Efna­hags­lífið er aldrei fyrir­séð á Ís­landi og fyrir vikið þrífst spá­kaup­mennska í landinu þar sem sveiflu­kóngarnir ríða röftum, alt­so þeir efna­menn sem eru úr­ræða­bestir við að koma fjár­munum sínum til vinnu á hverjum degi.

Eftir situr al­þýða manna sem verður að una við gjald­miðil sem gengur af göflunum, svo til reglu­lega, en fyrir vikið er aldrei á vísan að róa í vöxtum og verð­lagi í landinu.
Og þver­sagnirnar í þessu öllu saman eru rauna­legar – nægir þar að nefna lítið dæmi sem er reyndar stórt og al­var­legt í lífi fjölda fólks í yngri kantinum sem er að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið.

Það fer í strangt greiðslu­mat, svo strangt reyndar að unga fólkið má hafa sig allt við til að komast í gegnum nálar­auga lán­veit­enda. Á endanum liggur það svo fyrir með býsna mikilli ná­kvæmni hvað fólkið ræður við að taka hátt lán. Og það skal ekki fá krónu meira en það megnar að greiða til baka.

En allt eins gerist það daginn eftir að for­kólfar Seðla­bankans af­ráða að hækka stýri­vexti af á­stæðum sem unga fólkið hefur engin tök á að verjast. For­sendu­brestur þess sem lán­takanda verður al­ger – og út­reikningarnir á greiðslu­byrðinni mega þá allt eins heita ein­hver öfug­mæla­vísa – enda hækka hús­næðis­lán þessa fólks um tugi þúsunda í hverjum einasta mánuði.

Þetta er Ís­land ó­fyrir­sjáan­leikans. Fyrr og síðar.

Hefð­bundnir ís­lenskir í­búðar­kaup­endur glíma nú al­mennt við lífs­kjara­rýrnun sem rekja má til þessara mannanna verka. Nú í vikunni hækkuðu mánaðar­greiðslur kaup­endanna um lið­lega þrjá­tíu þúsund að meðal­tali. Ætla má að dæmi­gerður fyrstu í­búðar kaupandi takist núna á við um átta­tíu þúsund króna þyngri greiðslu­byrði en fyrir réttu ári, mánaðar­lega.

Af hverju í ó­sköpunum er ekki ráðist að rót vandans?

Það eru öðru fremur sveiflu­kóngarnir sem stjórna verð­lagningu á fast­eigna­markaði um þessar mundir af á­stæðum sem rekja má til þess að eigna­myndun er hvergi meiri í nokkrum flokki fjár­festinga. Þeir sjá sér því leik á borði að kaupa upp heilu og hálfu í­búða­blokkirnar til að hagnast á stjórn­lausri verð­bólgu á fast­eigna­markaði.

Miðað við allt það reglu­verk sem til­heyrir ís­lensku sam­fé­lagi ætti að vera auð­velt að taka á þessu á ör­laga­tímum í efna­hags­málum þjóðarinnar. Eða er það svo að sveiflu­kóngarnir eigi hér frítt spil á kostnað al­mennings?