Fyrir mörgum árum las ég fram­tíðar­skáld­sögu þar sem fólk gerði sig skiljan­legt með tölu­stöfum. Eigin­leg tungu­mál voru horfin en öll sam­skipti byggðust á tölum sem smám saman tóku öll völd. Hópur aftur­halds­seggja vildi ríg­halda í hið talaða orð og barðist við tölu­fólkið en tapaði.

Mér fannst það skemmti­leg hug­mynd að tjá sig með tölum. Mál­stöðvar heilans eru á allt öðrum stað en talna­minni og reikni­hæfi­leikar. Til­finningar verða út undan því að þær tengjast illa stjórn­kerfum talna í heilanum. Talna­fólkið gat hvorki elskað, hatað né grátið sem auð­vitað er aug­ljós kostur í hörðum heimi.

Þessi saga rifjaðist upp á dögunum þegar vísinda-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herrann aug­lýsti eftir nýjum starfs­krafti í ráðu­neytið. Aug­lýsingin var á ensku enda ekki gerðar neinar kröfur um ís­lensku­kunn­áttu. Ráð­herra vísinda hafði greini­lega lesið sömu vísinda­skáld­sögur og ég því að hún sagði í við­tali að við­komandi starfs­maður ætti fyrst og fremst að fást við tölur og þyrfti ekki að kunna önnur tjáningar­form. Þessi starfs­kraftur átti því að spjalla við vinnu­fé­laga sína og gesti ráðu­neytisins á talna­máli eins og í skáld­sögunni forðum. Svona fram­tíðar­hug­mynd hæfir vel ráð­herra ný­sköpunar­mála.

Það er leitt að nöldur­seggir sjái ekki snilldina í þessari nýju til­högun. Þeir segja að brotið sé á ís­lenskunni. En hvað gerir það til þegar fólk talar einungis saman með tölum? Það er aug­ljós bónus að losna í leiðinni við til­finningar eins og öfund, af­brýði­semi, ást og reiði úr ráðu­neytinu. Það er ó­metan­legt fyrir hina fá­mennu ís­lensku þjóð að eiga svona fram­sýnan ný­sköpunar­ráð­herra sem lifir í ó­raun­veru­leika fram­tíðar­skáld­sögunnar.