Það var lán í óláni að áform þáverandi stjórnenda Play að koma á fót flugfélagi í árslok 2019 gengu ekki eftir. Fáeinum mánuðum síðar skall á heimsfaraldur og því hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum. Núna, þegar það sér fyrir endann á farsóttinni og það styttist í að fólk geti á ný ferðast frjálst á milli landa, horfir staðan öðruvísi við og færa má fyrir því rök að aðstæður til að hefja rekstur á flugfélagi hafi sjaldan verið betri.

Eftir mikla þrautagöngu hefur Play tekist að sækja sér yfir fimm milljarða í nýtt hlutafé – afla á enn meiri fjár þegar félagið verður skráð á markað í sumar – og stefnt er að fyrsta fluginu í lok júní. Að baki hinu verðandi flugfélagi stendur öflugur fjárfestahópur, meðal annars tveir lífeyrissjóðir, tryggingafélag, verðbréfasjóðir og sum af öflugustu fjárfestingafélögum landsins, sem gefur verkefninu nauðsynlegan trúverðugleika. Ljóst má vera að fjárfestarnir hafa trú á framtíð íslenskrar ferðaþjónustu.

Ekki þarf að fjölyrða um að fjárfesting í flugrekstri er áhættusöm. Það á hins vegar ekki að verða til þess, eins og stundum er af látið, að útiloka aðkomu lífeyrissjóða, sem eiga eignir upp á meira en 6.000 milljarða og eru með einokun á öllum skyldusparnaði landsmanna, heldur mættu sjóðirnir stundum gera meira af því að styðja við slík fjárfestingarverkefni. Innlendur sparnaður, þar sem lífeyrissjóðirnir gegna lykilhlutverki sem langsamlega stærstu fjármagnseigendur landsins, þarf að breytast með auðveldari hætti í fjölbreyttari fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Við þurfum á því að halda, svo fyrirtæki geti vaxið og dafnað, eigi okkur að takast að skapa meiri verðmæti, ný störf og þá um leið standa undir þeim lífskjörum sem við viljum búa við.

Icelandair ætti að fagna aukinni samkeppni sem veitir félaginu þá mikilvægt kostnaðaraðhald á komandi árum.

Eðlilega munu sumir spyrja sig hvort það sé pláss fyrir tvö flugfélög sem eru rekin frá Íslandi. Innkoma nýs félags, eins og gerðist með WOW air, er hins vegar líkleg til þess að fjölga ferðamönnum til Íslands og þannig stækka markaðinn. Icelandair ætti að fagna aukinni samkeppni – hún er auðvitað mjög mikil nú þegar frá fjölmörgum erlendum flugfélögum – sem veitir félaginu þá mikilvægt kostnaðaraðhald á komandi árum. Það þarf á því að halda. Í þeim samningum sem náðust við flugstéttir Icelandair á liðnu ári, sem var liður í viðamikilli fjárhagslegri endurskipulagningu í aðdraganda hlutafjárútboðs, var sennilega ekki nægjanlega langt gengið í að ná fram þeirri hagræðingu sem þurfti til að lækka einingakostnað og þannig auka samkeppnishæfnina. Það kann að valda Icelandair erfiðleikum þegar fram í sækir í því harða samkeppnisumhverfi sem er í flugi yfir hafið.

Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri og eini eigandi WOW air, hefur sagt að mistök flugfélagsins hafi verið að vaxa of hratt og elta markaðshlutdeild í samanburði við Icelandair. Líklega er margt til í því. Stjórnendur Play, sem störfuðu flestir hjá WOW air og eru reynslunni ríkari, munu vonandi læra af þeim mistökum og einblína á hóflegan vöxt þar sem mestu máli skiptir að halda öllum rekstrarkostnaði í skefjum ætli félaginu að takast að vera sjálfbært lággjaldaflugfélag sem skilar arðsemi. Það er alls ekkert víst að þetta klikki.