Hvernig á að halda fólki við efnið þegar kemur að sjónvarpsþáttum? Auðveldasta leiðin er að skoða hvernig teymið sem klippir Bach­e­lor-þáttaraðirnar til gerir. Þar sogast áhorfandinn inn og talar um það sem mun gerast í heila viku.

Þeir sem standa að Ófærð eru ekki í BachelorNation. Það er augljóst.

Það liðu ekki nema tólf sekúndur frá því að Sverrir stökk út í sjó í Adidas-smellubuxunum sínum og þar til hann birtist í yfirheyrslu í kitlu fyrir næsta þátt.

„Það er eitthvað sem gengur ekki upp,“ sagði einn karakterinn í sömu kitlu. Nó shit. Þetta meikar allt saman ekkert sens.

Ekki frekar en þáttaröð 1 og rétt upp hönd sem kláraði þáttaröð númer 2.

Manchester United tapaði fyrir Liverpool um daginn á heimavelli 5-0. Þá sagði einn knattspyrnuspekingurinn að það væri eins og Manchester-liðið hefði aldrei séð Liverpool spila síðustu þrjú ár miðað við mistökin sem þeir voru að gera.

Það er alveg hægt að heimfæra það yfir á Ófærð. Það er eins og þeir sem sköpuðu þennan Ófærðarheim hafi hreinlega ekki horft á sjónvarp síðustu ár.

Því allt er eitthvað svo skrýtið, hægt og eiginlega svolítið leiðinlegt. Því miður. Eins mikið og maður vill halda með þessu.

Miðað við aldur og fyrri störf Baltasars Kormáks, sem er einn af okkar bestu kvikmyndasonum, þá vantar allt Hollywood í Ófærð. Það vantar einhvern neista.

Eitthvað sem gleður því þegar maður sest niður og horfir er eins og maður sé að horfa á leikara sem vilja ekkert vera þarna. Það má skrifa á þann sem ber ábyrgð.