Í gær tók gildi nýtt greiðslukerfi fyrir Strætó. Nútímavæðing bréfstrætómiða og pappírskorta var eflaust tímabær, en markmið breytingarinnar er ekki síst að stemma stigu við svindli. Takist einhverjum að laumast inn án þess að borga verður beitt grimmum sektum.

Fram hefur komið að Strætó telur sig verða af allt að 200 milljónum árlega vegna svindls. Það er ekki há fjárhæð miðað við þá hagsmuni sem í húfi eru fyrir þá sem þurfa að komast milli staða, óháð því hvort þeir eigi fyrir fargjaldi í strætó. Almenningssamgöngur eru grundvallarþáttur í að tryggja og styðja við að fólk geti lifað eðlilegu lífi, sótt vinnu, sinnt börnum, útréttingum og félagslífi, verið frjálst. Einhverjum kann að þykja það dramatísk fullyrðing að fólk geti hreinlega misst tökin á lífinu fari aðgangur þess að samgöngum úr skorðum. Hún er samt sönn og þess vegna er gríðarlega mikilvægt að fólk, bæði fullorðnir og börn, hafi tök á að svindla sér í strætó.

Fyrir nokkrum árum var bótasvindl öryrkja helsta áhyggjuefni þáverandi formanns fjárlaganefndar, sem taldi sig geta lokað fjárlagagatinu með því að afhjúpa óprúttna öryrkja. Njósnað var um atvinnulausa á samfélagsmiðlum til að koma upp um rányrkju þeirra. Borgarar voru hvattir til að segja til ættingja sinna og nágranna sem þeir grunuðu um að féfletta ríkið til að eiga fyrir salti í grautinn.

Það er víða svindlað. En þær alvöru fjárhæðir sem ekki skila sér í sameiginlega sjóði samfélagsins vegna svindls enda í djúpu vösunum, ekki þeim grunnu og götóttu. Þær eru milljónir og milljarðar, ekki hundraðkallar í strætó. Eftirlits- og refsiaðgerðir kerfisins gegn fátæku fólki eru grimmar og skila ekki árangri fyrir samfélagið enda er það allra hagur að fólk komist í vinnuna og börnin á æfingu og að sem allra flestir geti reddað sér. Ef fólk á ekki fyrir farinu, eigum við samt að bjóða það velkomið um borð. Strætó er eitt af mikilvægustu samfélagsfyrirtækjum landsins og á að tryggja frekar en standa í vegi fyrir því að peningalaust fólk komist leiðar sinnar. Það er ekki síst þá sem lífið liggur við.

Jafnvel þótt Strætó takist að ná einhverjum af þessum 200 milljónum koma þær bara fram annars staðar sem mínus í kerfinu. Ef ekki hjá Strætó, þá hjá félagsþjónustunni eða Tryggingastofnun, Fangelsismálastofnun eða lögreglunni. Það margborgar sig að gefa fólki einfaldlega séns.