eftir nýjum vegi í tugi ára vegna þrjósku Vegagerðarinnar sem heldur þessarri leið til streitu og þolinmæði íbúa er þrotin.

Karl Fannar Sævarsson við reynitré í Teigsskógi en þar má einnig finna blágreni, lerki, víði, loðvíði og burkna.

Teigsskógur er einn fárra landnámsskóga sem enn standa, en hans er meðal annars getið í Gísla sögu Súrssonar.

Ekki verður hér farið yfir þá langdregnu tímalínu og pólitíska fíaskó sem þetta ferli hefur verið. Hvernig viljandi hefur verið notað myndefni í fréttaflutningi um málið þar sem fréttafólki hefur hreinlega láðst að taka myndir af skóginum sjálfum eða að skógurinn er smættaður og hlegið að “þessum hríslum”. Slíkt hefur nú þegar verið gert í mörgum leiðurum, pistlum og jafnvel í BA ritgerð sem ég vona að sem flestir hafi lesið.

Það sem við viljum segja snýr að siðferði, kærleika og virðingu, mannkostum sem ekki eru metnir til fjár.

“Ég fór í fyrsta sinn fótgangandi í gegnum þennan skóg síðastliðna helgi og þvílíka paradís hef ég sjaldan fundið og þó farið víða. Ég klöngraðist í um klukkutíma eftir kindaslóða í gegnum þéttvaxinn skóginn og settist niður í laut fulla af aðalbláberjum og kjamsaði á þeim í félagsskap rjúpna, hrossagauka og forvitinna kinda og þar sem ég horfði yfir fjörðinn sá ég afar sjaldséða sjón, haförn með sínu tignarlega vængjahafi sveif yfir fjörðinn á eftir flokki sjófugla. Stórfengleiki þessa stærsta og nú sjaldgæfasta fugls Íslands gaf mér gæsahúð og tár í augun. Ég varð alveg óskaplega hamingjusöm en um leið sorgmædd, svo ótrúlega sorgmædd að hugsa um stöðu þessarra fugla, um að við mannfólkið berum ekki virðingu fyrir náttúrunni og dýrunum þrátt fyrir alla umræðu um loftslagsbreytingar, mengun og hamfarir. Að þrátt fyrir alla okkar vitneskju og loforð um að gera betur þá er það á dagskrá núna, árið 2019, að leggja veg í gegnum þetta ósnortna svæði, en svæði eins og Teigskógur eru í raunverulegri útrýmingarhættu á Íslandi.

Að skapa líf allra sem þar búa í hættu, eyðileggja heimkynni þeirra og vistkerfi til að spara Vegagerðinni umstang og fé.

Eru dýr ekki íbúar þessa lands? Hafa plöntur og tré frá því fyrir landnám ekki jafnan tilverurétt á við okkur?

Hvernig sefur fólk sem tekur svona ákvarðanir á nóttunni?

Þið ættuð að prufa að sofa milli trjánna í Teigsskógi, finna hrossagauksunga sem týndi mömmu sinni, renna á hljóðið til hennar og sameina þau, finna innan í ykkur kærleika og samkennd, finna í hjarta ykkar að þið gerðuð eitthvað gott fyrir ósjálfbjarga lífveru, ef þið fynduð það þá mynduð þið bera meiri virðingu fyrir skóginum en svo að láta ykkur detta í hug að eyðileggja hann. Ef þið genguð í gegnum hann og horfðuð í kringum ykkur í stað þess að bruna framhjá í tindollu í óðagoti að flýta ykkur eitthvert.

Ef þessi skógur verður eyðilagður mun það vera ævarandi skömm ykkar og okkar allra.” segir Valgerður.

Þið spyrjið ykkur kannski hvers vegna við, einhverjir “lattélepjandi” borgarbúar látum okkur þetta varða? Það er vegna þess að við, eins og flestir borgarbúar eigum ættir að rekja út á land, við tvö nánar tiltekið til Vestfjarða, við finnum það í genum okkar þegar við komum þangað að þar eigum við heima, að þar bjuggum við að mestu í sátt við dýr og náttúru í margar aldir og að við verðum að gera allt sem við getum til að vernda heimili okkar, heimili okkar allra. Ef það þýðir að taka launalaust leyfi frá vinnu til að leggjast á gröfur í Þorskafirði þá mun svo verða, við getum ekki staðið hjá án þess að gera neitt.

Við hvetjum öll sem er annt um náttúru Íslands og sérstaklega fólk sem er í stöðu til að stöðva þessar framkvæmdir til að mótmæla þeim.

Við höfum þar til 25. ágúst að mótmæla þessum framkvæmdum með því að senda athugasemdir á sveitarstjori@reykholar.is og á bergthora.thorkelsdottir@vegagerdin.is

Stofnaður hefur verið hópur á Facebook um Verndun Teigsskógs

Valgerður Árnadóttir og Karl Fannar Sævarsson