Í dag eru meira en 5500 plöntutegundir og 1600 dýrategundir á eyju í Norður Atlantshafi sem gengur undir nafninu Ísland. Eyjan hefur gengið í gegnum margsskonar breytingar í gegnum tíðina. Eyjan var skógi vaxin, á Íslandi gengu dádýr og við fjörur landsins lifðu rostungar. Í dag er þó lítið sem ekkert eftir af þeim skógi sem áður prýddi eyjuna, né heldur dádýrin eða rostungarnir. Ný tegund, maðurinn, birtist á eyjunni fyrir rúmlega 1100 árum. Síðan hafa vistkerfin breyst. Maðurinn flutti inn nýjar tegundir inn til landsins og aðrar dóu út. Stór búsvæði voru þurrkuð upp af manninum eftir landnám.

Eyðileggingarmáttur okkar svo mikill að brátt mun 90% tegunda á eyjunni fögru deyja út. Allt á næstu fimmtíu árum. Eyðilegging mannsins á sér engan líka. Ábyrgð okkar sem tegundar er mikil.

Verkefnið virðist óyfirstíganlegt. Það dugir þó ekki að leggjast í fósturstellingu og gráta (sem getur þó hjálpað í skamma stund). Nú þarf að bretta upp ermar og gera allt sem í okkar valdi stendur. Standa verður vörð um náttúruna, hennar tilveru og flóknu vistkerfi. Við þörfnumst hennar. Við erum sú dýrategund sem getur brugðist hvað hraðast við, við höfum getuna til þess og berum þá siðferðislegu ábyrgð að takmarka okkar eigið fótspor til að aðrar dýrategundir fái líka lifað.

Við viljum vernda það sem við þekkjum og þess vegna er fræðsla lykillinn að verndun. Reykjavíkurborg hefur síðustu áratugi unnið sig markvisst í átt að grænni borg og aukinni fræðslu um náttúruna innan hennar. Mikið starf hefur verið unnið til verndar náttúrunni og hefur borginni tekist af mikilli elju að framfylgja stefnu um líffræðilegan fjölbreytileika fyrst höfuðborga á Norðurlöndunum. Endurheimt votlendis í Úlfarsárdal er eitt verkefni af mörgum sem gengur út á það að fjarlægja ummerki mannsins, binda kolefni og endurheimta líffræðilegan fjölbreytileika. Í dag fögnum við því að þessi tímamótastefna um líffræðilegan fjölbreytileika hefur verið gefin út á aðgengileg formi fyrir almenning með glæsilegum vatnslitamyndum eftir Viktoriu Buzukina.

Á degi íslenskrar náttúru stendur náttúruborgin Reykjavík vörð um líffræðilegan fjölbreytileika og leggur sitt af mörkum til að vernda þær 5500 plöntutegundir og 1600 dýrategundir sem eru á eyjunni fögru í Norður-Atlantshafi.

Höfundur er formaður Skipulags- og samgönguráðs.