Tryggvi Gunnarsson lætur af embætti umboðsmanns Alþingis á laugardaginn en aðeins tveir hafa gegnt þessu embætti frá því það var sett á stofn árið 1988.

Gaukur Jörundsson gegndi embættinu aðeins í áratug en nýtti tímann vel og hratt heilli mannréttindabylgju af stað í landinu. Eftir eitt ár í embætti ritaði hann þáverandi forsætisráðherra, Steingrími Hermannssyni, bréf og benti á að í stjórnarskrána vantaði ákvæði um veigamikil mannréttindi og að íslensk lög veittu borgurunum ekki næga mannréttindavernd og gengju skemur en alþjóðasamningar kveði á um þrátt fyrir aðild Íslands.

Átti hann í reglulegum samskiptum um þessi áhyggjuefni sín við stjórnvöld í landinu þangað til orðið var við hvoru tveggja; Mannréttindasáttmáli Evrópu var lögfestur árið 1994 og stjórnarskráin fékk nýjan mannréttindakafla ári síðar.

Erfitt var því að ætlast til að Tryggvi bætti um betur þegar hann tók við árið 1999 en á þeim tíma sem hann hefur gegnt embættinu hafa orðið þáttaskil í réttindavernd margra minnihlutahópa á Íslandi. Réttindi fanga hafa tekið stórstígum framförum og á Tryggvi þar mikið í. Hann hefur sinnt föngum og öðru frelsissviptu fólki af alúð og nærgætni og bent á óforsvaranlega meðferð valds gagnvart þeim sem búa við það varnarleysi að vera að öllu leyti upp á sér valdameira fólk komið.

Hann hefur tekið réttindi útlendinga til sérstakrar skoðunar og fjallað um stöðu þeirra sem ekki tala íslensku og samskipti þeirra við stjórnvöld. Hann hefur fjallað um málefni hælisleitenda og ekki veigrað sér við að ganga úr skugga um að réttindum þeirra sé framfylgt, í eldfimu ástandi. Hann hefur stigið inn í aðstæður þar sem misnotkun valds blasir við og hafa æðstu valdhafar þurft að líða fyrir það.

Réttarstaða öryrkja og lífeyrisþega væri önnur og verri ef umboðsmanns hefði ekki notið við. Fleiri manneskjur byggju á götunni og hefðu hvergi höfði að halla.

Tryggvi og forveri hans Gaukur hafa mótað embættið með sérstökum hætti og skapað því traustvekjandi sérstöðu í samanburði við aðra sem fara með opinbert vald. Erindi og álit umboðsmanns eru rituð í fyrstu persónu. Þau bera með sér að sá sem þau ritar trúi því í raun og veru að hann sé umboðsmaður þess sem málið varðar. „Þegar þetta fólk leitar til mín finn ég að það á oft að baki erfiða göngu í samskiptum við stjórnvöld fyrir hönd ættingja og vina sem hafa lent utangarðs að þessu leyti. Fyrir mér lýsir það oft ákveðnu vonleysi og að það hafi mætt úrræðaleysi af hálfu stjórnvalda.“ Svona skrifar Tryggvi í áliti sínu um nauðsynlegar úrbætur í málefnum utangarðsfólks svo dæmi sé tekið.

Skúli Magnússon leysir Tryggva af hólmi núna um mánaðamótin. Íbúar Íslands og þeir sem hér dvelja um lengri eða skemmri tíma eiga mikið undir því að hann sinni embættinu eins vel og forverar hans hafa gert.