Það er búið að ákveða hvað er til skiptanna. Í aðdraganda kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í fyrra var ljóst að svigrúm atvinnulífsins til að fallast á miklar launahækkanir væri afar lítið. Samdráttur var í vændum í ferðaþjónustu – spurningin var aðeins hversu mikill – og kólnun í hagkerfinu með tilheyrandi hagræðingaraðgerðum og uppsögnum. Allt hefur það gengið eftir. Þótt verkföll og hatrammar deilur hafi einkennt viðræðurnar, vegna óraunhæfra krafna sem stéttarfélögin héldu til streitu, þá náðist að lokum ásættanleg niðurstaða – bæði fyrir vinnuveitendur og launafólk – með Lífskjarasamningnum sem hefur stutt við stöðugleika og gefið okkur færi á að lækka vexti til að milda niðursveifluna.

Samningarnir, sem kváðu á um hóflegar krónutöluhækkanir og voru útfærðir þannig að þeir færðu fólki á lægstu laununum mest, hafa í meginatriðum virkað eins og lagt var upp með. Ólíkt því sem við höfum áður vanist hefur orðið nánast ekki neitt launaskrið. Kaupmáttur launa jókst engu að síður um nærri tvö prósent árið 2019 – lágmarkslaun hækkuðu enn meira – samtímis lágri verðbólgu og stöðugu gengi. Það verður að teljast afrek í ljósi efnahagserfiðleika. Nú þegar útlit er fyrir að efnahagslægðin verði langvinnari en sumir höfðu talið, með litlum eða engum hagvexti og vaxandi atvinnuleysi, mun það þýða minni kjarasamningsbundnar launahækkanir en ella. Þar ræður sú leið að tengja meiri launahækkanir við hagvöxt og um leið viðurkenna þau sannindi, sem of margir skeyta lítt um hér á landi, að laun verða aldrei ákvörðuð án tillits til verðmætasköpunar í hagkerfinu hverju sinni.

Allir sem andmæla ruglinu sem þaðan kemur, breytir þá litlu hvort það séu forsvarsmenn í atvinnulífinu eða fyrrverandi starfsmenn Eflingar, eru um leið útmálaðir sem óvinir hinna vinnandi stétta

Níu mánuðum síðar eru hins vegar enn á ný blikur á lofti. Forystumenn Eflingar hafa skorið sig úr samfloti við SGS og neita að semja við Reykjavíkurborg á sömu nótum og önnur félög hafa gert. Skiptir þá engu að þeir samningar séu á grunni Lífskjarasamningsins sem Efling stóð sjálf að fyrir aðeins fáeinum mánuðum – nú skal farið fram með enn sverari launakröfur. Ekkert þokast í viðræðum og það stefnir í verkföll um 1.800 starfsmanna, að stórum hluta á leikskólum. Formaður samninganefndar borgarinnar, áður yfirmaður kjaramálasviðs Eflingar, hefur sagt kröfur stéttarfélagsins þýða heildarlaunahækkanir á samningstímabilinu sem væru langt umfram það sem um var samið á hinum almenna markaði. Útilokað er að verða við þeim kröfum og um leið skapa fordæmi sem myndi setja Lífskjarasamninginn, og í kjölfarið allan vinnumarkaðinn, í uppnám á afar viðkvæmum tímum.

Flestir sjá hvaða leik er verið að leika. Forystusveit Eflingar, sem aðhyllist 19. aldar marxískar kennisetningar um viðvarandi stéttastríð milli atvinnurekenda og launafólks, ásamt fylgihnöttum þeirra í Sósíalistaflokknum, virðist hafa það að markmiði að brjóta upp þann stöðugleika sem náðst hefur á vinnumarkaði. Það vekur eftirtekt að leiðtogar annarra verkalýðsfélaga hafa ekki séð ástæðu til að lýsa yfir stuðningi við vegferð Eflingar. Það kemur ekki á óvart. Allir vita hvaða hagsmunir eru undir fyrir venjulegt launafólk að Lífskjarasamningurinn haldi.

Þeir sem ráða för í Eflingu skeyta á móti lítt um þær staðreyndir. Allir sem andmæla ruglinu sem þaðan kemur, breytir þá litlu hvort það séu forsvarsmenn í atvinnulífinu eða fyrrverandi starfsmenn Eflingar til margra ára, eru um leið útmálaðir sem óvinir hinna vinnandi stétta. Sífellt fleiri eru hins vegar farnir að átta sig á því hverjir þeir raunverulega eru.