Þann 1. maí hófst nýtt vakta­fyrir­komu­lag í ís­lenskum fangelsum og tengist það styttingu vinnu­vikunnar. Eftir­leiðis starfa fanga­verðir að­eins átta klukku­stundir á dag í stað tólf tíma áður. Margir fanga­verðir hafa komið að máli við mig og úr öllum fangelsunum og er ó­hætt að segja að þetta hefur valdið ólgu.

Til þess að manna í allar stöður sam­kvæmt fyrir­komu­laginu þarf að ráða í 27 ný stöðu­gildi í fangelsunum. Fangelsis­mála­stofnun hefur í raun ekkert í höndunum um það hvernig á að leysa málið en hefur farið fram á það við stjórn­völd að fá að ráða alla vega ní­tján nýja fanga­verði. Stjórn­völd hafa boðið á móti að ráðnir verði fimm­tán nýir fanga­verðir. Að mati þeirra fanga­varða sem komið hafa að máli við mig mun ekki verða hægt að tryggja öryggi fanga og fanga­varða. Vöktum þar sem einn vörður verður á vakt mun fjölga til muna og ó­lík­legt að varð­stjórar munu vera á vakt nema hluta úr degi.

Ekkert hefur verið fjallað um þessi mál í fjöl­miðlum og annars nokkuð há­vær verka­lýðs­hreyfing hefur þagað þunnu hljóði. Fanga­verðir vita ekki hvort þeir munu hækka eða lækka í launum eða jafn­vel missa af þeim launa­hækkunum sem voru í far­vatninu. Nú er svo komið að margir þeirra í­huga að róa á önnur mið. Við það verður ekki unað. Það verður að bregðast við og koma til móts við fanga­verði til þess að reynsla og þekking hverfi ekki úr fangelsunum. Ó­vissan er al­gjör og svörin sem fanga­verðir fá eru loðin ef ein­hver.

Verst verður staðan á Hólms­heiði þar sem lík­lega munu að­eins þrír fanga­verðir sinna nætur­vöktum og það er full­kom­lega ljóst að það er glóru­laust. Þá liggur fyrir að ekki verða kallaðir út fanga­verðir á auka­vaktir þegar for­föll verða boðuð og það eðli­lega skapar enn frekari vanda­mál. Þetta mun bitna hvað verst á skjól­stæðingum Fangelsis­mála­stofnunar sem fá færri úti­vistir, verða lang­tímum saman frá vinnu, námi og tóm­stundum og jafn­vel fá ekki mynd­sím­töl við fjöl­skyldur eða vini svo vikum skiptir.

Vissu­lega eru kostir við nýja fyrir­komu­lagið. Fanga­verðir geta orðið við­skota­illir á tólf tíma vöktum sem bitnar á sam­skiptum við fanga og því má gera ráð fyrir að fanga­verðir verði já­kvæðari og upp­lits­djarfari en áður. Það mun þá létta and­rúms­loftið á annars þungum vinnu­stað.

Við hjá Af­stöðu teljum að nýja vak­ta­kerfið sé til góðs, að sjálf­sögðu, en það er á sama tíma ljóst að stjórn­völd verða að veita Fangelsis­mála­stofnun það fjár­magn sem þarf til þess að manna allar stöður og skal þá engan af­slátt gefa á öryggi fanga og fanga­varða. Það gæti komið í bakið á vald­höfum. Fangelsis­mála­stofnun hefur svo gott sem alltaf verið fjár­svelt og hefur það bitnað á þjónustu hennar til endur­hæfingar þeirra sem þurfa að sæta fangelsis­vist. Það hefur haft veru­lega slæm á­hrif á sam­fé­lagið í heild og við megum ekki við því að enn sé dregið úr þjónustunni. Við viljum betra fólk út í sam­fé­lagið eftir af­plánun. Til þess þurfum við hæfa fanga­verði og nóg af þeim.

Guð­mundur Ingi Þór­odds­son, for­maður Af­stöðu, fé­lags fanga á Ís­landi