Ég er þeirrar skoðunar að við ættum aldrei að heilsast með handabandi aftur,“ sagði Anthony Fauci, forstjóri Ofnæmis- og smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna, um síðustu páska. Horfurnar eru ekki góðar fyrir handabandið. Nú, ári eftir ummæli Faucis, fögnum við öðru sinni páskum í skugga sóttvarnareglna. Um heim allan heilsar fólk gestgjöfum sínum, íklætt sparifötum að ofan og náttfötum að neðan, með því að smella á takkann „join meeting“ í stað þess að takast í hendur. Og ekki að ástæðulausu. Gregory Poland, bóluefnasérfræðingur við Mayo heilbrigðisstofnunina í Bandaríkjunum, sagði það „að rétta einhverjum höndina væri eins og að rétta einhverjum sýklavopn.“

Handabandið hefur vægast sagt beðið álitshnekki síðasta árið. Er borin von að það lifi af COVID-19?

Eldra en mannkynið

Árið 1887 mátti lesa um upphaf handabandsins í dagblaðinu Rochester Post-Express: „Fyrr á tímum, áður en siðmenningin reis, þegar hver annar villimaður var löggjafi, dómari, hermaður og lögga ... [rétti fólk fram] höndina sem mundaði sverðið, hnífinn, kylfuna eða öxina. Var það gert til að sýna öðrum að höndin væri tóm, að ekkert illt, stríð eða svik, stæði til.“

Því hefur lengi verið haldið fram að upphaf handabandsins megi rekja til miðalda og að tilgangur þess hafi verið að sýna fram á að viðkomandi héldi ekki á vopni. Kenningin er snotur. En hún er röng.

Í nýrri bók um sögu handabandsins „The Handshake: A Gripping History“ hrekur Ella Al-Shamahi, þróunarlíffræðingur og fornleifafræðingur, rótgrónar þjóðsögur um handabandið. Hún segir handabandið eldra en oft er talið. Rismynd frá Mesópótamíu sem varðveitt er í Þjóðminjasafni Íraks sýnir til að mynda tvo konunga heilsast. Menn heilsast með handabandi í Hómerskviðum. Svo kann hins vegar að vera að upphaf handabandsins teygi sig enn lengra aftur.

Árið 1957 heimsótti náttúrufræðingurinn David Attenborough Nýju-Gíneu. Myndatökumaður náði því á filmu þegar stór hópur frumbyggja, þjóðf lokks sem talið er að ekki hafi verið í samskiptum við umheiminn áður, kom hlaupandi að þáttagerðamanninum vopnaður hnífum og spjótum. Í myndskeiði sést Attenborough rétta fram höndina. Án þess að hika taka mennirnir í spaðann á Attenborough og hrista hann upp og niður eins og ekkert sé eðlilegra.

Al-Shamahi segir að handabandið sé ekki menningarlegt fyrirbrigði heldur líffræðilegt. Simpansar, nánir ættingjar mannsins, heilsast með handabandi eftir átök en þá vefja þeir saman fingrum „eins og tveir unglingar sem takast þvermóðskulegir í hendur eftir slag.“ Þykir það benda til þess að handabandið eigi rætur að rekja til sameiginlegs forföður mannsins og simpansans og það sé því eldra en mannkynið.

En hver er líffræðilegur tilgangur handabandsins? „Snerting veldur vellíðan, býr til tengingu og samkennd og áhrifin eru lífeðlisfræðileg, lífefnafræðileg og sálræn.“ Einnig eru kenningar uppi um að handabandið sé leið mannsins til að hafa samskipti með lykt, eins og hundar merkja sér svæði og margar dýrategundir gefa til kynna fengitíma. Þegar við heilsumst finnum við lyktina hvert af öðru en hún inniheldur upplýsingar um ótta, reiði og andstyggð sem viðvörunarkerfi í undirmeðvitundinni meðtekur.

Saga handabandsins sýnir að þrátt fyrir svartnættið er ástæða til bjartsýni. Árið 1793 lést 10 prósent íbúa Fíladelfíu úr gulusótt sem olli því að „rótgróið handabandið féll svo rækilega úr náðinni að margir hrukku aftur ef einhver vogaði sér að rétta fram höndina,“ sagir í samtímaheimild. Það sneri þó fljótt aftur.

Fréttir af dauða handabandsins eru stórlega ýktar. Rétt eins og við er handabandið aðeins í tímabundinni sóttkví. Gleðilega páska – megum við heilsast að ári með handabandi.