Á æskuárunum laumaði amma mín heitin sykurmolum til mín þegar enginn sá. Hvort þetta var leyndarmálið okkar eða með samþykki foreldra minna veit ég ekki. Ég þykist samt vita að það er óskrifuð regla að ömmur hafa sérstakt leyfi til að bera sætindi í barnabörn sín.

Hinar nýju reykingar?

Sykur hefur átt undir högg að sækja og er ósjaldan titlaður sem hinar nýju reykingar, en með því er vísað í lýðheilsuógn sykurneyslu. Þrátt fyrir almenna vitneskju um óhollustu sykurs, víla samt margir ekki fyrir sér að fylla magann af sætindum og gosdrykkjum. Ekki síst í veikindum, eins og COVID. Á alnetinu voru sagðar sögur af fólki sem veiktist alvarlega. Það lýsti þakklæti til aðstandenda, sem færðu því kökur og sælgæti. Gróa á Leiti hvíslaði meira að segja að þau sem veiktust verst væru sælgætisgrísir. En hafðu mig samt ekki fyrir því. Til að toppa sykursæluna gaf Krispy Kreme í Bandaríkjunum heilbrigðisstarfsfólki kleinuhringi í kórónaveirufaraldrinum við mikinn fögnuð.

Sykur kemur víða við sögu. Kórónaveiran sem skekur heimsbyggðina nýtir sér próteinið ACE2 til að komast inn í líkamann, en virkni þess er háð sykrum. Próteinið finnst á frumum í öndunarvegi, sérstaklega í nefi og þeim hluta lungna þar sem súrefni streymir inn í líkamann. Próteinið er einnig á frumum hjarta, nýrna, þarma og æðaveggja. Veiran hefur einskonar lykil að ACE2 og smeygir sér þannig inn í frumur. Þegar inn er komið hertekur hún stjórnstöð frumunnar í þeim tilgangi að fjölga sér. Ónæmiskerfið verður vart við innrásina og sendir bólguher sinn á svæðið. Því meiri bólga, því verri einkenni. Bólga truflar eðlilega líkamsstarfsemi, til dæmis með því að hindra flæði súrefnis úr lungum í blóðið. Svo virðist sem veiran komist ekki gegnum ACE2 án dyggrar aðstoðar dyravarðar (sem kallast S-prótein), sem þarf sykur til geta opnað gáttina fyrir kórónaveirunni. Án hans kemst veiran ekki inn í frumuna.

Sykur og COVID

Sykur og kórónaveiran eiga það sameiginlegt að hvetja ónæmiskerfið til að elda grátt silfur við æðakerfið. Bæði geta skaðað æðakerfið og aukið segamyndun í blóði. Sagt hefur verið að sykur skrapi æðaveggi eins og möl skrapar veggfóður. Með því er átt við að sykur hengir sig á prótein í æðaveggjum sem þá verða viðkvæmari og brothættari. Ónæmiskerfið skynjar skaðann og sendir viðgerðarher sinn á svæðið með tilheyrandi bólgu. Sykur í gosdrykkjum og sætindum getur þannig valdið bólgu í æðaveggjum - og því meiri sykur, því meiri bólga og lasleiki.

Æðakerfið fær oft ekki mikla athygli, en það er mikilvægur hlekkur í allri líkamsstarfsemi, enda er það gríðarlega umfangsmikið. Ef þú leggur saman allar æðarnar í þér þá ná þær tvo og hálfan hring í kringum jörðina.

Er sykurmolinn frá ömmu sökudólgur

Sjúkdómar eru venjulegar tilkomnir vegna samspils erfða, umhverfis og lífshátta. Því er sjaldnast einn sökudólgur að verki. Með ofangreindu er því ekki verið að halda fram að þeir sem veikjast verst af COVID séu sælgætisgrísir, eða að þau hundruð Íslendinga sem þjást af langvarandi einkennum stundi óhollan lífsstíl. Það er ekki á mínu færi að álykta um slíkt.

En það að háma í sig sykur er augljóslega ekki æskilegt fyrir æðakerfið og þar með eiganda þess.

Einn og einn sykurmoli frá ömmu er líklega ekkert til að hafa áhyggjur af, en höfum í huga að einn gosdrykkur á dag eykur hættu á sykursýki og þar með æðasjúkdómi. Hvort sykurneysla greiði aðgang veirunnar inn í líkamann, verður framtíðin að leiða í ljós. Burtséð frá því er hollt að endurskoða samband sitt við sykur.