Það er með miklum ólíkindum hvernig komið er fyrir íslenskum sauðfjárbúskap. Þeir bændur sem hafa hann að atvinnu hringinn í kringum landið eru fastir í fátæktargildru sem á að giska galið og gjörsamlega staðnað landbúnaðarkerfi hefur egnt fyrir þá svo áratugum skiptir.

Bændur eiga betra skilið, þó ekki væri fyrir annað en að afurð þeirra er á heimsmælikvarða, enda um hágæðakjöt að ræða, sannkallaða villibráð sem lifir á heilnæmu grasi upp til heiða og fjalla, en ekki efnabættu og ræktuðu grasi eins og víðast hvar í Evrópu – og raunar líka á Nýja-Sjálandi, hvaðan menn telja sig gera betur í lambakjöti en annars staðar á jörðinni.

Heima á Íslandi hafa forkólfar landbúnaðarkerfisins forklúðrað sölumöguleikum bænda og hneppt þá í fjötra sem enginn lykill virðist vera að. Heima á Íslandi hafa helstu óvinir bænda reynst vera þeir sem telja sig þeim hliðhollastir, en eru í raun og sann varðhundar kerfis sem kann ekki fagið.

Heimsmarkaðir eru hundsaðir, svo sem Evrópu­markaðurinn, sem gæti samkvæmt heimildum tekið við þúsundum tonna á ári af úrvalskjöti fyrir efnaða kaupendur í norðanverðri álfunni þar sem sóknin eftir hreinleika, gæðum og upprunavitund hefur aldrei verið meiri.

Helsta sóknarfæri íslensks landbúnaðar er innan Evrópusambandsins, en eins og kunnugt er fer stór hluti af fjármagni þess í margháttaða styrki til landbúnaðar, einkum og sér í lagi á svæðum norðan 62. breiddargráðu, en svo vill til að Ísland er allt á því heimskautasvæði.

Íslenskum bændum er neitað um þetta styrkjakerfi af stjórnmálaflokkum sem hafna sóknarmöguleikum greinarinnar.

Öðruvísi er um að litast í Finnlandi þar sem Evrópusambandsaðild hefur reynst mesta lán landbúnaðar í landinu í háa herrans tíð. Heimskautasvæðisbændur þar í landi reka nú öflugri og fjölþættari bú en nokkru sinni.

Á meðan þessu vindur fram búa íslenskir sauðfjárbændur við lægsta afurðaverð í Evrópu. Jafnvel rúmenskir bændur fá meira fyrir lambaskrokkana sína en íslenskir bændur, alls 479 krónur á kílóið, á meðan afurðaverð til íslenskra sauðfjárbænda með viðbótargreiðslum er um 468 krónur, samkvæmt nýlegum tölum.

Innan Evrópusambandsins er afurðaverð til bænda að meðaltali helmingi hærra en til íslenskra bænda – og hæst er það hjá frönskum bændum, yfir eitt þúsund krónur. Íslenskir bændur eru langt frá því að vera hálfdrættingar á við þá.

Þetta vilja varðhundar kerfisins.