Sveitarstjórnarmálin eru frábrugðin landsmálapólitíkinni. Sveitarstjórnarstigið er svolítið „saklausara“ enda miklu nær íbúum en landsmálin. Boðnir fram listar þar sem nágrannar, vinir, frændur og jafnvel systkini bjóða sig fram hvert hjá sínu aflinu. Það er varla neinn sérstakur hugmyndafræðilegur og ekki nema í undantekningartilfellum einhver alvöru málefnaágreiningur milli framboða. Það er einhvern veginn ekki sérstaklega líklegt að menn berist á banaspjótum í umræðu um fjölgun leikskólarýma. Almennt er fólk bara frekar sammála um það. Sama gildir um samgöngur. Fólk er frekar mikið fyrir þær.

Að gefa sig að sveitarstjórnarmálum er að mínu mati aðdáunarvert og fólk sem gerir það á að fá einhverja sérstaka viðurkenningu, hér eða hinum megin. Í fæstum sveitarfélögum eru mál með þeim hætti að unnt er að ætla að annað en að velvilji í garð samfélagsins og samborgaranna ráði för. Vissulega eru undantekningar en allt hefur þetta yfir sér einhvern sakleysislegri blæ og helstu áherslur framboðanna snúa að þjónustu við barnafólk og aðra sem sérstakan stuðning þurfa til að njóta sín í samfélaginu.

Þegar kemur að landsmálunum er talsvert annað uppi á teningnum. Það er mun harðar tekist á og miklu sterkari kúltúr fyrir meirihluta­ræði. Það var talsverður ljóður á borgarmálapólitíkinni síðasta kjörtímabil að þar var reynt af miklu harðfylgi að innleiða átök og erjur um allt og ekkert og virtist sú stefna hafa læðst þessa 200 metra sem eru úr Alþingishúsinu yfir í Ráðhúsið. Vonandi hefur þeim ósóma verið eytt í þessum kosningum og að sama hvernig niðurstöður oddvitaviðræðna verða þá njóti borgarbúar þess að þokkaleg samstaða sé um það sem máli skiptir.