Margir höfðu af því áhyggjur að harðnað gæti á dalnum hjá stórútgerðinni þegar hún missti „sinn mann“, Kristján Þór Júlíusson, úr sjávarútvegsráðuneytinu. Ýmsir töldu útlitið versna enn fyrir sægreifana, þegar í ljós kom að hin róttæka og harðskeytta Svandís Svavarsdóttir yrði eftirmaður hans.

Fram til þessa hefur Svandís ekki þótt neinn veifiskati andspænis stórkapítalinu, hvorki í orði né æði. Með Svandísi í sjávarútvegsráðuneytinu töldu fulltrúar greina innan sjávarútvegsins, sem fram til þessa hafa átt undir högg að sækja, eins og smábátasjómanna, sig horfa fram á bjartari daga eftir látlausa þjónkun Kristjáns Þórs við stórútgerðina.

Stefna VG hefur verið mjög hliðholl smærri aðilum í sjávarútvegi, eins og meðal annars birtist í málflutningi og framgöngu Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur, formanns atvinnuveganefndar Alþingis, á síðasta kjörtímabili. Þá kemur skýrt fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að huga beri að byggðakvóta og strandveiðum til að styðja við atvinnulíf í byggðum landsins.

Bjartsýni smábátasjómanna entist ekki lengi. Svandís Svavarsdóttir var ekki lengi gera stefnu stórútgerðarinnar og Sjálfstæðisflokksins að sinni. Þremur dögum fyrir jól gaf hún út reglugerð sem skerðir strandveiðikvóta um 1.500 tonn og byggðakvóta um næstum 1.000 tonn. Þetta fer þvert gegn stefnu VG, en þjónar vel sérhagsmunum stórútgerðarinnar sem ræður stefnu Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum.

Þessi þjónkun Svandísar Svavarsdóttur við sægreifa og stórkapítalið sýnir í hnotskurn að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er óheillabandalag sérhagsmunaafla um kyrrstöðusamfélag, þar sem smáfuglarnir mega narta í freðna jörð og stórútgerðin hefur ávallt „sinn mann“ til að gæta sérhagsmuna sinna í sjávarútvegsráðuneytinu. ■