Í gær voru Hinsegin dagar í Reykjavík settir með pompi og prakt. Hinsegin dagar eru frelsishátíð sem einkennast fyrst og fremst af auknum sýnileika hinsegin fólks. Næstu dagana tökum við sem erum hluti þessa fjölbreytta samfélags pláss í almannarýminu, á okkar forsendum. Það hefur enda sýnt sig í gegnum árin að sýnileiki er eitt mikilvægasta tækið sem við höfum til þess að sporna við fordómum og hatri í okkar garð. Raunar mætti segja að Hinsegin dagar hafi sjaldan verið eins mikilvægir, enda var lítið um hátíðarhöld í fyrra og hátíðin verður líka minni í sniðum í ár en oft áður vegna aðstæðna.

Við erum öll mismunandi á okkar hátt. Hinsegin fólk er þar engin undantekning, enda erum við alls konar og reyndar mjög ólík innbyrðis. Við erum á öllum aldri, af öllum kynjum, í öllum stéttum og svona mætti lengi telja. Þó má segja að hinsegin fólk eigi það sameiginlegt að við brjótum upp niðurnjörvaðar hugmyndir um kyn: kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni og kyntjáningu. Aldrei hefur meiri margbreytileika verið að finna innan hinsegin samfélagsins á Íslandi og ljóst er að það má þakka einmitt sýnileikanum: aðgengi að upplýsingum og auknum fjölda fyrirmynda.

Með sýnileika hinsegin fólks, líkt og þeim sem verður til á Hinsegin dögum, búum við nefnilega til fyrirmyndir. Þær eru mikilvægar vegna þess að þær geta aukið skilning og velvild meirihlutasamfélagsins og þær eru mikilvægar vegna þess að þær geta reynst fólki sem er að fóta sig í hinsegin kynverund sinni lífsnauðsynlegar.

Það er ekki sjálfgefið að fólk sé tilbúið til þess að stíga skrefið af stolti og láta sín sérkenni sjást í samfélaginu okkar, óhrædd og hinsegin. Ef verða á til jarðvegur á Íslandi þar sem öll blóm fá sannarlega að blómstra þarf að búa til pláss. Sýnileiki þeirra sem á undan koma skiptir þar sérstaklega miklu máli, því með hverri manneskju sem sýnir hugrekki til þess að vera sú sem hún er myndast rými fyrir þá næstu til að blómstra. Fólk sem sýnir hinsegin réttindum og tilveru stuðning getur líka tekið þátt í að skapa og viðhalda þessu rými, þessu frelsi.

Við sem erum hinsegin þurfum bandamenn sem eru tilbúnir til þess að standa með okkur þegar á reynir. Við þurfum í sameiningu að standa vörð um sýnileikann. Á Hinsegin dögum mun öllum gefast tækifæri til að fræða sig um hinsegin fólk og þau málefni sem brenna á samfélagi okkar. Nú er því kjörið að leggja sig fram við að kynnast sjónarhornum sem maður hefði ef til vill ekki annars komist í tæri við og styðja opinberlega við hinsegin fólk.

Ég hvet þess vegna öll þau sem tilheyra meirihlutasamfélaginu til að taka afstöðu með fjölbreytileika mannlífsins. Gerið ykkur sýnileg sem bandamenn. Takið afstöðu með frelsi okkar hinsegin fólks til að lifa lífinu nákvæmlega eins og við erum, þar sem við fáum tækifæri til að vera stolt af sérkennum okkar. Virðing fyrir og samstaða með hinsegin fólki krefst þess ekki að maður skilji öll smáatriði. Það eina sem þarf er velvild og hugrekki til að standa með jaðarsettum hópum, líka þegar það er erfitt. Við verðum öll saman að hafna málflutningi sem elur á fordómum og sem stuðlar að sundrungu. Munum alltaf að við erum öll fyrst og fremst manneskjur.

Samtökin ’78 eru stolt af þeim árangri sem náðst hefur í réttindabaráttu hinsegin fólks síðastliðin 43 ár og við erum vongóð um að á Íslandi verði áfram samfélag framfara og frelsis. Hinsegin dagar í Reykjavík eru einn mikilvægasti hlekkurinn í því að viðhalda og þoka áfram réttindum hinsegin fólks á Íslandi, með sýnileikann og gleðina að vopni. Ég óska stjórn Hinsegin daga innilega til hamingju með vikuna og óska um leið öllum Íslendingum gleðilegra hinsegin daga.

Höfundur er formaður Samtakanna ´78.