Það eru margar vörður á jafnréttisleiðinni og ótrúlegt að ekki sé nema rúm öld síðan konur fengu jafn sjálfsögð mannréttindi og jafnan rétt til menntunar og kosningarétt – ekki síst fyrir baráttu Kvenréttindafélags Íslands.

Rauðsokkahreyfingin kemur síðan fram 1970, en á þessum árum spruttu upp róttækir kvennahópar víða um lönd – enda var ríkjandi viðhorf að aðalstarf kvenna ætti að vera inni á heimilum. Kvennabaráttan varð í kjölfarið sýnileg og höfuðáherslan var á vitundarvakningu um stöðu kvenna. Sú barátta náði hámarki með Kvennafrídeginum árið 1975 þegar konur lögðu niður störf til að sýna fram á mikilvægi starfa þeirra utan og innan heimilisins.

Áfram lá leiðin og risavörður á borð við kjör Vigdísar Finnbogadóttur 1980 – Kvennaframboðið 1982 og Kvennalistann ári síðar litu dagsins ljós. Þá voru áherslur kvenna komnar inn í sali Alþingis og ráðamenn þjóðarinnar komust ekki hjá að hlusta á áherslur kvenna. Mín kynslóð hefur síðan haldið áfram að marka leiðina – en aldrei má gleyma að við stöndum allar á herðum þeirra kvenna sem háðu baráttuna á undan okkur. Samanlagður árangur er að Ísland mælist efst á alþjóðlegum jafnréttislistum. Máttum við ekki vel við una?

En svarið var nei og við vorum vaktar upp af vondum draumi þegar ungar konur hófu af krafti á ný baráttu gegn kynbundnu ofbeldi í kjölfarið á #MeToo. Þolendaskömm og gerendameðvirkni skyldi aldrei líðast. Þessar ungu konur hafa hlaðið í risavörðu á undanförnum vikum og atburðarásin mun hafa varanleg áhrif. Við munum ekki síst fá öruggara og manneskjulegra samfélag.

Takk stelpur – takk allar sem hafa varðað leiðina!