Mörgum þykir eftirfarandi fullyrðing eflaust erfið að kosningum loknum. Látum hana samt flakka. Sagan er ekki skrifuð af þeim sem gengur þokkalega heldur af þeim sem vinna. Í hita leiksins, á meðan við erum öll föst í okkar ólíku bergmálshellum, erum við sannfærð um að „okkar lið“ muni vinna stórsigur. Enda eru allir vinir okkar á samfélagsmiðlum meira og minna sömu skoðunar. Og eiga mjög auðvelt með að túlka mótsagnakenndar skoðanakannanir sér í hag.

Stærsti bergmálshellir okkar Íslendinga er ekki Surtshellir í Hallmundarhrauni heldur Facebook. Þar getum við öskrað skoðanir okkar út í loftið og þær enduróma margfaldar og fílefldar í eyrum okkar.

Fólki og flokkum er líklega vorkunn. Eina stundina segja skoðanakannanir að styrkleikinn sé í ætt við gott rauðvín, þá næstu er hann farinn að færast í áttina að líkjörum – innst inni vonum við að hann endi á viskíbarnum. Þegar talið er upp úr kjörkössunum (í það minnsta þeim sem voru ekki í Borgarnesi) kemur í ljós að hinn raunverulegi styrkur er farinn að nálgast bjórfylgið. Jafnvel bjórlíkisfylgið, sem fáir minnast með hlýju.

Þau sem eiga ekki vini í sigurliðum síðustu helgar ættu jafnvel að endurskoða vinalistann. Ekki til að eltast við sigurvegara heldur víkka hugann, stækka skoðanarýmið í bergmálshellinum okkar. Er ekki tilvalið að kíkja yfir víglínuna – og bæta klípu af Framsóknarmönnum, handfylli af Vinstri grænum, dassi af Sjálfstæðisfólki og þó nokkru af Flokki fólksins á vinalistana? Adda þeim. Við höfum öll gott af því að hlusta á nýjar skoðanir.