Heilbrigðisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, segir að þjóðin eigi að gleðjast vegna þess árangurs sem náðst hefur í baráttunni við COVID. Hér á landi hefur tekist nokkuð vel til, eins og yfirvöld þreytast ekki á að benda landsmönnum á.

Stundum er eins og ráðamenn séu í hlutverki foreldris og þjóðin í hlutverki barnsins. „Sjáið hvernig ástandið er í löndunum í kringum okkur, varla viljum við hafa það þannig,“ hafa ráðamenn ítrekað sagt og í raddblænum er ákveðinn tónn sem gefur til kynna að þjóðin eigi ekki að spyrja of krefjandi spurninga, heldur samþykkja ákvarðanir yfirvalda sem vita svo miklu betur en hún.

Auðvitað er ekki þægilegt fyrir yfirvöld ef þegnar landsins eru yfirmáta sjálfstæðir og ósparir á að spyrja gagnrýnna spurninga. Yfirvöld verða hins vegar að þola þau óþægindi. Það á ekki að vera hægt að temja heila þjóð eins og hunda, hefta frelsi og athafnir hennar á margvíslegan hátt og skikka hana til að bera grímur við hin ýmsu tækifæri og ætlast síðan til að hún taki þessu öllu saman fagnandi.

Sóttvarnalæknir, sem er í eðli sínu sanngjarn og varfærinn maður, sagði á dögunum að hann sæi ekki annað en fólk væri almennt ánægt með að ganga með grímur. Þessi fullyrðing kom vitanlega f latt upp á þá fjölmörgu sem sjá samhengi milli grímunotkunar og frelsissviptingar. Þó er það svo að það sem sumir sjá sem böl líta aðrir á sem blessun. Sjá má fólk, sem er eitt á göngu, fjarri öðrum, arka áfram með grímuna fasta á andlitinu. Bíleigendur, einir í bíl sínum, aka út um allar koppagrundir með grímu. Þessir einstaklingar virðast hafa fengið ofurást á grímunum sínum. Við skulum ekki taka þær frá þeim. Leyfum þeim að njóta þeirra meðan þeir vilja. Það er hins vegar óþarfi á nánast smitlausum tímum að klína þeim upp á fólk sem kærir sig alls ekki um þær og notar þær yfirleitt kolvitlaust.

Á tímabili voru stjórnvöld og sóttvarnayfirvöld nokkuð dugleg við að segja að takmarkanir mættu ekki vera umfram það sem ástæða væri til. Þau lögðu áherslu á að þau fögnuðu umræðum, spurningum og gagnrýni um aðgerðir. Svo var eins og þessi sömu yfirvöld fylltust þreytu þegar krefjandi og gagnrýnna spurninga var beint til þeirra. Þau virtust jafnvel óska þess helst að fólk hlýddi án þess að spyrja. Einstaka raddir heyrast þó úr ranni stjórnmálanna þar sem minnt er á að óeðlilegt ástand eigi alls ekki að líta á sem eðlilegt. „Við eigum ekki að venjast um of takmörkunum á lífi okkar,“ sagði dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, nýlega. Utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, sagði, þegar hann ávarpaði mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna, að ekki mætti nýta faraldurinn til þess að réttlæta langvarandi skorður á réttindi og frelsi. Þau orð eru áminning sem allur heimurinn á að taka til sín, líka Ísland.

Við hvaða aðstæður sem er á að vera rými fyrir gagnrýna hugsun og krefjandi spurningar, sama hversu óþægilegt það er fyrir yfirvöld.