Í vistkerfi nýsköpunar er mikilvægt að fjármagn til fjárfestingar sé ávallt til staðar. Sú hefur hreint ekki alltaf verið raunin á Íslandi, sem þýðir að tækifæri hafa glatast í gegnum tíðina. Nýsköpun þarf súrefni í formi fjárfestinga til að hugvit og mannauður, sem er sannarlega til staðar t.d. í vísindasamfélaginu, fái notið sín. Þegar netbólan sprakk um þúsaldamótin var í raun ekkert fjármagn í umferð til fjárfestinga. Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, sem var nánast eini sjóðurinn sem fjárfesti í nýsköpun, var fullfjárfestur og hafði í nokkur misseri ekkert fé til fjárfestinga og styrkjaumhverfið var hverfandi. Nýsköpunargjáin var um aldamótin sérlega djúp, óárennileg og súrefnissnauð.

Fyrir tilstuðlan sprota- og tæknifyrirtækja innan Samtaka iðnaðarins og markvissu samtali við stjórnvöld tókst að efla Tækniþróunarsjóð svo að muna tók um þessa samkeppnisstyrki og koma á endurgreiðslu R&Þ kostnaðar að norskri fyrirmynd sem hefur skilað miklum árangri. Það eru fjölmörg leiðandi fyrirtæki í dag sem þakka tilvist sína því að hafa notið í upphafi styrkja frá Tækniþróunarsjóði og endurgreiðslan hefur eflt vöxt og samkeppnishæfni nýsköpunarfyrirtækja.

Skilningur á vægi nýsköpunar hefur stóraukist á undanförnum árum hjá stjórnvöldum, atvinnulífi og háskólaumhverfinu. Til marks um þetta er efling Tækniþróunarsjóðs undanfarin ár, nýleg stofnun Auðnu Tæknitorgs, sem hjálpar samfélaginu við að hagnýta rannsóknarniðurstöður úr vísindasamfélaginu, sinna hugverkavernd og skapa nýja sprota, spennandi fjárfestingartækifæri og samkeppnishæft atvinnulíf með því að koma vísindum í vinnu. Tilkoma viðskiptahraðla hefur fjölgað og bætt lífslíkur sprotafyrirtækja. Og nú síðast má nefna þá vinnu sem lögð hefur verið í nýsköpunarstefnu og stofnun Kríu-sjóðsins. Eins og ráðherra nýsköpunar hefur sagt; nýsköpun er alls staðar, hún er bæði hugarfar og hreyfiafl. Ráðherra menntamála hefur bent á áhugaverða tíma fram undan á Íslandi vegna framfara í vísindum og tækni og að störfin verði í auknum mæli til í gegnum nýsköpun. Jafnvel seðlabankastjóri talar fyrir nauðsyn fjárfestinga í nýsköpun.

Í kjölfar styrkja og englafjárfesta (efnaðir einstaklingar og fjölskyldur) koma iðulega vísissjóðir (Venture Capital sjóðir, framtaksfjárfestingasjóðir) og voru nokkrir slíkir stofnaðir hér á landi í kringum 2014 og færðu súrefni inn í sprotaumhverfið.

Í samtölum við sjóðstjóra hefur komið fram að vísissjóðirnir eru nú meira eða minna fullfjárfestir og því aðgengi sprotafyrirtækja að fjármögnun að þverra. Það er því fagnaðarefni að atvinnu- og nýsköpunarráðherra hefur tilkynnt tilurð Kríu; 2,5 milljarða króna sjóðs sem mun leggja til mótframlag við fjárfestingar í sprotafyrirtækjum, og eins og ráðherra orðaði það manna fyrst „leggja sprotafyrirtækjum til súrefni“.

Heilbrigt nýsköpunarumhverfi þarf á súrefni að halda alla leið í mark, bæði í spretthlaupi og langhlaupi.

Vísissjóðir hafa takmarkaðan líftíma, venjulega 10 ár, og þurfa innan þess tíma að hafa valið, fjárfest, selt og hagnast á fjárfestingum í fyrirtækjum til að skila arði við uppgjör sjóðsins í lok líftímans. Allt tekur þetta tíma og 3-5 árum eftir fjárfestinguna þarf að huga að sölu hlutabréfanna. Þessar tímaskorður vísisfjárfestinga hafa ýmislegt í för með sér; pressu á fyrirtækin að standa sig (sem er gott), vaxa hratt og halda fókus sem hentar vel sprotum þar sem þróun vöru eða þjónustu gengur hratt fyrir sig og nær á markað innan fárra ára. Þessi tímarammi hentar vel, t.d. í upplýsingatækni, tölvugeiranum, matvælatækni og fleiru.

Öðrum gerðum sprota hentar vísismódelið miklu síður; lyfjaþróun, líftækni, grænni tækni, nanó­tækni; eða almennt nýsköpun sem byggir á rannsóknum og þróun, djúpvísindum og djúptækni sem við þurfum á að halda til að mæta áskorunum samtímans. Þar er fjárfestingargluggi vísissjóðanna allt of þröngur. Tímaskorður vísissjóðanna henta síður þroskaferli þessara fyrirtækja og hafa sum þeirra sagt sig frá fjárfestingum í þessum mikilvæga geira nýsköpunar fyrir vikið. Erlendis heyrist að vísismódelið sé brotið þegar kemur að vísindalegri nýsköpun og djúptækni.

Slík nýsköpun krefst djúpra vasa og þolinmóðs fjármagns. Í Bretlandi hefur verið sýnt fram á að þolinmóð fjárfesting yfir lengra tímabil, 10-15 ár, í slíkum vísindasprotum er mun líklegri til að ná virðisaukanum, skila góðri ávöxtun og mikilvægum samfélagslegum ávinningi. Hér vantar þetta þolinmóða fjármagn.

Það er ljóst að til að fjárfesting samfélagsins í vísindastarfi skili sér í vísindalegri nýsköpun þarf að finna farveg fyrir þolinmótt fjármagn með sjóði sem hefur getu og vilja til að fjárfesta í nýjustu tækni og vísindum. Þetta væri verðugt verkefni fyrir lífeyrissjóðina að leysa.

Niðurstaðan er sú að heilbrigt nýsköpunarumhverfi þarf á súrefni að halda alla leið í mark, bæði í spretthlaupi og langhlaupi. Allar þessar mismunandi gerðir fjármagns verða að vera til staðar; samkeppnisstyrkir í upphafi, áhugasamir englar, vísissjóðir fyrir spretthörð fyrirtæki, og þolinmóðir fjárfestingarsjóðir fyrir vísinda- og djúptæknirisa framtíðarinnar.

Við þurfum súrefni á línuna!

Höfundur er framkvæmdastjóri framkvæmdastjóri Auðnu Tæknitorgs