Hvers konar fyrirsögn er þetta á grein sem annars er á íslensku? Vonandi vekur hún forvitni, hvort sem lesandinn kann svahíli eða ekki. "Súkúma wíki" er heiti á grænmeti, stökum kálblöðum af kali-ætt, eins og grænkálið okkar, helsta meðlæti úgalí maískökunnar sem er uppistaða flestra máltíða í Keníu. Þetta merkilega heiti þýðir í raun að "ýta áfram vikunni", eða þreyja hana, að lifa af daginn og vikuna. Súkúma wiki er jafnframt dæmi um einhæft, fátækt og berskjaldað samfélag, þó svo það sé næringarfræðilega góð samsetning að borða úgalí og súkúma wíki saman.

Þróunarsamvinna snýr yfirleitt að fátækum samfélögum sem eru viðkvæm og berskjölduð fyrir ytri áföllum, hvort sem það eru náttúruhamfarir, félagslegar hremmingar eða ósýnilegir sjúkdómar, líkt og Covid. Markmið hennar er að efla einstaklinga og samfélög þeirra með ýmsum hætti til að tryggja grundvöll fyrir mannsæmandi lífi og draga úr áhættuþáttum veikburða samfélags. Verkefni á sviði þróunarsamvinnu geta beinst að ákveðnum sviðum, svo sem að tryggja hreint vatn, mennta fólk, byggja upp innviði, huga að umhverfisvernd eða að efla heilsuvernd með fræðslu, bólusetningum og aðgengi að heilbrigðisþjónustu svo eitthvað sé nefnt. Stór þróunarsamvinnuverkefni fela oft í sér samþættingu margra þessara áhersluatriða.

Ein áhersla þróunarsamvinnu er að byrgja brunninn, koma í veg fyrir skakkaföll og manntjón, t.d. með vernd mæðra og ungbarna eða tryggja aðgang að öruggu neysluvatni, lyfjum og læknisþjónustu. Annar þáttur, ekki síður mikilvægur, miðar að því að byggja upp samfélagið og komast áfram eða upp stigann. Þar skiptir t.d. uppbygging innviða, fæðuöryggi, heilsugæsla, menntun sem flestra og valdefling kvenna miklu máli. Bæði þarf að mæta grunnþörfunum með fyrirbyggjandi aðgerðum og stefna að því að gera fólki kleift að lifa ekki bara af til næsta dags eða fram í næstu viku heldur að hjálpa því að skapa öflugt og sjálfbært samfélag sem ræður við sveiflur og skakkaföll. Víðtæk og öflug þróunarsamvinna leiðir þannig af sér meiri jöfnuð, frið og öryggi.

Menntun snýst um meira en "að lesa, skrifa og reikna". Haldgóð menntun undirbýr fólk undir frumkvæði, að stunda sjálfbæra nýtingu lands, vatns og annarra auðlinda, varðveita þá þekkingu sem fyrir er, samtvinna hana nýrri og örum breytingum og horfa til framtíðar. Þróunarsamvinna sem skilar góðum árangri lætur eftir sig öflugt samfélag og kraftmeiri einstaklinga sem skoða hvaða tækifæri þeir hafi og nýta þekkingu sína til að bæta eigin hag og samfélagsins.

Í þremur lotum bjuggum við fjölskyldan langt úti í sveit í Pókothéraði í norðvesturhluta Keníu, alls rétt rúman áratug. Þar er hvorki vetur né sumar, bara þurrkatími og regntími. Lífið var hvað mest krefjandi fyrir okkur árin þrjú í hálfeyðimörkinni í Kongelai, en við bjuggum þó í einföldu steinhúsi sem hélt flestum slöngum, sporðdrekum og eitruðum kóngulóm úti. Vatn þurftum við að sækja 6 km leið. Sólarorkunemar hlóðu 12 volta rafgeymi yfir daginn sem dugði okkur yfirleitt á kvöldin, ísskápurinn gekk fyrir steinolíu og eldavélin fyrir gasi - þegar það var fáanlegt. Samanborið við fólkið í kringum okkur vorum við forréttindafólk. Samfélagið einkenndist af fátækt, einföldu mataræði, skorti á hreinu vatni, 40 stiga hita á þurrkatímanum, mjög takmarkaðri mæðra-, barna- og heilsuvernd, barnadauða, uppskerubresti, lélegum innviðum, ófriði milli þjóðflokka og aðeins útvaldir náðu lengra en að ljúka fyrstu bekkjum grunnskóla. Lífsbaráttan var svo hörð að suma mánuði var ekki til neitt súkúma. Fólk sauð trjálauf klukkustundum saman til að losna við eituráhrif. Og vatnið í suðuna þurfti að sækja langar leiðir.

Aðstæður hins viðkvæma samfélags höfðu ekki sömu áhrif á okkur og þau en það nísti sál okkar að horfa upp á kjör sumra, ekki síst árið sem þurrkurinn eyðilagði sem mest eða þegar fólk lagði á flótta með aleigu sínar á einu burðardýri vegna árásar frá ræningjum í Úganda. Sumum gátum við hjálpað en ekki öllum. Ljóst var að samfélagið þurfti að breytast á margan hátt til að auka lífsgæðin og hjálpa fólki til mannsæmandi lífs. Mörg skref og handtök þurfti og þarf enn til að skapa sæmilega öruggt og sjálfbært samfélag. En það eru þessi mörgu skref, stór og smá, sem skipta máli og hafa komið samfélaginu til góða. Þar sameinast kraftar ýmissa samtaka sem sinna uppbyggingunni á mörgum sviðum. Óteljandi Íslendingar leggja sitt af mörkum, fyrir það viljum við þakka og koma þakklæti þeirra sem notið hafa til skila. Hvert framlag skiptir máli.

Margir telja að með sömu þróun muni sjálfbærni nást á flestum sviðum í Afríku kringum árið 2030, viðmiðunarári heimsmarkmiða SÞ, ef... já, ef ekki verða skakkaföll. Fram á síðasta ár var einkum talað um borgarastyrjaldir, stríðsátök eða loftslags- og umhverfisvá sem megin ógnir þess að markmiðin næðust. Vonir stóðu til að lýðræðishugsun yrði orðin almenn og spilling farin að víkja fyrir gagnsæi og ábyrgri fjármálastjórn.

Í upphafi ársins 2020 hugsuðum við: "Einn áratugur enn." En þá birtist ný, ósýnileg ógn, COVID. Eitt og annað gott sem gerst hafði var lagt á ís, eða varð að bíða. Lífsviðurværið hvarf. Börn fengu ekki að fara í skólann, þar sem þau fengu þó næringargóðan mat. Brottfall úr skólum jókst. Eitt dæmi eru stúlkur sem voru í öruggu skjóli heimavistar framhaldsskólans Propoi Girl's High School, sem byggður hefur verið að mestu fyrir fjármagn frá Kristniboðssambandinu og utanríkisráðuneytinu. Senda varð allar 530 stúlkurnar heim og sumar skila sér ekki aftur vegna ótímabærra þungana, giftinga eða brottfalls af öðrum sökum. Stefna lífsins breyttist og tækifæri glötuðust sem kom verst niður á þeim fátækustu. Breytt staða í kjölfar COVID er ákall um að efla enn frekar þátt okkar í þróunarsamvinu og forðast að týna okkur í því sem við sjálf misstum í faraldrinum. Ætli það séu ekki smámunir miðað við tap hinna fátæku sem byggja berskjölduðustu samfélög jarðar? Vonandi viljum við meiri jöfnuð, öruggari samfélög, sjálfbærni og bjartari framtíð um heim allan. Höldum ótrauð áfram. Lífið er meira en súkúma wíki.

Greinin er skrifuð í tilefni af fræðsluátakinu Þróunarsamvinna ber ávöxt sem er á vegum allra helstu íslenskra félagasamtaka í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu, í samstarfi við utanríkisráðuneyti.

Höfundur er framkvæmdastjóri Kristniboðssambandsins.

Greinin er skrifuð í tilefni af fræðsluátakinu Þróunarsamvinna ber ávöxt sem er á vegum allra helstu íslenskra félagasamtaka í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu, í samstarfi við utanríkisráðuneyti.