Fyrir mörgum árum las ég framtíðarskáldsögu þar sem fólk gerði sig skiljanlegt með tölustöfum. Eiginleg tungumál voru horfin en öll samskipti byggðust á tölum sem smám saman tóku öll völd. Hópur afturhaldsseggja vildi ríghalda í hið talaða orð og barðist við tölufólkið en tapaði.
Mér fannst það skemmtileg hugmynd að tjá sig með tölum. Málstöðvar heilans eru á allt öðrum stað en talnaminni og reiknihæfileikar. Tilfinningar verða út undan því að þær tengjast illa stjórnkerfum talna í heilanum. Talnafólkið gat hvorki elskað, hatað né grátið sem auðvitað er augljós kostur í hörðum heimi.
Þessi saga rifjaðist upp á dögunum þegar vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherrann auglýsti eftir nýjum starfskrafti í ráðuneytið. Auglýsingin var á ensku enda ekki gerðar neinar kröfur um íslenskukunnáttu. Ráðherra vísinda hafði greinilega lesið sömu vísindaskáldsögur og ég því að hún sagði í viðtali að viðkomandi starfsmaður ætti fyrst og fremst að fást við tölur og þyrfti ekki að kunna önnur tjáningarform. Þessi starfskraftur átti því að spjalla við vinnufélaga sína og gesti ráðuneytisins á talnamáli eins og í skáldsögunni forðum. Svona framtíðarhugmynd hæfir vel ráðherra nýsköpunarmála.
Það er leitt að nöldurseggir sjái ekki snilldina í þessari nýju tilhögun. Þeir segja að brotið sé á íslenskunni. En hvað gerir það til þegar fólk talar einungis saman með tölum? Það er augljós bónus að losna í leiðinni við tilfinningar eins og öfund, afbrýðisemi, ást og reiði úr ráðuneytinu. Það er ómetanlegt fyrir hina fámennu íslensku þjóð að eiga svona framsýnan nýsköpunarráðherra sem lifir í óraunveruleika framtíðarskáldsögunnar.