Stjórn­mála­fræðingurinn knái Hannes Hólm­steinn Gissurar­son hélt fyrir­lestur í vikunni þar sem hann sagði skattasnið­göngu vera dyggð. Byggði hann á­lyktunina á sið­ferðis­kenningum heilags Tómasar af Aqu­ino, þrett­ándu aldar munks og guð­fræðings.

Á sama tíma bárust fréttir af vafa­sömum fjár­mála­gjörningum kaþólsku kirkju­deildarinnar Her­sveitar Krists, trúar­reglu sem þekkt er fyrir stór­tækt barna­níð. Í Pan­dóru­skjölunum, stærsta leka á fjár­mála­upp­lýsingum í sögunni, sést að Her­sveitin átti háar fjár­hæðir í leyni­legum aflands­sjóðum.

Öldum saman hafa heim­spekingar leitað að upp­tökum sið­ferðisins, lög­málum þess og til­gangi. Svo tor­skildar eru til­finningarnar sem bærast með okkur þegar við stöndum frammi fyrir spurningum um rétt og rangt að margir hafa dregið þá á­lyktun að sið­ferði hljóti að vera ein­hvers konar yfir­náttúr­leg lög að ofan.

Nichola Rai­hani er dýra­fræðingur sem stundar rann­sóknir á þriflum, lítilli fisk­tegund sem lifir við kóral­rif og nærist á sníkju­dýrum og dauðum hreistur­flögum annarra fiska. Þrifillinn og „við­skipta­vinurinn“ njóta góðs af sam­starfi þar sem annar fær mál­tíð, hinn húð­snyrtingu. Einn hængur er þó á. Þriflinum finnst betra að snæða lifandi líkams­vef við­skipta­vinarins. Hvernig er sam­starfi við­haldið þegar annars aðilans er stöðugt freistað að svindla?

Rai­hani komst að því að það er gert með tvennu móti. Annars vegar með refsingu: Þegar hópur þrifla hreinsar við­skipta­vin og einn bítur, syndir við­skipta­vinurinn í burtu og allir verða af mál­tíðinni; þeim sem beit er refsað af hinum þriflunum. Hins vegar á­lits­hnekki: Fylgist til­vonandi við­skipta­vinur með störfum þrifils, vandar hann sig betur við að styggja ekki nú­verandi við­skipta­vin.

Í ný­út­kominni bók sinni heldur Rai­hani fram að þær að­ferðir sem tíðkast í sam­skiptum þrifla og við­skipta­vina séu í raun það sem heim­spekingar hafa öldum saman kallað sið­ferði í mann­legu sam­fé­lagi. Rai­hani er ekki ein þessarar skoðunar. Hæfni mannsins til að vinna saman í stórum hópum er lykillinn að yfir­burðum hans. Mann­fræðingurinn Oli­ver Scott Curry skoðaði sið­ferðis­gildi í sex­tíu sam­fé­lögum. Niður­stöðurnar sýndu að öll sam­fé­lög fylgdu sömu sið­ferðis­reglunum, óháð trúar­brögðum. Curry segir sam­starf og sið­ferði það sama; sið­ferði sé lausn mann­kynsins á vanda­málum sem koma upp við sam­vinnu þess.

Annars konar dýr­lingar

Upp­ljóstranir í Pan­dóru­skjölunum um skattasnið­göngu, mis­bjóða nú sið­ferðis­vitund fólks um heim allan. Tony Blair notaði aflands­fé­lag til að kaupa fast­eign í London og spara sér 55 milljónir ís­lenskra króna í stimpil­gjald. Konungur Jór­daníu á í laumi lúxus­hús­eignir í London og Mali­bú þótt land hans reiði sig á þróunar­að­stoð.

Við há­skólann í Amsterdam var ný­verið gerð rann­sókn þar sem þátt­tak­endur köstuðu teningi og unnu fé. Því hærri tölu sem þeir sögðust hafa fengið því hærri upp­hæð unnu þeir. Að­stæður voru með þrennu móti: 1) Ekki var fylgst með teninga­kastinu svo þátt­takandi gat svindlað að vild. 2) Fylgst var með en trúnaði heitið. 3) Fylgst var með og þátt­takanda sagt að upp­lýsingum um fram­ferði hans yrði deilt með öðrum. Í ljós kom að þótt fylgst væri með fólki svindlaði það ekkert síður. Þegar þátt­tak­endur áttu hins vegar á hættu að hegðun þeirra fréttist, snar­minnkaði svindlið.

Að gefa sér þær for­sendur að kaþólskur dýr­lingur sé gild heimild um rétt og rangt er eins og að leita í smiðju Svart­höfða að upp­eldis­ráðum handa ný­bökuðum feðrum.

Pan­dóru­skjölin sýna að það eru annars konar dýr­lingar sem veitt geta að­hald þeim „þriflum“ meðal okkar sem falla nú í freistni: Þeir kallast upp­ljóstrarar.