„Sumarið er tíminn,“ er sungið í vin­sælu dægur­lagi. Þessa dagana eru margir lands­menn á ferð og flugi og sumar­leyfis­tíminn í há­mæli.

Sjálf er ég stödd norður í landi í góðu yfir­læti hjá systur minni og fjöl­skyldu hennar. Ég las ný­lega minningar­orð um góða konu sem lést því miður langt fyrir aldur fram. Það sem stóð upp úr að mínu mati voru minningar um ferða­lög og að hún hafi verið til staðar.

Ferða­lag hverrar mann­eskju er ein­stakt. Sumir ferðast um Karíba­hafið en aðrir verja stund við næsta vatn. Það fyrra þarf ekki endi­lega að skapa meiri hamingju.

Hamingja er hugar­far. Hin 85 ára Nadine Stair kemst vel að orði þegar hún skrifar um hvað hún myndi gera ef hún gæti lifað aftur. Hún nefnir meðal annars að hún myndi vilja gera fleiri mis­tök, slaka á, vera kjána­legri og taka færri hluti al­var­lega. Sömu­leiðis klífa fleiri fjöll, synda yfir fleiri fljót og ganga um ber­fætt. Nadine fjallar um að eiga fleiri andar­tök.

Lífið líður á­fram frá andar­taki til andar­taks. Það sem við skiljum eftir okkur er hvernig þessum andar­tökum var varið og hvar við vorum þegar þau liðu á­fram. Vorum við til staðar í andar­takinu með fólkinu okkar eða með hugann fastan í for­tíð eða fram­tíð?

Lífið gerist í andar­takinu. Þar verða minningar til og við náum djúpum tengslum við hvert annað. Minningarnar í andar­takinu verða svo eins og gim­steinar sem við skiljum eftir við veginn. Nýtum sumar­fríið til að hlaða batteríin, vera til staðar í andar­takinu og safna gim­steinum í formi minninga.