Litlu mátti muna að Reykjavíkurborg stæði sig vel. Hún tekur þátt í að fjármagna rekstur einkarekinna barnaskóla. Vandinn er að þeir sem halda um stjórnartaumana í borginni kusu að stíga ekki skrefið til fulls. Þess vegna fá skólarnir skert framlög miðað við aðra skóla í Reykjavík. Það er röng nálgun.

Í raun er verið að bregða fæti fyrir einkaframtakið og skapa aðstæður þar sem skólarnir bjóða upp á verra skólastarf. Það bitnar á nemendum, kennurum og samfélaginu öllu enda er menntun grunnurinn að góðum lífskjörum. Mælikvarðinn á einkarekstur sem veitir opinbera þjónustu er ekki að hann afli sjálfstæðra tekna, eins og ætla mætti af fyrirkomulaginu, heldur að hluthafar hætti eigin fé í reksturinn.

Leita þarf leiða til að efla menntun á Íslandi og öflugir einkareknir skólar eru vel til þess fallnir að innleiða nýjungar í skólastarfið og veita nemendum góða þjónustu. Eins og ótal sinnum hefur komið fram: Við getum ekki stólað á að náttúruauðlindir muni halda uppi lífsgæðum hér á landi á 21. öldinni heldur þurfum við að byggja upp þekkingariðnað. Og ekki komumst við langt á því sviði án góðra skóla.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að barnaskóli Hjallastefnunnar í Öskjuhlíð hafi verið rekinn með halla öll starfsárin og að tekjurnar komi að mestu frá borginni. Á sama tíma hafi leikskóli Hjallastefnunnar á sama stað verið í jafnvægi því honum fylgi meira fé frá borginni.

Að sjálfsögðu eiga allir barnaskólar að fá jafnt frá borginni. Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, hefur sagt að skert framlög leiði til skólagjalda sem ekki allir foreldrar geti staðið undir. Jöfn framlög myndu því jafna tækifæri barna til skólagöngu.

Það var skynsamlega mælt. Aftur á móti lít ég málið öðrum augum: Jafnt framlag gefur einkaskólum aukinn kraft til að mennta börn, hvort sem þeir ákveða að innheimta skólagjöld eða ekki. Það er til mikils að vinna. Einkaskólar á Íslandi hafa aukið fjölbreytni í menntakerfinu og sömuleiðis hvatt skóla í opinberum rekstri til dáða.

Þetta er lýsandi dæmi um hve margir stjórnmálamenn vantreysta einkaframtakinu. Rótgróin opinber rekstur á það til að staðna, jafnvel verða úr sér genginn, en verður ekki skapandi eyðileggingu að bráð, eins og fyrirtæki sem standa sig ekki í samkeppni. Þess vegna er nauðsynlegt að útvista verkefnum til að leyfa ferskum vindum að blása um kerfið. Ef einkafyrirtækin staðna geta aðrir tekið við keflinu.