Herinn er að koma með 14 milljarðana sína krakkar! Alltaf leggst okkur eitthvað til. Bullandi plús fyrir heimilisbókhald Bjarna og Kötu og tyggjópökkum og nælonsokkum mun rigna yfir Suðurnesin meðan á uppbyggingu hersins á Keflavíkurflugvelli stendur.

Hermangið mun nú loks færa okkur hagsældina sem Bjarni fullyrðir að hér ríki og vinir hans úr röðum verktaka landsins munu mala gull. Græðum á Kananum, þótt það kosti okkur sjálfstæði okkar, sjálfsvirðingu og frelsi sem þjóð. Það er ekkert sem skiptir meira máli en að græða peninga. Það er boðorð þessarar ríkisstjórnar. Græðum, græðum, græðum þótt það kosti okkur æruna, landið og lífið.

Friðarsinnarnir í Vinstri grænum taka vígamönnum Donalds Trump opnum örmum með sínar kafbátaflugvélar og skýli, 1000 manna braggabyggð og „sérútbúið svæði“ fyrir flugvélar sem flytja hættulegan farm svo sem sprengjur, eldsneyti og spilliefni sem vonandi sullast ekki út í grunnvatnið okkar fyrir slysni. Vissuð þið að ef Nató krefst þess má geyma hér kjarnorkuvopn samkvæmt kænlega orðaðri 10. grein Þingsályktunnar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem undirrituð var 2016? Enginn skildi greinina þá, en nú dylst engum hvað við er átt.

Þetta er allt alveg dásamlegt. Takk Vinstri græn fyrir að tryggja öryggi okkar. Í framhaldi af uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli getur Donald Trump gert Ísland að skotskífu sinni ef honum dettur það í hug og honum dettur nú ýmislegt í hug, þegar sá gállinn er á honum.

Katrín fordæmir af veikum mætti forseta Bandaríkjanna, sem hefur breytt landi sínu í fasistaríki og gert hatursorðræðu eðlilega og sjálfsagða, en býður honum samtímis að skíta í garðinn okkar með sínu viðurstyggilega hernaðarbrölti. Harla máttlaust er það, þegar hún reynir að þvo hendur sínar og varpa ábyrgðinni yfir á almenning með því að kalla eftir opinberri umræðu um það sem er löngu handsalað bakvið tjöldin, eða á Guðlaug Þór og samninga sem voru gerðir fyrir hennar tíð.

Muniði þegar hún var ennþá Katrín Jakobsdóttir? Katrín þá var friðarsinni og herstöðvaandstæðingur. Nýja Katrín gekk visvítandi inn í stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokkinn þrátt fyrir samninga Bandaríkjahers og Nató við Ísland. Hún Kata veit vel hvað hún syngur, þótt fölsk sé.

Katrín friðar- og mannúðarsinni er svo spennt fyrir samstarfinu að hún samþykkir að vippa 300 milljónum úr þróunaraðstoð og leggja í púkk með Nató og Bandaríkjaher. Ríkisstjórn hennar verður að sýna lit og leggja eitthvað af mörkum fyrir 14 milljarðana sem við erum að fá og skítt með það þótt Ísland dragi úr aðstoð við minni máttar. Þá vantar bara 100 milljónir í áætlað 400 milljóna framlag Íslendinga, ég ráðlegg Kötu og Bjarna að vinda aldraða og öryrkja. Kreista úr þeim síðustu dropana. Okkur er nefnilega alveg sama þegar upp er staðið um vesalinga sem veslast upp húsnæðislausir, veikir og matarlausir hvort sem það er hér eða annarsstaðar í veröldinni og ef við getum grætt á því að gleyma þeim, enn betra!

Ef raunin er sú að Ísland má sín einskis í samningum við stórveldin Nató og Bandaríkin væri heiðarlegt að gangast við því að umdæmi íslenskra stjórnmálamanna yfir Íslandi sé raunverulega ekkert. Gott væri ef ráðamenn viðurkenndu það gagnvart kjósendum sínum en gerðu sig ekki að ómerkingum trekk í trekk með innantómu mjálmi um andstöðu sem hefur ekkert að segja. Slíkt væri líklegra til að skapa hér traust og samstöðu en sá tvískinnungur sem við búum við úr munni stjórnmálamanna.