Ég sest við stofuborðið með fartölvuna til að skrifa pistil. Innan úr barnaherberginu heyrast hlátrasköll. Því næst: „Hei, taktu mynd af rassinum á mér.“ Í venjulegu árferði hefði uppástungan orðið til þess að foreldri kæmi sem stormsveipur inn í herbergið með ygglda brún og umvandanir. En á tímum þegar kórónaveiran veikir verklag og ryður burt leikreglum hafa hefðbundnir uppeldisstaðlar verið settir til hliðar.

Hér í London þar sem ég bý ríkir svo gott sem útgöngubann vegna COVID-19. Í tvær vikur höfum við kúldrast fjögur í íbúð, tvö fullorðin og tvö börn. Eftir hnökra í byrjun þar sem foreldrarnir sátu daglangt með höfuð í höndum sér og veinuðu „hvar hafa dagar lífs míns lit sínum glatað“ tókst okkur að finna nýjan lífstakt.

Í veröld þar sem hinir fullorðnu teljast enn starfsmenn milli níu og fimm á daginn en einnig kennarar, matráðar, ræstitæknar, íþróttaþjálfarar og skemmtikraftar er lykillinn að því að komast lífs af að finna gleðina í hinu smáa: Kaffibolla morgunsins, óvenjugóðum COVID-19 brandara á Facebook, óvenjugóðum prumpubrandara frá börnunum, Joe Exotic þáttunum á Netflix, súkkulaðimolanum eftir kvöldmatinn og gleðiópunum sem kveða við þegar einkadóttirin aðstoðar við kökubakstur og hrópar „ég braut egg, ég braut egg“ af svo einlægum ákafa að ætla mætti að hún hefði fundið upp bóluefni við kórónaveirunni.

Veruleikinn er kannski eins og ef kvikmyndirnar Groundhog Day og Armageddon rynnu saman í eina – en góðu fréttirnar eru þær að með hverjum degi sem líður færumst við einum degi nær því að mega opna Nóa páskaeggin sem bárust okkur með pósti frá Íslandi. Eftir tvær vikur í stofufangelsi taldi ég mig hafa neglt nýja lífsstílinn. En skyndilega runnu á mig tvær grímur.

Að vera og gera

Fyrir ári rakst ég á færslu á Facebook sem sat lengi í mér. Í henni lýsti einkar skarpskyggn Facebook-vinur áhyggjum sínum af óhóflegum kröfum samtímans til tilverunnar: - Þú þarft ekki bara að vera í leikfimi – þú þarft að vera í formi eins og atvinnumaður. - Þú þarft ekki bara að vera í góðri vinnu – þú þarft að vera leiðtogi. - Þú þarft ekki bara að eiga börn – þau þurfa að vera framúrskarandi. - Þú þarft ekki bara að fara í frí – þú þarft að vera í Víetnam. - Þú þarft ekki bara að borða hollt – þú þarft að vera vegan. - Þú þarft ekki bara að vera vel menntuð/aður – þú þarft doktorspróf. - Þú þarft ekki bara að stunda útivist – þú þarft að vera landvættur. - Þú þarft ekki bara að eiga fallegt heimili – það þarf að fylgja nýjustu tískustraumum.

Ef kórónavírusinn kenndi okkur aðeins eina lexíu var ég ekki í nokkrum vafa um hver hún yrði: Að láta af þeim ósið að líta á lífið sem keppnisíþrótt. Umsókn minni um starf völvu vikunnar hefur hins vegar verið hafnað. Lífsgæðakapphlaupið víkur nú fyrir súper-sóttkví. Þau skilaboð berast fólki í sjálfseinangrun að það eigi að nýta tímann í að skapa, skrifa, lesa, mála, prjóna, halda matarboð á Zoom – hægeldað og lífrænt – greiða sér á morgnana, hlaupa maraþon á svölunum, sinna góðgerðarmálum, taka doktorspróf í faraldsfræði til að mega tjá sig um kórónavírusinn, hugleiða, baka, skipuleggja skápana og lakka gólfin.

Komir þú ekki úr sóttkvínni með nýja háskólagráðu upp á vasann, tvö ný tungumál á hraðbergi og fjölskylduna uppstrílaða í heimasaumuðu hefur þér mistekist. Úr einangruninni í London vil ég hins vegar miðla af tveggja vikna reynslu og senda umheiminum eftirfarandi ráð: Nýtið tímann í að vera en ekki gera. Komir þú úr sóttkví með nokkur ný grá hár á höfði og eilítið skelkað bros á vör hefur þér tekist vel upp.