Í Fréttablaðinu 24. janúar síðastliðinn er viðtal við Erlu Björnsdóttur, konu með stórar hugsjónir. Viðtalið ber yfirskriftina „Fljótum illa sofin að feigðarósi“. Ekkert minna! Erla er sögð sálfræðingur og með doktorspróf í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands. Eins og fyrirsögnin ber með sér er Erlu annt um að við Íslendingar fáum nægan svefn, og er það virðingarvert. Hún heldur því fram að við Íslendingar séum í stórhættu vegna of lítils svefns. Doktor Erla segir: „Því miður sefur mjög stór hluti fólks allt of lítið í dag og við Íslendingar erum alveg einir á báti í þessu, en samkvæmt nýjustu tölum segist um þriðjungur sofa sex tíma eða minna, sem er bara orðinn hættulega lítill svefn sem eykur líkur á alls konar sjúkdómum, skerðir lífslíkur og fleira“.

Vera kann að Íslendingar sofi minna en aðrar þjóðir, en ekki er ég viss um að til séu óyggjandi rannsóknir því til staðfestingar, og engar tölur bendir Erla á í því sambandi, segir einungis að tölur séu til um lítinn svefn Íslendinga. En sé þetta rétt hljótum við mörlandarnir að lifa afar heilbrigðu lífi að öðru leyti, þegar litið er til þess að meðalævi okkar er með því lengsta sem gerist meðal þjóða. Og hamingjan almennt sú mesta!

Erla vitnar óspart í mikinn gúrú í svefnrannsóknum, Matthew Walker, prófessor við Berkeley háskóla í Kaliforníu. Erla segir hann „einn þekktasta svefnsérfræðing heims“ og „bara poppstjörnu í þessum heimi“. Sá hefur gefið út bókina „Why We Sleep“ sem farið hefur „sigurför um heiminn“ og hefur hann verið fenginn til að halda stjörnuerindi á ráðstefnu um svefn í Hörpu í haust og freista þess þar með að fá Íslendinga til að sofa nóg. Erla telur erindi hans verða „klárlega það stærsta sem hefur verið gert í þessum málum fyrir almenning á Íslandi“.

Í viðtali við Sigurlaugu Margréti Jónasdóttur í þættinum „Segðu mér“ á Rás 1 27. janúar, lýsir Erla því hve glöð hún hafi orðið þegar hún frétti að Donald Trump segðist bara þurfa að sofa fjórar klukkustundir á sólarhring. „Þar væri kominn einhver sem sýndi það að við þyrftum að sofa meira“ sagði Erla. Ja há! Er það nú alveg víst að Trump væri eitthvað betri þótt hann svæfi meira? Og ætli séu ekki til „góðir“ menn og réttsýnir og í þokkalegu standi andlega, sem sofa álíka mikið og hann? Og „vondir“ menn sem sofa 8 klukkustundir eða meira? Hvað sem öðru líður, virðist svefnskortur Trumps ekki hafa komið í veg fyrir árangur á sviði viðskipta og stjórnmála, né er svo að sjá sem svefnvenjur hans hafi stytt ævi hans til muna; kominn á 74. aldursárið.

Ýmsar fleiri vafasamar fullyrðingar eru í þessum viðtölum en hér hafa verið taldar. Gaman væri að sjá tölur sem styðja þær, t.d. þá að svefn sé „mikilvægasta og öflugasta forvörn gegn andlegum og líkamlegum sjúkdómum“. Svefninn er náttúrlega nauðsynleg forsenda lífsins, svefnlaus myndum við ekki lifa lengi. Hið sama gildir um fæðuna, og er vandséð hvort er mikilvægara, hún eða svefninn. En hve mikið þarf af þessu tvennu virðist nokkuð einstaklingsbundið. Og ætli fæðan sé ekki nokkuð öflug forvörn gegn sjúkdómum, ef út í það er farið? Og varðandi svefninn og andlega heilsu má kannski spyrja spurningarinnar sígildu um eggið og hænuna.

Lokaorð: Það sem doktor Erla Björnsdóttir hefur hér látið frá sér fara getur varla talist merki um vísindalegan þankagang. En sá veikleiki er svo sem ekki einskorðaður við hana í hópi „lífvísindamanna“ nútímans.