Í grein sem birtist í Fréttablaðinu 21. júní sl. freistar Þórólfur Matthíasson þess að svara leiðréttingum mínum vegna viðtals blaðamanns Fréttablaðsins við hann og fyrrverandi ríkisskattstjóra 3. og 4. júní sl.

Hagnaður í verslun meiri en í sjávarútvegi

Í grein minni var m.a. vakin athygli á því að þvert ofan í það sem skilja mátti af þessum viðtölum væri hagnaður í bæði fiskveiðum og sjávarútvegi í heild langt frá því að vera einhver ofurhagnaður og síst meiri en í öðrum atvinnugreinum landsmanna. Nefndi ég sérstaklega að samkvæmt opinberum hagtölum Hagstofunnar væri hagnaður í heildsölu og smásölu svipaður og jafnvel meiri en í fiskveiðum og sjávarútvegi. Jafnframt væri arðsemi eigin fjár í fiskveiðum og sjávarútvegi minni en í þessum greinum og mörgum öðrum atvinnugreinum á Íslandi. Miðað við tölulegar staðreyndir um hagnað í atvinnuvegum væri því engin ástæða til að skattleggja sjávarútveg sérstaklega.

Þórólfur svarar ekki efnislega

Þó að Þórólfur finni hjá sér þörf til að stinga niður penna vegna greinar minnar forðast hann að svara henni efnislega. Þess í stað bregður hann fyrir sig velhljómandi rökleysum og orðhengilshætti.

Hann segir það t.d. þversagnakennt að telja sjávarútveg annars vegar eina atvinnuveg þjóðarinnar sem skari fram úr á heimsvísu og hins vegar að hann hafi ekki umtalsvert meiri hagnað en gengur og gerist í landinu (sem Þórólfur kallar að vera í „andarslitrunum“). Í þessu er auðvitað engin þversögn. Atvinnuvegir geta hæglega verið afar vel reknir og skipulagðir og skarað fram úr að því leyti þótt þeir hafi ekki mikinn hagnað. Eins og allir vita, líka sæmilegir hagfræðingar, ræðst hagnaður af fjölmörgum ytri aðstæðum, sem fyrirtækin ráða engu um, en ekki bara dugnaði og útsjónarsemi stjórnenda fyrirtækjanna.

Þá reynir hann að bjarga sér með þeim orðhengilshætti að veiðigjald sé ekki skattur til ríkisins heldur afgjald fyrir afnot af auðlindinni. Öllu má nú nafn gefa. Í samræmi við skýrgreiningu orðabóka á hugtakinu skattur leyfi ég mér að kalla allt það skatta sem hið opinbera, ríki og sveitarfélög, taka með lögvaldi af borgurum og fyrirtækjum þessa lands. Þannig eru tollar, fasteignagjöld, launatengd gjöld o.s.frv. sem og auðvitað svokölluð veiðigjöld engu síður skattar en t.d. tekjuskattar, virðisaukaskattur.

Nú ver hið opinbera öllum innheimtum skatttekjum í starfsemi sem kölluð er þjónusta við borgarana. Því jafngildir orðhengilsháttur Þórólfs því að það sem þjóðin hefur öldum saman kallað skatta séu í rauninni ekki skattar heldur einungis endurgreiðsla borgaranna fyrir opinbera þjónustu. Ekki þarf að orðlengja það að þetta er draumastaða háskattamanna.

Ef til vill ekki öfund og afbrýði

Þeir Þórólfur og Indriði Þorláksson hafa um árabil verið talsmenn sem hæstra skatta og þá sérstaklega á sjávarútveg. Rökleysurnar í þessum málflutningi þeirra hafa hins vegar verið slíkar að það vekur spurningu um hvað raunverulega vaki fyrir þeim. Þórólfur ber af sér að skrif hans stafi af öfund og afbrýði. Rétt er að trúa því. Hann veit auðvitað best sjálfur hvaða hvatir bærast í hans sál.

Indriði og Þórólfur hafa báðir verið opinberir starfsmenn alla ævi og störfuðu árum saman við skattheimtu í fjármálaráðuneytinu og Indriði síðan sem ríkisskattstjóri. Miðað við þennan feril er e.t.v. skiljanlegt að þeir séu talsmenn hárrar skattheimtu og umsvifamikils ríkisreksturs. Þeirra persónulegu hagsmunir felast í því að ríkið hafi sem mestar tekjur og sé sem voldugast til að það geti greitt þeim sem hæst laun og aukið þeirra persónulegu völd.

Skattur á landsbyggðina

Hvað okkur hin snertir, sem ekki erum hátt settir opinberir starfsmenn, horfir málið hins vegar öðruvísi við. Háir skattar og mikil ríkisumsvif draga máttinn úr atvinnulífinu og rýra þannig laun okkar og lífskjör þegar til lengdar lætur. Sérstakur skattur á sjávarútveg bitnar þar að auki fyrst og fremst á hinum dreifðu byggðum landsins og rýrir þar bæði lífskjör og hagvaxtarmöguleika. Finnst Þórólfi og Indriða það í alvöru að slíkur skattur á landsbyggðina sé besta leiðin til þess að unnt sé að greiða fleiri opinberum starfsmönnum í Reykjavík hærri laun?