Aðgerðir vegna Covid hafa takmarkað athafnafrelsi manna og vegið að mannréttindum þeirra. Fólki á aldrei að standa á sama um slíkt heldur á það stöðugt að vera vakandi fyrir rétti sínum. Eitt af því versta sem getur hent á tímum eins og þessum er að farið sé að líta á hömlur, sem áttu að vera tímabundnar, sem sjálfsagðar og eðlilegar. Um leið gerist það að krafan um að afnema höft hljóðnar og deyr loks algjörlega út. Fólk sljóvgast og venst gagnrýnislaust nýjum veruleika þar sem verulega er þrengt að réttindum þess.

Þótt Covid verði ekki kosningamál í komandi alþingiskosningum þá hefur framganga og viðhorf stjórnmálamanna á þessu tímabili samt skipt miklu máli. Nokkrir stjórnmálamenn, en ekki nógu margir, hafa á Covid-tímabilinu verið iðnir við að minna á mikilvægi frelsis og mannréttinda. Stundum hafa þeir ekki fengið annað en skít og skömm. Þannig eru nú laun heimsins alltof oft. Þessum stjórnmálamönnum ber að þakka innilega en ekki bölsótast vegna viðhorfa þeirra. Þjóðin þarf fleiri stjórnmálamenn sem standa vörð um mannréttindi einstaklinga. Svo er hin gerðin af stjórnmálamönnum, sem sagt þeir sem ylja sér við hugmyndina um að geta haft stjórn á almenningi með boðum og bönnum. Þannig stjórnmálamenn eru sérlega hættulegir og þeir nýta sér óspart ástand eins og Covid. Óneitanlega grunar mann að nokkrir slíkir finnist hér á landi og séu nú á framboðslistum.


Undanfarið hafa þingmenn stjórnarflokkanna talað um afléttingu hafta, eins og þeir eiga að gera. Leiðin á að liggja í átt að fullkomlega eðlilegu lífi. Mikið hefði verið gott að sjá stjórnarandstöðuna leggja áherslu á einmitt þetta.