Ónotatilfinningin greip um magann á mér eins og köld krumla. Þrýstingurinn í höfðinu magnaðist og í gegnum hitamókið greindi ég bókstafina á tölvuskjánum.


“Ég lagði greiðslukort tengdaföður míns varlega frá mér.
„Ég virðist hafa gert mistök.“
Þau höfðu treyst mér til að bóka flug og hótel fyrir stórfjölskylduna í janúar. Til að liggja í sól og styrkja moskítóflugustofninn með ófrjálsum framlögum.
Ég hafði hins vegar bókað og gengið frá greiðslu fyrir flug fyrir alla, aðra leið. Heimferðarlaus hamingja í áfallaformi. Búferlaflutningar fyrir átta manns. Tenerife á rangri dagsetningu.
„Ég redda þessu,“ sagði ég með uppgerðarsjálfstrausti, af því að þetta yrði að reddast. Þetta var nefnilega ágætis upphæð sem ég var búin að strauja þarna.
Þjónustufulltrúinn svaraði að það væri af og frá.
Þetta var ótrúlega ólíkt mér og auðvitað flensunni að kenna. Hvað var ég að taka að mér ábyrgð með tæplega hálfa heilastarfsemi?
Svo komu útbrotin. Rauðir dílar á bringunni. Andþyngsli. Búin að kasta upp. Það var þá svona að deyja úr skömm.
„Ertu ekki bara með Covid?“ spurði eiginmaðurinn í sakleysi sínu.
„Er ég ekki bara hvað?“
Hvernig í ósköpunum gat ég verið með Covid svona löngu eftir að ég hætti að pæla í Covid. Ég hafði nú bara ekkert hugsað um Covid síðan ég fann grímu í jakkavasa fyrir nokkrum vikum. Covid tilheyrði fortíðinni en ekki mengi hluta sem gætu komið fyrir mig síðsumars 2022.
En svo birtust þær. Tvær hárauðar línur á prófinu, eins og silkiborðar á jólapakka. Veiran skæða hafði náð í skottið á mér.