Á þessum tíma ársins verður mér stundum hugsað til lögfræðingsins sem Ólafía Hrönn hífði á handaflinu upp á ökklunum svo skotsilfrið rann úr vösunum og klingdi á fjölunum, á hápunkti þorrablótsins í Garðabænum.

Þorrablótin hófust um helgina sem leið hérna á höfuðborgarsvæðinu. Þorrinn hefst nú samt ekki fyrr en 20. janúar, en það rótar nú ekki í hefðum hér syðra.

Þorrablótin vestra eru af öðrum toga en þau sem tíðkast syðra. Því kynntist ég árin sem ég bjó á Vestfjörðum. Í fámennu og stundum einangruðu samfélagi er nálægðin mikil, hver smábreyting á högum og lífi þorpara á pari við tilkynningarskylda skipulagsbreytingu með grenndarkynningu.

Jafnvægið og friðurinn í slíku samfélagi er umfram allt. Í því umhverfi þarf ventil til að hleypa út irringi og pirringi ársins – áhyggjum og afskiptasemi. Þar leikur þorrablótið lykilhlutverk. Í þorrabragnum eru sveitarstjórinn og aðrir leikendur teknir upp á ökklunum; hristir og hæddir með vægðarlausu gríni. Blótið er karnival fólksins, einu sinni á ári er gert grín að öllu sem má ekki rífast yfir eða skvaldra um í heyrandi hljóði. Svo ekki sé minnst á lillabláar kjaftasögur.

Maður lifandi hvað það er hlegið og maður lifandi hvað það er frelsandi. Svo er dansað inn í nóttina, við þá sem maður elskar og þá sem maður má ekki elska, þá sem maður þolir ekki og þá sem maður þarf að þola.

Þvottekta súrkarnival, það er þorrablót – vestfirskt þorrablót. Það er auðvelt að sakna Vestfjarða.