Ungur og efnilegur stjórnmálamaður, Dóra Björt Guðjónsdóttir, sendi mér og öðrum Laugavegskaupmönnum ádrepu í Fréttablaðinu 12. þm. og segir okkur viðhafa „fortíðarskvaldur“ og hafa „sveittar krumlur fortíðar“ eins og hún orðar það. Dóra Björt er ekki sammála þessum gömlu afturhaldsdurgum sem vilja hafa Laugaveginn áfram opinn fyrir bílaumferð og eru að berjast fyrir lífi verslana sinna. Hún og samverkamenn hennar í borgarstjórninni telja sig jú vera svo hipp og kúl að vilja loka fyrir alla bílaumferð á Laugavegi og hluta Skólavörðustígs árið um kring. Þetta fólk sem situr í meirihluta (með minnihluta atkvæða) segir einfaldlega að búið sé að ákveða þetta og engu verði breytt – sama hvað gömlu durgarnir segja.

Götunum hefur verið lokað undanfarin ár frá maí og fram í október í andstöðu við afgerandi meirihluta rekstraraðila og án samráðs við þá. Svo er að sjá sem borgaryfirvöld telji að kaupmenn með margra áratuga reynslu hafi ekkert vit á verslun, ólíkt borgarfulltrúum sem setið hafa tvö ár í starfi.

Afleiðingar af þessum lokunum eru satt best að segja afleitar fyrir verslun á svæðinu. Íslendingar eru mikið til búnir að gefast upp á lokunarruglinu og versla nú annars staðar. Mörg þekkt og rótgróin fyrirtæki á Laugavegi eru búin að fá nóg og hafa flutt starfsemina eða þá að þau hafa einfaldlega lagt upp laupana.

Í minni verslun hafa Íslendingar verið vel yfir 90% viðskiptavinanna en þeir eru mikið til horfnir af Laugaveginum. Þetta get ég fært sönnur á því ég rek líka verslanir í Kringlunni og í Smáralind. Árið 2011 var verslunin á Laugavegi, sem er flaggskip fyrirtækisins, söluhærri en Kringlan og Smáralind til samans. Síðan byrjaði salan að dragast saman á Laugavegi þegar lokanir hófust og að aukast á móti verulega í Kringlu og Smáralind. Þess skal getið að verslunin á Laugavegi er ekki við þann hluta sem lokað hefur verið hingað til, en það breytir ekki því að þegar neðri hluta Laugavegar var lokað byrjaði salan strax að dragast saman og það verulega. Öllum má því ljóst vera þvílíkt feigðarflan er að loka Laugaveginum alveg frá Hlemmi eins og nú stendur til.

Þetta hefur versnað með hverju árinu og 2019 náði Laugavegurinn ekki þriðjungi af sölu í Kringlu og Smáralind og rekstrargrundvöllurinn þar með brostinn í sjálfu sér ef ekki væri fyrir þrjósku mína og stolt.

Minn draumur er að fagna 50 ára afmæli verslunarinnar á Laugavegi 61 í byrjun næsta árs. Ef verður af fyrirhugaðri heilsárs götulokunum sé ég ekki að afmælishátíð fyrirtækisins verði haldin á Laugavegi heldur í Kringlu og Smáralind, því það verður engin verslun á Laugavegi!

Nú er mál að linni! Á undanförnum árum hef ég horft á eftir mörgum þekktum og rótgrónum verslunum og vinum yfirgefa Laugaveginn vegna afleiðinga götulokana. Að óbreyttri lokunarstefnu þurfa þeir að öllum líkindum að horfa á eftir mér eftir næstum 50 ár á Laugaveginum og þú líka Dóra Björt. Eru það ekki bara gleðifréttir? Þá er einum gamaldags afturhaldsdurgnum færra með „sveittar krumlur“ og „fortíðarskvaldur“?