Fluttar voru fréttir af því nýlega að samkvæmt mælingum Maskínu hefðu Íslendingar áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi. Spurningin var: Hefur þú miklar eða litlar áhyggjur af samþjöppun í sjávarútvegi í kjölfar kaupa Síldarvinnslunnar á Vísi í Grindavík? Látum liggja á milli hluta hversu leiðandi þessi spurning er, vel kann að vera að fólk hafi áhyggjur af samþjöppun í atvinnulífinu og rök eru þar vafalaust bæði með og á móti. Það sem þótti sérkennilegra en hin leiðandi spurning Maskínu, var val Stöðvar 2 á viðmælanda.

Viðreisn hefur gengið hart fram með stefnu um innköllun aflaheimilda og endurúthlutun þeirra með uppboðum. Augljós og þekkt áhrif slíkra ráðstafana eru aukin samþjöppun, þar sem hinir stærri og fjárhagslega sterku bera sigur úr býtum og heimildir hinna smærri fjara út. Þetta staðfesti þingflokksformaður Viðreisnar, Hanna Katrín Friðriksson, á Sprengisandi 17. júlí í sumar. Þegar rætt var um samþjöppun veiðiheimilda sagði hún: „Ég geri ráð fyrir því að hún [samþjöppunin] geti orðið töluverð við þessar breytingar sem við höfum lagt til.“

Víkur þá sögunni að sérkennilegu vali á viðmælanda Stöðvar 2, þegar fréttamaður leitaði álits á niðurstöðu áðurgreindrar könnunar. Þar var fyrir svörum formaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Hún sagði niðurstöðuna ekki koma á óvart. Koma þurfi á „réttlátu gjaldi fyrir afnot hennar [auðlindarinnar] og skýrar reglur um samþjöppun sjávarútvegsins.“

Það er undarlegt að fréttamaður hafi ekki innt formanninn eftir því hvernig stefna Viðreisnar færi saman við niðurstöðu áðurgreindrar könnunar. Flokkurinn boðar jú skýrlega að auka enn á áhyggjur fólks af samþjöppun í sjávarútvegi. Næst verður kannski spurt um hvort fólk hafi miklar eða litlar áhyggjur af aukinni samþjöppun og byggðaröskun vegna uppboða á aflaheimildum. Ég hygg að flestir hafi áhyggjur af því, ef frá eru taldir kjósendur þess flokks sem beinlínis hefur það á stefnuskránni að flýta samþjöppun.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.