Í kjara­samningum aðildar­fé­laga BSRB sem undir­ritaðir voru í vor, var samið um styttingu vinnu­vikunnar. Þessa dagana er unnið að undir­búningi fræðslu­efnis svo vinnu­staðir geti með haustinu hafið sam­tal um styttingu í dag­vinnu og stjórn­endur geti hafið undir­búning styttingar hjá vakta­vinnu­fólki.

Stytting vinnu­vikunnar án launa­skerðingar, hefur verið eitt af stærstu bar­áttu­málum BSRB undan­farin ár. Rann­sóknir sýna ó­tví­ræða kosti þess að stytta vinnu­vikuna. Á­nægja í starfi eykst, heilsa batnar, mögu­leikar til sam­þættingar einka­lífs og vinnu aukast og jafn­rétti eykst, án þess að af köst minnki.

Út­færslan á styttingu vinnu­vikunnar verður ólík hjá dag­vinnu­fólki og þeim sem starfa í vakta­vinnu. Á þeim vinnu­stöðum þar sem unnið er í dag­vinnu, mun styttingin byggja á sam­tali starfs­fólks og stjórn­enda um hvernig megi nýta tímann betur, og á vinnu­vikan að styttast í síðasta lagi um næstu ára­mót. Til að auð­velda fólki að hugsa hlutina upp á nýtt má velta fyrir sér af hverju vinnu­vikan er 40 stundir, þrátt fyrir að engin vísinda­leg rök segi til um að það henti best öllum okkar fjöl­breyttu störfum.

Eitt af því sem auð­veldar betri nýtingu vinnu­tíma eru tækni­fram­farir og ný þekking. Þannig geta til dæmis margir vinnu­staðir nýtt sér þá nýju þekkingu sem skapaðist um fjar­vinnu, þegar kóróna­veiran herjaði á sam­fé­lagið í vor. Sömu­leiðis þarf að ræða verk­lag, vinnu­fyrir­komu­lag og hvar sóknar­færin liggja, svo að ná megi fram gagn­kvæmum á­vinningi starfs­fólks og vinnu­staðar, af styttri vinnu­viku. Þá þarf að á­kveða í sam­einingu hversu mikið eigi að stytta vinnu­vikuna, en heimilt er að stytta um allt að fjórar stundir á viku, og loks hvort styttingin sé dag­leg eða viku­leg, svo dæmi séu nefnd.

Á vakta­vinnu­stöðum verður vinnu­vikan stytt að lág­marki um fjórar stundir, en að há­marki um átta stundir, hjá þeim sem vinna á þyngstu vöktunum. Þar sem breytingin krefst mikils undir­búnings og sam­tala á vinnu­stað, mun hún taka gildi 1. maí á næsta ári. Þar er í raun um leið­réttingu á vinnu­tíma að ræða, vegna nei­kvæðra á­hrifa þungrar vakta­byrði, þar sem unnið er allan sólar­hringinn, á and­lega og líkam­lega líðan vakta­vinnu­fólks.

Margir þeirra sem hafa valið sér hluta­starf í vakta­vinnu, segja að ekki sé hægt að vinna í fullu starfi vegna þess hve þung verk­efnin eru og svo mikill tími fari í hvíld milli vakta, að raun­veru­legt frí sé lítið sem ekkert. Vakta­vinnu­fólk sem hefur fram að þessu valið að vera í hluta­starfi, getur því eftir breytingarnar unnið jafn­marga tíma en aukið starfs­hlut­fall og þar með hækkað laun sín. Meiri­hluti vakta­vinnu­fólks hjá ríki og sveitar­fé­lögum eru konur og því um tíma­bæra og mikil­væga jafn­réttis­að­gerð að ræða.

Það hefði ekki komið til styttingar vinnu­vikunnar nema fyrir mikla bar­áttu og ó­rjúfan­lega sam­stöðu BSRB-fé­laga. Af því megum við vera stolt. Við hvetjum því fé­lags­menn til að vera virka í sam­talinu fram undan á sínum vinnu­stað og njóta aukins frí­tíma.