Lokanir á Reykjanesbraut, farþegar fastir í flugvélum, asahláka, rok og hálka, er á meðal þess sem fjallað hefur verið um í fréttum undanfarið. Veðrið hefur verið vont og áhrif þess mikil.

Á sunnudaginn gekk vonskuveður yfir landið. Flugsamgöngur stöðvuðust með öllu og hund­ruð farþega sátu föst í flugvélum í Keflavík þar sem ekki var hægt að ferja þau inn í flugstöðina.

Bandarískur ferðamaður sem sat fastur inni í flugvél klukkutímum saman sagði í sjónvarpsfréttum frá sinni upplifun. Hann var þreyttur og svangur og örlítið pirraður en sagðist vera of gamall til þess að vera reiður. Annar benti á að veður líkt og varð um helgina ætti ekki að koma Íslendingum á óvart og slá okkur út af laginu, við erum jú á Íslandi.

Er það ekki akkúrat málið? Við erum of gömul til að láta veður og afleiðingar þess koma okkur á óvart. Við erum á Íslandi og vont veður, snjór, vindur og hálka ætti ekki að slá okkur út af laginu.

Á síðasta ári var slegið hvert metið á fætur öðru þegar kom að fjölda veðurviðvarana. Í febrúar í fyrra gaf Veðurstofan út 137 viðvaranir vegna veðurs, aldrei hafa fleiri viðvaranir verið gefnar út í febrúar frá því að viðvörunarkerfið sem nú er notað var tekið upp fyrir fimm árum.

Síðasta sumar var annað met slegið þegar aldrei höfðu verið gefnar út fleiri veðurviðvaranir að sumarlagi. Alls voru gefnar út 50 við­varanir sumarið 2022, þar af 32 vegna vind­hraða. Fimmtán viðvaranir voru gefnar út vegna mikillar rigningar og þrjár vegna snjókomu.

Þá var viðvarandi kuldatíð á landinu frá 7. desember í fyrra til 19. janúar og er tímabilið það kaldasta frá árinu 1918. Veturinn það árið hefur verið kallaður frostaveturinn mikli, svo kaldur var hann.

Þetta á ekki bara við á Íslandi. Afleiðingar hlýnunar jarðar eru að verða sýnilegar. Það, sem við héldum að myndi einungis verða sýnilegt barnabörnum okkar eða barnabarnabörnum, sjáum við gerast.

Aukin úrkoma á sumum stöðum og þurrkar á öðrum, hækkun á hitastigi sums staðar og lækkun annars staðar og auknar líkur á ofsakenndu veðri. Allt eru þetta afleiðingar hlýnunar jarðar, afleiðingar sem við héldum mörg að við myndum ekki upplifa.

Því lengra sem líður þar til við tökum í taumana, því erfiðara verður að afstýra afleiðingunum. Því fleiri verða veðurviðvaranirnar, því fleiri sitja fastir í flugvélum og því erfiðara verður að lifa mannsæmandi lífi á jörðinni.