Er eftirspurn eftir auknu lýðræði á Íslandi? Ef svarið er “já” gæti þessi grein átt erindi.

Í tillögum að nýrri stjórnarskrá sem 2/3 hlutar kjósenda veittu brautargengi í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 er ákvæði um þingmál að frumkvæði kjósenda. Í 66. gr. segir m.a. um þetta: “Tíu af hundraði kjósenda geta lagt fram frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi.”

Þó um sé að ræða nýjung í íslenskri stjórnskipan þá hefur þetta verið innleitt í mörgum öðrum löndum, bæði í Evrópu og víðar. Í Danmörku og Finnlandi hafa almennir borgarar t.d. möguleika á því að koma málum á dagskrá þingsins með því að safna amk. 50.000 undirskriftum fólks á kjörskrá og fullnægja ákveðnum skilyrðum. Það samsvarar uþb. 1% fólks á kjörskrám þessara landa. Spánn og Ítalía hafa bæði innleitt þjóðarfrumkvæði í stjórnarskrár sínar og Evrópusambandið í Lissabonsáttmálanum.

Um þessar mundir stendur yfir undirskriftasöfnun á vef Þjóðskrár Íslands með kröfunni um að Alþingi lögfesti nýju stjórnarskrána (sjá nánar á nystjornarskra.is). Þar hafa fjölmargir Íslendingar, 18 ára og eldri staðfest kröfuna, uþb. 15% fólks á kjörskrá. Forsætisráðherra hefur hins vegar kynnt til sögunnar nokkur breytingarfrumvörp við gildandi stjórnarskrá og birti í síðustu viku grein í Fréttablaðinu undir yfirskriftinni “Tækifærið er hjá Alþingi”. Í stefnuræðu sinni 1. okt. vísaði hún svo til skynsemissjónarmiða og almannahagsmuna án þess að útskýra nánar hvaða sjónarmið og hagsmunir það séu að sniðganga niðurstöður úr lögmætri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Við þingsetningu hvatti forseti Íslands þingið til dáða og sagði “brýnast að þingmenn sýni í verki að þeir geti tekið þær tillögur að breytingum á stjórnarskrá, sem fram koma, til efnislegrar afgreiðslu. Vangeta gæti jafnvel talist þinginu til vansa.”

Ljóst er að þinginu bíður erfitt úrlausnarefni. Eiga þingmenn að styðja frumvörp Katrínar eða ekki?

Vandi þingmanna er sá að stuðningur við frumvörp forsætisráðherra gengi gegn niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar og yrði síst til þess fallinn að auka traust almennings til stjórnmálaflokka og Alþingis. Á hinn bóginn gæti andstaða við frumvörp forsætisráðherra verið vatn á myllu þeirra afla sem engu vilja breyta í stjórnskipun landsins og hafa jafnvel hagsmuni af óbreyttu ástandi.

Í glænýju áliti Feneyjarnefndarinnar er m.a. tekið á þessu máli en þar stendur m.a. í lauslegri þýðingu: “Nefndin álítur að íslenska þjóðin eigi að fá augljósar, skýrar og sannfærandi útskýringar á leið ríkisstjórnarinnar, og ástæðu þess að vikið er í veigamiklum atriðum frá tillögum sem áður voru samþykktar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 2012. Þetta ætti að útskýra fyrir almenningi.”

Vandamálið kristallast í því að samkvæmt grunnhugmynd vestrænna lýðræðisríkja er uppspretta ríkisvalds hjá þjóðunum sjálfum en ekki hjá þjóðhöfðingjunum. Samkvæmt því er það íslenska þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn en ekki Alþingi, forsætisráðherra eða forseti Íslands. Hér hefur hins vegar dregist áratugum saman að uppfæra stjórnarskrána til samræmis við það sem tíðkast víða um lönd. Samkvæmt aldagömlu ákvæði í gildandi stjórnarskrá þarf Alþingi tvívegis að samþykkja stjórnarskrárbreytingar með alþingiskosningum á milli og staðfestingu forsetans að auki. Þetta hefur gefið stjórnmálaflokkum tækifæri til að standa í vegi fyrir nauðsynlegri endurnýjun samfélagssáttmálans og búum vér því ennþá við “bætta flík” svo vitnað sé í fyrsta forseta Íslands fyrir 70 árum síðan.

Það kann ekki góðri lukku að stýra að blanda saman hefðbundnum stjórnmálum og stjórnarskrárbreytingum. Ef meirihluti Alþingis vill samþykkja tillögur forsætisráðherra um breytingar á gömlu stjórnarskránni þá erum við sem þjóð í vanda. Leiðin út úr þeirri klemmu gæti verið að fylgja því sem lagt er til í 66. grein nýrrar stjórnarskrár og rakið var hér að ofan. Aukið lýðræði þar sem kjósendur myndu sjálfir velja á sérstökum kjörseðli í næstu alþingiskosningum hvort þeim hugnist betur, gildandi stjórnarskrá með tilteknum breytingum samkvæmt vilja meirihluta fráfarandi þings eða tillögurnar sem fengu brautargengi 20. október 2012. Þetta myndi gefa þjóðinni nýtt tækifæri til að taka afstöðu til þessara mikilvægu stjórnarskrárbreytinga og það án tillits til þess hvaða skoðanir fólk hefur á hinum hefðbundnu álitamálum í alþingiskosningum og kosningaloforðum flokkanna. Lýðræðisleg leið til aukins lýðræðis. Tækifærin eru hjá þjóðinni og það er þjóðin sem er stjórnarskrárgjafinn.

Höfundur er stjórnarmaður í Stjórnarskrárfélaginu.