Stjórnarskrárfélagið, sem berst fyrir því að drög að stjórnarskrá sem Feneyjanefnd Evrópuráðsins gaf falleinkunn árið 2013 verði leidd í lög, er skipað færum pólitískum aðgerða­sinnum. Áhrifaríkar auglýsingar frá þeim bera þess glöggt vitni.

Tímasetningin, þegar þjóðfélagið er í sárum vegna COVID-19, er varla tilviljun. Meðlimir Stjórnarskrárfélagsins hafa eflaust hugsað sér gott til glóðarinnar enda spruttu tillögurnar upphaflega úr jarðvegi óróleika og reiði sem bankahrunið 2008 skapaði.

Athygli vekur að ekki hefur verið ákall um breytta stjórnarskrá fyrir undanfarnar alþingiskosningar. Þar hafði sitt að segja að Feneyjanefndin sagði að tillögurnar væru óljósar, almennt orðaðar, stjórnarkerfið flókið og án samræmis. Ekki bætti úr skák að kosningar til stjórnlagaráðs voru dæmdar ólöglegar og tillögurnar ekki bornar undir þjóðina.

Hve stóran sess vinstri hugmyndafræði á í hjörtum höfunda tillagnanna og forsprakka Stjórnarskrárfélagsins er hluti af vandanum. Stjórnarskráin var ekki þjóðarinnar allra heldur þeirra.

Katrín Oddsdóttir, formaður hópsins, sagði í Silfrinu á sunnudaginn að hún gæti ekki sætt sig við að forsætisráðherra myndi leggja fram frumvarp um breytingar á tveimur ákvæðum stjórnarskrárinnar sem lúti að auðlindum og náttúru- og umhverfisnefnd.

Katrín, sem tók þátt í að semja drögin fyrir átta árum, sættir sig einungis við að tillagan verði lögleidd í heild sinni. Að öðrum kosti sé verið að ramma inn ósanngirni. „Við þurfum alvöru auðlindaákvæði í stjórnarskrá sem kveður á um að það megi ekki veðsetja og framselja aflaheimildir, og ekki nýta þær nema gegn fullu verði.“

Það er margt dapurlegt við þessa afstöðu, eins og til dæmis að stjórnarskráin höfði ekki bæði til vinstra og hægra fólks, enda munu að öllum líkindum ríkisstjórnir sem horfa með ólíkum augum á kvótakerfið stýra landinu á næstu áratugum.

Tillaga Katrínar mun stórskaða atvinnulífið og draga úr lífskjörum landsmanna. Sjávarútvegur er eina stóra útflutningsgrein þjóðarinnar sem mögulega getur stigið ölduna í COVID-19. Það mun hann ekki geta í spennitreyju Stjórnarskrárfélagsins. Gangi hugmyndirnar eftir verður það stórt skref í átt að fátækara samfélagi.

Snúum dæminu við. Með tíð og tíma skammast listamenn sín stundum fyrir sitt fyrsta verk. Það ættu fulltrúar í stjórnarlagaráði að gera í þessu tilviki. Í ljósi þess hve mikla athygli tillögurnar fá núna væri við hæfi að þeir myndu biðjast afsökunar á óljósum texta og vinstri pólitík. Það væri heiðarlegt.