Bretaníu-bolurinn er tískuflík sumarsins. Þverröndóttur bómullarbolurinn, eins konar óopinber þjóðbúningur Frakka, leit fyrst dagsins ljós sem einkennisklæðnaður sjóhersins í Norður-Frakklandi árið 1858. Bolinn prýddu tuttugu og ein rönd, að sögn ein fyrir hvern sigur Napóleons Bónaparte gegn Bretum. En Bretaníu-bolurinn er ekki eina franska uppfinningin sem komin er aftur í tísku.

Við upphaf mánaðarins rættist draumur krikketleikarans Ollie Robinson er hann lék fyrsta leik sinn á stórmóti fyrir enska landsliðið. Sama dag breyttist draumurinn í martröð. Meðan á leiknum stóð komu upp á yfirborðið áratuga gamlar færslur á samfélagsmiðlinum Twitter eftir Robinson sem báru vott um rasisma og kvenfyrirlitningu. Robinson baðst afsökunar. En syndaaflausn átti ekki upp á pallborðið hjá enska krikket­sambandinu. Þótt Robinson hafi verið unglingur þegar hann lét ummælin falla var hann rekinn úr liðinu.

Opinber aftaka

Sagan segir að síðustu ár ævi sinnar hafi Maximilien Robespierre, einn þekktasti forgöngumaður frönsku byltingarinnar, hafst við í bergmálshelli eigin ágætis. Hann bjó í íbúð í París með fólki sem dáði hann, umkringdur speglum og málverkum af sjálfum sér. Robespierre hafði verið þekktur fyrir að vera réttlátur maður. Hann var lögfræðingur og friðarsinni sem barðist gegn dauðarefsingum og þrælahaldi. Það var óbilgjörn trú Robespierre á eigið siðgæði sem varð til þess að hann gerðist vægðarlausasti böðull byltingarinnar. Á tíma „ógnarstjórnarinnar“ 1793 til 1794 voru sautján þúsund manns teknir af lífi. Ekki aðeins þeir sem unnu gegn byltingunni með beinum aðgerðum fengu að kynnast fallöxinni. Samkvæmt „lögum um grunaða“ töldust þeir einnig sekir sem „með framferði, tengslum, tungumáli – töluðu eða rituðu – afhjúpuðu sig sem ... óvini frelsisins“.

Samfélagsmiðlar eru fallöxi samtímans. Leiki minnsti grunur á að bærist með einstaklingi hugsanir sem ganga gegn ríkjandi málstað bíður hans opinber aftaka. Ollie Robinson er ekki eina íþróttastjarnan sem dæmd var úr leik í siðferðiskapphlaupi samtímans í mánuðinum. Nýverið fór myndband um samfélagsmiðla þar sem Eiður Smári Guðjohnsen sést pissa á almannafæri. Samstundis bárust af því fréttir að starf Eiðs hjá Knattspyrnusambandi Íslands héngi á bláþræði. Eiður hefur nú verið sendur í tímabundið leyfi.

Við fyrstu sýn kann að virðast sem enska krikketsambandið og KSÍ fari fram með góðu fordæmi; ljótir hlutir eru ekki liðnir. Sé betur að gáð sést að viðbrögðin eru jafnholl almennu velsæmi og siðferðisvitund Robespierre.

Rannsókn sem gerð var við Stanford-háskóla sýnir að þeir sem flagga mest andstöðu sinni við rasisma eru líklegri til að sýna af sér rasíska hegðun. Í sálfræði kallast fyrirbærið „siðferðisleyfi“ (e. moral licensing). Fólk sem telur sig góðar manneskjur finnst það hafa meira svigrúm en aðrir til að sýna af sér slæma hegðun. Sama gildir um fyrirtæki. Ný rannsókn sýnir að hjá tæknifyrirtækjum í Bandaríkjunum sem lýstu opinberlega yfir stuðningi við „Black Lives Matter“-hreyfinguna unnu tuttugu prósentum færri svartir starfsmenn en hjá fyrirtækjum sem gerðu það ekki.

KSÍ tekur þátt í sýndarsiðferði samtímans. Það má ekki pissa úti á götu. En það er í lagi að spila fótbolta í Katar þar sem mannréttindi eru höfð að engu. Það er í lagi að flagga styrktaraðilanum Kók sem gengur gegn öllum hugmyndum um hollustu og hreysti. Engum var hótað atvinnumissi þegar kreditkort KSÍ var notað í leyfisleysi á nektarstað í Sviss um árið.