Að undanförnu hefur talsverð umræða skapast um hinar fordæmalausu aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu og í því samhengi hefur samfélagslega ábyrgð fyrirtækja borið á góma. Fyrirtæki sem skilgreinir sig sem samfélagslega ábyrgt, með afmarkaða stefnu og markmið á því sviði, axlar ábyrgð á þeim ákvörðunum og athöfnum sem hafa áhrif á umhverfi og samfélag. Til að svo geti orðið, og fyrirtækið staðið við skuldbindingar sínar, þarf efnahagur þess að vera sjálfbær. Sjálfbærni er langtímamarkmið, sem felur í sér jafnvægi umhverfis-, efnahags- og samfélagsþátta, en rannsóknir hafa leitt í ljós að til lengri tíma litið skila fyrirtækja með slík stefnuviðmið betri arðsemi en ella.

Nýta þarf tækifærið til breytinga

Þegar faraldrinum linnir mun margt falla í fyrri farveg, á meðan annað tekur breytingum. Breytingum fylgir óvissa og áskoranir en einnig tækifæri. Og nú er tækifæri til að gera betur og stuðla að aukinni sjálfbærni íslensks samfélags. Það var áhugavert að sjá þau jákvæðu áhrif sem að faraldurinn hafði á losun gróðurhúsalofttegunda, en verulega dró úr losun samhliða samdrætti í umferð á höfuðborgarsvæðinu eins og kemur fram í tölum Vegagerðarinnar. Þó má búast við að áhrifin verði ekki varanleg nema tækifærið sé nýtt til breytinga.

Í störfum þar sem unnt var að koma fjarvinnu við vann fólk heiman frá sér að hluta til, eða alveg, í nokkrar vikur þegar faraldurinn stóð sem hæst. Það virkaði ágætlega. Líklega ekki alveg hnökralaust en þó þannig að einn banki hefur farið af stað með verkefni þar sem starfsfólki býðst áframhaldandi fjarvinna einn dag í viku. Annað dæmi var hjá framleiðslufyrirtæki á alþjóðamarkaði sem hefði alla jafna sent sérfræðinga, jafnvel á milli landa, til að þjálfa viðskiptavini í notkun nýrrar vöru, en leysti það með leiðsögn í gegnum fjarfundarbúnað. Vissulega krafðist það útsjónarsemi og reyndi á þolinmæði þeirra sem tóku þátt en gekk að lokum. Vissulega krafðist það útsjónarsemi og reyndi á þolinmæði þeirra sem tóku þátt en gekk að lokum.

Öflug upplýsingagjöf nauðsynleg

Til að breytingar sem þessar verði varanlegar þurfa bæði tækni og nýsköpun að gegna stóru hlutverki. Nýjar áherslur geta kallað á ný siðferðisleg álitamál og á milli aðila, svo sem starfsfólks og stjórnanda, þarf að ríkja traust.

Öll fyrirtæki eiga mikið undir því að njóta trúverðugleika og trausts hjá viðskiptavinum og samstarfsaðilum. Á síbreytilegum tímum þarf öfluga upplýsingagjöf. Hún getur átt sér stað hvort sem er á vefsíðum eða samfélagsmiðlum fyrirtækja en til þess að ávinna sér traust hafa fyrirtækin ýmsar leiðir. Gegnsæi og heilindi eru lykilbreyturnar í þeirri jöfnu.

Í miðlun upplýsinga um rekstur fyrirtækja gegna ársskýrslur, og þá ársreikningar sem hluti þeirra, veigamiklu hlutverki. Stjórnvöld hafa lagt æ ríkari kröfur á stór og meðalstór fyrirtæki, sem og félög tengd almannahagsmunum, um birtingu upplýsinga er varða umhverfis-, félags-, mannauðs-, mannréttinda- og spillingarmál. Þessum viðbótarupplýsingum eru gerð skil í samfélagsskýrslu, eða sem hluti af ársskýrslu, með samþættingu við ársreikninginn.

Viðurkenning fyrir eftirtektarverðustu samfélagsskýrslu ársins

Árlega veita Festa, Viðskiptaráð Íslands og Stjórnvísi viðurkenningu fyrir samfélagsskýrslu ársins. Tilnefningum hefur fjölgað jafnt og þétt milli ára, og ljóst að viðurkenningin hefur fest sig í sessi, enda fer metnaður fyrirtækja vaxandi þegar kemur að áreiðanlegri og sambærilegri upplýsingagjöf um frammistöðu þeirra þegar kemur að samfélagsábyrgð. Í þessum efnum, eins og svo mörgu öðru, er ekki verið að velja „bestu“ skýrsluna, því valið stendur á milli nokkurra skýrslna sem allar voru áhugaverðar og vel fram settar. Afhendingin viðurkenningarinnar fer fram við hátíðlega athöfn í dag, 9. júní.

Sjaldan hefur verið meiri þörf á öflugri upplýsingagjöf um efnahags-, samfélags- og umhverfisáhrif fyrirtækja en núna í kjölfar faraldursins, þegar þörf er á endurskipulagningu eða endurreisn fyrirtækja og aðkallandi aðgerðum vegna loftslagsbreytinga. Vonandi svara íslensk fyrirtækinu kallinu og nýta tækifærið til jákvæðra breytinga.