Á Íslandi er margt nokkuð gott, sumt framúrskarandi og svo er annað sem má laga. Ég held að öllu jöfnu getum við samt verið nokkuð ánægð með þetta allt saman.

Ég sá eitt sinn þátt með Dr. Phil, á þeim tíma þegar maður lét bjóða sér línulega sjónvarpsdagskrá. Þessi þáttur hafði á mig varanleg áhrif því ég man hann enn 10 –15 árum síðar. Þar kom fram að ef maður temur sér þakklæti og þakkar fyrir eitthvað á hverjum degi þá útilokar maður um leið gremju og neikvæðar tilfinningar úr sálarlífinu. Þakklát manneskja getur bara verið glöð.

Því er hér áminning um nokkra hluti sem við getum verið þakklát fyrir.

Innflytjendur. Ísland er of fámennt, því fleiri sem hér búa, því betra verður land og þjóð. Þess vegna eigum við að þakka fyrir að hingað vilji koma fólk, vinna, eignast hér börn og auðga samfélag okkar og um leið verðmætasköpun. Listamenn. Bændasamfélagið gekk út á vinnu og baðstofulíf. Þau kotbýli sem bjuggu svo vel að eiga skemmtilegan einstakling sem gat haldið uppi fjöri og skemmtan með sögulestri og söng, bjuggu við margföld lífsgæði og menningu. Listir eru grundvöllur menningar okkar. Björgunarsveitirnar, hermenn Íslands sómi vor, sverð og skjöldur, fólk sem eyðir frítíma sínum í æfingar og er alltaf til staðar til að aðstoða annað fólk, oft í brjáluðu veðri og biður ekki um neitt, er sannarlega þakkarvert. Og talandi um hermenn, takk fyrir að hafa engan her, Ísland. Og að endingu stjórnmálamenn sem oftast fá bara skammir. Það má alveg þakka fyrir að einhverjir séu til í að taka þetta að sér, allir með sameiginlegt markmið að gera Ísland betra. Og svo þú, takk fyrir að lesa, mundu að Ísland er hálffullt, ekki hálftómt.